Einangrunarstöðin í Hrísey

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:53:08 (5794)

1997-05-05 15:53:08# 121. lþ. 116.1 fundur 307#B einangrunarstöðin í Hrísey# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:53]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér hafa í fyrirspurnatíma komið frá a.m.k. tveimur hv. þm. fyrirspurnir um hvali sem eru eins og kunnugt er stærstu skepnur á jörðinni. Mín fyrirspurn snýst um miklu smærri skepnur, þ.e. gæludýr.

Hér á Íslandi gilda strangar reglur um innflutning á dýrum og er það skiljanlegt, enda hefur okkur borið gæfa til að halda frá landinu ýmsum skelfilegum smitsjúkdómum sem plaga ýmis nágrannaríki okkar. Innflutningur á dýrum, og ég geri hér gæludýr sérstaklega að umtalsefni, er heimilaður að uppfylltum ströngum skilyrðum um einangrun dýranna í tiltekinn tíma. Þessi einangrun fer aðeins fram á einum stað á landinu, þ.e. í Hrísey. Hins vegar bregður svo við að flest dýrin sem flutt eru inn, þ.e. gæludýr, eru flutt inn með flugi um Keflavíkurflugvöll. Þaðan þarf svo að flytja, þau gjarnan flugleiðis, norður í land og koma þeim sjóleiðis út til Hríseyjar með ærnum tilkostnaði. Bent hefur verið á að á þeirri leið geti dýrin beint eða óbeint komist í snertingu við fólk eða hluti og í raun sé töluverð smithætta vegna þessa flókna fyrirkomulags auk þess sem gjaldtaka í sjálfri stöðinni ku vera veruleg.

Þá er og rétt að benda á að frá dýraverndunarsjónarmiði er þetta langa og erfiða ferðalag ekki talið eðlilegt. Ekki síst skal svo bent á að í mörgum tilvikum er um að ræða innflutning gæludýra fjölskyldna sem eru að flytjast til landsins þar sem einkum börnin eru bundin gæludýrunum sterkum tilfinningaböndum. Meðan á einangruninni stendur eiga fæstir þess kost að líta til með þessum fjölskylduvinum sínum. Flestir innflytjendur eru af suðvesturhorninu og því má segja að í hæsta máta sé óeðlilegt að einangrunin sé staðsett svo langt frá markaðs- eða þjónustusvæðinu. Því spyr ég hæstv. landbrh. hvort hann muni beita sér fyrir því og hvort hann telji ekki orðið tímabært að heimila sóttvarnastöð annars staðar en í Hrísey?