Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:49:54 (5832)

1997-05-05 16:49:54# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., BH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:49]

Bryndís Hlöðversdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það verða alltaf fleiri atburðir til þess að gera þetta mál að einu klúðri frá upphafi til enda. Hæstv. félmrh. minnir okkur á það hér í sínum orðum áðan að Alþingi hafi fjárveitingavaldið og það er ágætt að minna okkur á það annað slagið. Vandamálið er hins vegar að það sem hér er til umræðu og gerir það að verkum að málið tekur algjöran viðsnúning að mínu mati, þ.e. hvort deildirnar séu sjálfbærar eða ekki, snýs t vissulega um vilja, um pólitískan vilja stjórnarflokkanna. Hvað vilja þeir gera í málinu? Við erum búin að hafa þetta mál til umfjöllunar í hv. félmn., reyndar undir miklum þrýstingi, og þar hefur það alltaf verið skilningur allra og það hefur margsinnis verið rætt í félmn. að það sé meiningin að hver einasta deild skuli vera sjálfbær, hún skuli vera fjárhagslega sjálfbær. Það hefur ekki legið fyrir nokkur einasti vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar eða ráðherra að einhver opinber trygging komi þar á bak við ef einstakar deildir lenda í vandræðum. Þetta hefur verið grundvallaratriði í allri gagnrýni stjórnarandstöðunnar á þetta mál. Nú liggur fyrir yfirlýsing af hálfu ráðherra hérna við atkvæðagreiðslu málsins þannig að ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram að við hreinlega vitum ekki lengur, herra forseti, um hvað við erum að greiða atkvæði vegna þess að málið hefur tekið gerbreytingum. Í frv. er víða lagt vald í hendur hæstv. ráðherra og þetta er algjörlega ný túlkun af hálfu ráðuneytisins. Þess vegna tek ég undir með þeim sem hér hafa lagt það til að atkvæðagreiðslu skuli frestað þannig að það sé a.m.k. hægt að gera sér grein fyrir því um hvað hv. þingmenn eru að greiða atkvæði.