Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 18:42:19 (5859)

1997-05-05 18:42:19# 121. lþ. 116.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., KÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[18:42]

Kristín Ástgeirsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið fyrr á þessum degi gengur gagnrýni stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst út á það að hér sé ekki verið að tryggja rétt þeirra sem eru sjálfstætt starfandi, þ.e. í því frv. sem fyrir liggur. Þær yfirlýsingar sem fram hafa komið hjá hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. duga alls ekki. Það þarf auðvitað að vera skýlaust í lögunum að komist deildir í þrot, þá fái þær stuðning með ákveðnum hætti.

Það er hins vegar margt að skoða í þessu því að þeir einstaklingar sem stunda sjálfstæða starfsemi eða eru einyrkjar greiða mismunadi tryggingagjöld eftir því hvaða starfsgreinum þeir tilheyra. Þar af leiðandi geta hinar ýmsu deildir staðið mjög misjafnlega að vígi og þar af leiðandi verið um mismunandi framlög ríkissjóðs að ræða eftir því hvaða hópar eiga í hlut. Þetta eru atriði sem þarf að skoða og átta sig á --- um hvað erum við að tala í raun og veru --- þó að það sé auðvitað grundvallaratriði að þessi sjóður tryggi réttindi.

Ég mun því beita mér fyrir því að hv. félmn. taki málið upp að nýju milli 2. og 3. umr. og það vill nú svo til að það er fundur í nefndinni í fyrramálið. En við kvennalistakonur munum halda ótrauðar áfram við atkvæðagreiðsluna og ekkert hefur gerst sem breytir afstöðu okkar þannig að við munum sitja hjá við flestar greinar frv.