Stimpilgjald

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:25:10 (4616)

1997-03-18 17:25:10# 121. lþ. 92.15 fundur 386. mál: #A stimpilgjald# (kaupskip) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:25]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Nú erum við þrjú sem hér sitjum komin inn í mjög merkilega umræðu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefnir að það þurfi að laga umhverfi íslenskra fyrirtækja og íslenskra skipa. Ég tek undir að það hlýtur að fara að verða okkur umhugsunarefni þegar við lítum á reksturinn á þessu litla þjóðfélagi okkar, að alls staðar þar sem okkur ber niður skuli það vera þannig að það sé of hátt eða of mikið skattað. Það finnst launamanninum. Það hefur fyrirtækjunum þótt, að vísu minni ég á það að við höfum lækkað mjög skatta á fyrirtæki á síðasta kjörtímabili. Það finnst þeim sem eru að borga skattagjöld, við höfum nefnt fyrr í umræðu vörugjöld og núna stimpilgjöld. Fólk sem er að kaupa sér íbúðir borgar há stimpilgjöld af lánunum o.s.frv. Við getum endalaust staldrað við það af hverju við þurfum að borga svona mikla skatta til þjóðfélagsins, miðað við aðra og borið okkur saman. Auðvitað vitum við að einn hluti þessarar skýringar er sá að við rekum öflugt þjóðfélag með fáum einstaklingum. Önnur skýring er sú að við höfum um langan tíma lifað um efni fram og erum þess vegna núna í raun og veru að stríðmjólka hvern einasta tekjumöguleika til þess bæði að standa undir því sem er, því sem á að verða og greiðslum af skuldum okkar. Þessa umræðu þekkjum við öll.

Ég brást við og kom hingað upp aftur vegna þess sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, að ekki væru greidd sömu laun alls staðar, við erum sammála um það. Það er hægt að vísa til þess að lág laun í skipaflotanum skapi kannski lægri flutningskostnað og þar með lægra vöruverð hjá okkur og það þurfi að laga umhvefi íslenskra fyrirtækja. Þetta er ekki svona einfalt. Það er ekki svo einfalt, ágætu þingmenn, að það sé hægt að lagfæra umhverfi íslenskra fyrirtækja þannig að það bregðist við þessum mikla vanda sem er t.d. ráðning skipshafnar á þessum ofboðslega lágu launum, eins og við vorum að ýja hér að áðan, frá þeim löndum þar sem eru 100 dollara mánaðarlaun. Við sköpum ekki umhverfi fyrirtækja okkar með því að reyna að lækka launin þar. Hvað er þá hægt að gera? Hvernig á að bregðast við því að efnahagslegar kröfur, kröfur um félagsleg réttindi eru svo miklar hjá okkur í Evrópu og Bandaríkjunum á meðan þessi mál eru í miklum ólestri um leið og við förum inn í löndin sem áður kölluðust austan járntjalds, að ég tali nú ekki um ef við færum okkur lengra austur fyrir og förum yfir í aðrar heimsálfur, Afríku og Asíu? Hvernig eigum við að bregðast við því að vörurnar sem við erum að kaupa eru í sumum tilfellum unnar af börnum, í barnaþrælkun eins og það er oft kallað, unnar af fólki sem er með engin félagsleg réttindi, engan veikindarétt, engan stuðning til nokkurs skapaðs hlutar, fólki sem býr jafnvel í bárujárnskofum eða hrófatildrum og rétt hefur í sig og á? Ætlum við að bregðast þannig við að við getum lækkað útgjöld hjá okkur?

Þessari spurningu er ekki mikið hreyft í sölum Alþingis. En henni er hreyft í kringum okkur og bæði sú sem hér stendur og sá sem situr á forsetastóli hafa átt fundi með fólki sem er að fjalla um þessi mál og þá er ég að vísa til forustumanna jafnaðarflokka Norðurlandanna. Hvernig telur það fólk að bregðast eigi við? Það er fólk sem hefur ákveðið að vera aðilar að alþjóðlegu samstarfi Evrópusambandsins, EES, t.d. Noregur, eins og við. Þau bregðast við með því að reyna að beita sér sem áhrifamenn fyrir því inn í samstarf í Evrópu að inn í alla viðskiptasamninga séu tekin ákvæði um velferðarþætti, um það sem kalla má sósíalklásúlur, um félagsleg réttindi þess fólks sem er að vinna þau verkefni sem viðskiptasamningarnir beinast að. Ég get ekki stillt mig um það úr því að umræðan er komin í þennan farveg og við erum að horfast í augu við að það er of einfalt að trúa því að breyting á lögum um stimpilgjald breyti þeim þáttum sem hér er verið að fjalla um. Þetta er stærra mál og víðtækara og við komum þess vegna inn á launin. En vegna þeirrar umræðu sem hér varð hjá hv. þm. Pétri Blöndal, þá finnst mér mjög mikilvægt að benda á að það er skylda okkar sem lengra erum komin á Vesturlöndum, erum bæði upplýstari, menntaðri og fróðari, höfum farið í gegnum ferli sem skilar okkur mjög öflugum þjóðfélögum, sterkum skólum, viðurkenndum réttindum o.s.frv., að við getum ekki flotið að feigðarósi með það að hinum megin á hnettinum skuli vera fólk sem hefur ekkert af þessu og vinnur kannski langan vinnudag fyrir smánarlaun, ræður sig á skip sem sigla undir einhverjum fánum hingað upp til okkar til að útvega okkur vörur og eru á smánarlaunum.

Þetta er svo stórt mál að um það gæti farið fram mikil og víðtæk umræða hér. Við Íslendingar höfum mjög þröngan sjóndeildarhring. Við erum mjög sjálfmiðuð í umræðu okkar um samvinnu með öðrum löndum. Við erum mjög sjálfmiðuð gegar við erum að ræða EES og Evrópusambandið en þarna úti er fólk, þverpólitískt, að ræða í hvaða stöðu við erum, Evrópa, hvernig bregðumst við við því að svona mikill mannfjöldi, milljarðar, skuli vera tilbúinn að vinna fyrir næstum því öngvum launum, eins og sagt væri, bara til einhvers takmarkaðs viðurværis og það hittir okkur fyrir.

Það sem hér er verið að leggja til er gott mál en þetta er bara eins og toppurinn á ísjakanum í því sem í raun og veru skiptir máli í samskiptum okkar við aðrar þjóðir og í því hvernig umhverfi við ætlum að skapa okkar fyrirtækjum og við hvað við erum að keppa.