Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 22:37:28 (6545)

1997-05-14 22:37:28# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, JónK
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[22:37]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Nú þegar yfirstandandi kjörtímabil er hálfnað er ástæða til að staldra við, meta hvað hefur áunnist og horfa til framtíðar. Framsfl. gekk til kosninga undir kjörorðinu ,,Fólk í fyrirrúmi``. Ef marka má umræður hér á Alþingi síðustu tvö árin stendur stjórnarandstaðan í þeirri trú að aukin framlög úr ríkissjóði séu forsenda þess að ganga undir þessu kjörorði til verka. Þetta ber vott um hugsun sem tilheyrir liðnum tíma. Það er ljóst að efnahagsleg grundvallaratriði þarf að uppfylla til að lífskjarabati almennings í landinu verði varanlegur. Íslendingar brutust út úr verðbólguvítahringnum í upphafi þessa áratugar með samvinnu launþega, vinnuveitenda og ríkisvalds. Verðbólga hafði þá verið á síðasta áratug á bilinu 20--100%. Síðan hefur efnahagslífið verið stöðugra. Það er í þágu fólksins í landinu að standa vörð um þennan árangur. Í krafti stöðugleika í efnahagsmálum hafa samningar tekist við þorra launþega á vinnumarkaði til aldamóta. Það er skylda stjórnmálamanna að raska ekki þeim grundvelli sem þessir samningar byggja á og gera allt sem í okkar valdi stendur til að skilyrði verði fyrir þeirri kaupmáttaraukningu sem eru forsendur kjarasamninganna.

Lækkun skattbyrði er ein forsendan fyrir því að bæta lífskjörin. Þær lækkanir skatta sem ákveðnar hafa verið koma almenningi í landinu til góða. Eitt af þeim virku tækjum sem eru í hendi stjórnvalda til að hafa áhrif á efnahagsþróun eru ríkisfjármálin. Með því að halda útgjöldum ríkissjóðs í jafnvægi vinnst margt. Skuldasöfnun ríkisins stöðvast, hallarekstur undanfarinna ára hefur velt miklum byrðum yfir á yngri kynslóðina í landinu. Það er bein ógn við velferðarkerfið ef stöðugt stærri hluti opinberra útgjalda fer til greiðslu vaxta og afborgana af skuldum. Að berjast gegn skuldasöfnun er í þágu fólksins. Grundvöllur þeirrar velferðar sem við viljum hafa og stór þáttur í því að halda fjármagnskostnaði niðri til hagsbóta fyrir lántakendur og fyrirtækin í landinu. Um síðustu áramót voru fjárlög afgreidd hallalaus. Það markar þáttaskil því ef það markmið næst í árslok er þetta í fyrsta skipti í tólf ár sem jafnvægi næst.

Öflug atvinnustarfsemi er grundvöllur góðra lífskjara. Þar hafa orðið mikil umskipti á síðustu tveimur árum. Fjárfestingar hafa aukist, bjartsýni forustumanna fyrirtækja í stöðugu efnahagslífi hefur vaxið. Áætlagerð hefur verið auðveldari, áhugi hefur vaknað hjá erlendum fjárfestum á því að fjárfesta á Íslandi. Við Íslendingar eigum að nýta þau tækifæri sem bjóðast ef þau eru okkur hagkvæm og brjóta ekki í bága við þær kröfur sem við gerum, m.a. um umhverfismál, svo sá mikilvægi þáttur sé undirstrikaður.

Því hefur verið haldið fram að bilið milli hinna ríku og fátæku á Íslandi sé að vaxa og fátækum fjölgi. Ég geri ekki lítið úr efnahagserfiðleikum fólks, ég tel skyldu stjórnmálamanna að berjast gegn fátækt. Besta ráðið til þess er að halda þannig á efnahagsmálum að sem flestir séu efnahagslega sjálfstæðir. Í því er lykilatriðið að halda verðbólgunni niðri. Ég hef ekki gleymt stjórnmálaumræðu verðbólguáranna sem var á þá leið að verðbólgan væri stórvirkasta tækið sem hugsast gæti til að flytja fé frá hinum verr settu til hinna sem betur væru settir. Gerði hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari eins og sagt var í stjórnmálaumræðu þess tíma. Þetta er hollt að hafa í huga nú þegar við höfum búið við stöðugleikatímabil í sex ár og verið á bekk með þeim þjóðum sem bestum árangri hafa náð.

Velferðarkerfið mun þarfnast aukinna fjármuna á næstu árum þó víðs fjarri sé að skorið hafi verið niður til þess fjármagn í heild. Það á að veita þeim öryggisnet sem minna mega sín í samfélaginu. Tryggingakerfið þarf að veita sínu fólki hlutdeild í batnandi lífskjörum enda hafa yfirlýsingar verið gefnar um hækkun bóta nú í kjölfar kjarasamninga. Brýn þörf er á að opinber rekstur sé með þeim hætti að hægt sé að sinna þessum grundvallarþætti án þess að það leiði til áframhaldandi hallareksturs ríkissjóðs og skuldasöfnunar. Meðal annars þess vegna þarf að fara fram endurmat á rekstri opinberra stofnana. Það er hvorki vantraust á það fólk sem þar vinnur né komið til af frjálshyggju eins og haldið er fram af stjórnarandstöðunni heldur nauðsynjaverk til að tryggja undirstöður velferðarkerfisins í landinu.

Framsóknarmenn eru stuðningsmenn þess að gætt sé að hag starfsfólks stofnana og fyrirtækja þar sem rekstrarformi er breytt eða slíkt endurmat fer fram. Enda hefur verið unnið í þeim anda. Breytingar geta verið af hinu góða, eflt opinbera starfsemi í þágu þjóðfélagsins alls.

Við lifum á breyttum tímum, við lifum á tímum þar sem önnur gildi eru ofar en það eitt að lifa af. Krafan er rík nú um jafnrétti. Fyrst skal nefna jafnrétti kynjanna, jafnrétti þjóðfélagshópa og einstaklinga og jafnrétti fyrirtækja. Krafan er rík um mannréttindi og afnám mismununar í hvaða mynd sem hún birtist. Krafan er rík um samkeppni og afnám einokunar í hvaða mynd sem hún birtist. Krafan er rík um olnbogarými nýrrar kynslóðar til að nýta þau tækifæri sem bjóðast með aukinni alþjóðlegri samvinnu og samskiptum og byltingu í fjarskiptum og tækni. Allt þetta krefst endurmats á viðhorfum sem voru góð og gild við aðrar aðstæður en við búum við nú og tilheyrir annarri þjóðfélagsgerð. Það er ekki nein leið til baka heldur fram á veginn.

Herra forseti. Nú líður að lokum þinghalds á köldu vori. Við höldum þó inn í sumarið með bjartsýni á framtíðina. Við höfnum bölmóði stjórnarandstöðunnar sem hefur birst í kvöld. Það hefur verið lagður traustur grunnur fyrir sókn til nýrrar aldar. Yngri kynslóðin mun sækja fram til nýrra tækifæra. Hún hefur gert það og unnið glæsta sigra. Við framsóknarmenn viljum styðja fólk til sjálfsbjargar með samfélagslegri ábyrgð. --- Góðar stundir.