Minning Steindórs Steindórssonar

Mánudaginn 28. apríl 1997, kl. 17:32:55 (5715)

1997-04-28 17:32:55# 121. lþ. 112.1 fundur 301#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[17:32]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Steindór Steindórsson, fyrrverandi skólameistari og alþingismaður, andaðist laugardaginn 26. apríl. Hann var á nítugasta og fimmta aldursári.

Steindór Steindórsson var fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal 12. ágúst 1902. Foreldrar hans voru Steindór Jónasson verslunarmaður á Þrastarhóli í Arnarneshreppi og Kristín Jónsdóttir ráðskona á Möðruvöllum. Hlaut Steindór nafn föður síns sem lést vorið 1902. Hann ólst upp á Hlöðum í Hörgárdal og kenndi sig við þann bæ. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1922 og stúdentsprófi utanskóla í Menntaskólanum í Reykjavík 1925. Að því loknu nam hann náttúrufræði við Hafnarháskóla 1925--1930, var þó eitt ár frá námi vegna veikinda, og lauk fyrri hluta meistaraprófs í grasafræði 1930. Framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Ósló stundaði hann 1951. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands 1981.

Steindór Steindórsson var kennari við Menntaskólann á Akureyri 1930--1966 og síðan skólameistari 1966--1972. Stundakennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri var hann 1930--1936. Hann vann að gróðurrannsóknum á sumrum 1930--1976.

Steindór Steindórsson var í kjöri á Ísafirði fyrir Alþýðuflokkinn við fyrri alþingiskosningarnar 1959, varð landskjörinn alþingismaður og sat sumarþingið 1959. Áður hafði hann verið nokkrum sinnum í kjöri á Akureyri, orðið landskjörinn varaþingmaður og tekið sæti á Alþingi í maí 1947.

Steindór Steindórsson var fulltrúi Íslands á þingi norrænna náttúrufræðinga í Helsingfors 1936. Hann var formaður Ferðafélags Akureyrar frá stofnun þess 1936--1942 og formaður Norræna félagsins á Akureyri 1939--1941 og 1956--1973. Bæjarfulltrúi á Akureyri var hann 1946--1958, í bæjarráði frá 1948. Hann var í flokksstjórn Alþýðuflokksins 1950--1972 og formaður Alþýðuflokksfélags Akureyrar 1962--1964. Formaður Ræktunarfélags Norðurlands var hann 1952--1971 og ráðunautur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins 1955--1967. Hann dvaldist þrjá mánuði í Bandaríkjunum árið 1956 í boði Bandaríkjastjórnar, flutti fyrirlestra við háskóla þar, og hann vann vestan hafs sumarið 1958 að söfnun heimilda að æviskrám Vestur-Íslendinga. Héraðssáttasemjari á Norðurlandi var hann 1957--1971. Hann sat allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna 1965. Grasafræðiráðunautur við gróðurkortagerð Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á Grænlandi var hann 1977--1981.

Steindór Steindórsson var iðjusamur og mikilvirkur og hélt starfskröftum fram á síðustu ár. Kennsla var aðalstarf hans um áratugi, en jafnframt sinnti hann fræðistörfum. Gróðurrannsóknir stundaði hann víða um land, einnig á Grænlandi og Jan Mayen, og ritaði bækur, bókarkafla og greinar um þær rannsóknir. Á ferðum um landið og í tengslum við önnur störf varð hann gagnkunnugur landinu og sögu þess og var höfundur ásamt öðrum að margra binda riti sem nefnist Landið þitt Ísland. Hann var ritstjóri tímaritsins Heima er bezt rúma þrjá áratugi og átti þar margar greinar með ýmislegum fróðleik. Auk þess þýddi hann á íslensku nokkrar ferðabækur erlendra manna um Ísland.

Steindór Steindórsson átti skamma setu á Alþingi og nú er langt um liðið síðan hann sat hér. Flokki sínum vann hann lengi og af heilindum. Hann var vel máli farinn, minni hans afar gott og hann var fjölfróður um ýmsa þætti þjóðlífsins, þó að sérfræðisvið hans væri náttúrufræði og hann ynni stórvirki á því sviði. Eftir hann liggur mikið ævistarf og hann hlaut verðskuldaðar heiðursviðurkenningar fyrir vísinda- og félagsstörf.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Steindórs Steindórssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]