Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 18:09:45 (4625)

1997-03-18 18:09:45# 121. lþ. 92.21 fundur 390. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# þál., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:09]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir hv. þm. við þessari tillögu. Að sjálfsögðu er vandrataður meðalvegurinn. Aðalvandinn í þessu dæmi er einmitt hversu mikið á að greiða fyrir aflann sem útgerðin ekki notar af kvóta sínum. Ég hef stungið upp á 5%--15% en það verður að sjálfsögðu rætt í hv. sjútvn. Ég vonast til þess og býst við að hún muni senda þetta til umsagnar þeirra aðila sem vinna í þessu úti á miðunum. Þeir hafa að sjálfsögðu langmest vit á því hvernig best er að haga svona reglum. Þessar hugmyndir eru settar fram sem hugmyndir til þess að leysa þann vanda og það er alltaf gott að skoða margar hugmyndir. Það er ekki víst að þetta séu endilega þær bestu hugmyndir sem til eru en ég vona að þessi þáltill., ef samþykkt verður, leiði til þess að umræða um þetta mál komist á skrið og eitthvað af þeim afla sem menn eru að segja að sé hent í dag komist á land öllum til góða.