Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Miðvikudaginn 02. apríl 1997, kl. 15:57:46 (4903)

1997-04-02 15:57:46# 121. lþ. 97.12 fundur 493. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[15:57]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það liggi nokkuð í augum uppi að mikilvægasta atriðið fyrir þróun byggðar á Íslandi er að okkur takist að stjórna fiskveiðum hér við land af nokkurri skynsemi. Ef okkur mistekst í þeim efnum er ekki aðeins voðinn vís fyrir efnahag þjóðarinnar heldur mun það fyrst koma niður á þeim byggðum þar sem sjávarútvegur er nú stundaður. Þannig að forsenda þess að unnt sé að byggja upp traust atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni og styrkja þar með landsbyggðina er að stjórna nýtingu auðlindanna af skynsemi og ganga vel um auðlindina. Og í öðru lagi að tryggja að hagkvæmnikröfur ráði við mótun fiskveiðistefnunnar og efnahagsstefnunnar þannig að fjárhagslega sterk og öflug fyrirtæki geti byggst upp á landsbyggðinni eins og í þéttbýlinu. Að útflutningsgreinarnar geti treyst á öflug fyrirtæki ekki síður en innflutnings- og þjónustuhliðin. Ég tel að á allra síðustu árum hafi verið jákvæð þróun í þessa átt. Við eigum nú fleiri traust fyrirtæki með betri eiginfjárstöðu í sjávarútvegi en áður var og það mun efla og styrkja landsbyggðina þegar fram í sækir.