Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 18:39:43 (5858)

1997-05-05 18:39:43# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., RG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[18:39]

Rannveig Guðmundsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er ósátt við framgang mála hér vegna þess að miðað við góðan vilja forseta til þess að skoða hvað hægt væri að gera, þá er hér keyrt af stað aftur með fundinn án þess að okkur fulltrúum stjórnarandstöðu hafi gefist ráðrúm til að ræða nægilega vel saman. Við vildum skoða hvað fólst í orðalagi þeirra tveggja ráðherra sem hér hafa gefið einhverja smugu á breytingum og félmrh. gat þess í framsögu sinni að ef deildirnar hefðu ekki nóg fjármagn til ráðstöfunar, þá væri líka opin leið til að greiða til samtryggingar úr ríkissjóði.

Hæstv. forsrh. orðaði þetta öðruvísi. Það væri ekki útilokað og eftir upptalningu um hvað kæmi í tekjur, þá væru og/eða framlög ríkissjóðs. Ég er ekki með útskrift af yfirlýsingu hans en ég spyr: Ef átti, eins og félmrh. gat um, að bæta úr því sem við vorum að gagnrýna, af hverju í ósköpunum er þá ekki sett inn sú grein sem er í lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð? Þar segir í 38. gr.:

,,Nú skortir sjóðinn reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar. Skal stjórn sjóðsins þegar í stað tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal leggja fram fé til að bæta úr fjárskortinum, annaðhvort sem fjárframlag eða lán.``

Þetta er ákvæðið um Atvinnuleysistryggingasjóð og þetta er það ákvæði sem þyrfti að vera inni í sjóðnum fyrir sjálfstætt starfandi atvinnurekendur til þess að jafnræði væri tryggt í sjóðunum. Ég spyr forsrh. og félmrh.: Munu þeir beita sér fyrir því eða vera tilbúnir að opna á það í brtt. að slík grein komi inn í lögin um Tryggingasjóð einyrkja eða sjálfstætt starfandi því að þá fyrst er verið að skapa jafnræði á milli tekjumöguleika sjóðanna?