Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:59:03 (5836)

1997-05-05 16:59:03# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., félmrh. (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:59]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér líst ekkert á að lengja þessa umræðu mikið og mér finnst þetta vera óþörf umræða. Hvar er því neitað að Alþingi geti lagfært stöðu einstakra deilda ef því býður svo við að horfa og vandræði verða í einstökum deildum og hækka tekjur sjóðsins? Það er beinlínis tekið fram að hægt sé að hækka tekjur sjóðsins. Og það er hægt að gera með ýmsu móti. Það er hægt að hækka gjöld til sjóðsins og það er hægt að veita fé úr ríkissjóði. Það gerist að sjálfsögðu ekki sjálfkrafa eins og í Atvinnuleysistryggingasjóði, enda er það tekið fram þar. Það þarf ákvörðun Alþingis til.

Dettur nokkrum manni í hug að Alþingi mundi hafna tillögu um að laga þessa stöðu ef svo illa færi að deildirnar yrðu ekki sjálfbærar eins og ætlast er til? Það er ætlast til að deildirnar séu sjálfbærar. Þetta er ekki ávísun á ríkissjóð. En Alþingi getur að sjálfsögðu lagfært stöðuna með sérstakri ákvörðun ef á þarf að halda. (SvG: Alþingi er löggjafarvald.)