Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:34:43 (5781)

1997-05-05 15:34:43# 121. lþ. 116.1 fundur 304#B veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:34]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í nótt barst til landsins fyrsti síldarfarmurinn á þessari vertíð úr norsk-íslenska síldarstofninum. Skipstjórinn segir að síldin dugi til manneldis ef hugsað væri um það og gagnrýnir harðlega skipulag veiðanna og segir skipulagið bjóða upp á slæma umgengni um auðlindina og það samkvæmt stjórnvaldsákvörðunum. Og þannig verður framhaldið, herra forseti, kappið verður mikið, síldinni verður ausið upp og viðbótarkostnaður og sóun verður í samræmi við það.

Fréttir herma og útgerðin telur að verið sé að afla veiðireynslu sem byggt verði á við úthlutun kvóta á skip þegar á næsta ári. Þetta má reyndar draga í efa miðað við úthafsveiðilögin sem tala um þrjú bestu tímabil af sex veiðitímabilum, en fjölmiðlar tala fullum fetum um að nú sé komin tveggja ára veiðireynsla úr norsk-íslenska síldarstofninum og að eftir vertíðina geti ráðherra úthlutað kvóta á skip því að þá sé komin þriggja ára veiðireynsla.

Herra forseti. Þetta skipulag kemur ýmsum á óvart, ekki síst af því að við afgreiðslu frv. um úthafsveiðilögin fyrr á þessu þingi lagði meiri hluti sjútvn., fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl., það til og lýsti þeim skilningi sínum að veiðireynsla úr þessum stofni, þ.e. úr norsk-íslenska síldarstofninum myndaði ekki, ég endurtek, ekki, grunn að fastri aflahlutdeild. Þess vegna spyr ég: Var ráðherrann búinn að gleyma þessum skilningi sinna manna í sjútvn. eða gerir hann ekkert með það sem fulltrúar stjórnarflokkanna í sjútvn. hafa um málið að segja?