Framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 13:49:24 (6604)

1997-05-15 13:49:24# 121. lþ. 127.95 fundur 337#B framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[13:49]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Almennt má segja að samræmd próf hafi tilhneigingu til að virka mjög stýrandi á allt skólastarf. Allir kennarar þekkja hve róðurinn þyngist þegar dregur að samræmdum prófum í kennslu þeirra greina sem ekki er prófað í samræmt. Heyrst hefur að í einhverjum skólum hafi mönnum hlaupið slíkt kapp í kinn, vegna þessa samanburðar á milli skóla og byggðarlaga sem í gangi er, að tímar í öðrum greinum sem ekki er prófað í samræmt hafi verið teknir undir samræmdu greinarnar. Ég vona að þessi fréttaflutningur sé ekki sannleikanum samkvæmur en þetta gengur fjöllunum hærra.

Ég verð að endurtaka það sem ég hef raunar áður sagt hér úr þessum stól að ég held að við höfum stigið mikið óheillaspor þegar farið var að birta niðurstöður úr samræmdum prófum og gera það kleift að bera saman opinberlega skóla og byggðarlög á þann hátt sem nú er gert. Ég tel að sú umræða sem átt hefur sér stað vegna nýliðins stærðfræðiprófs í 10. bekk sé afleiðing af þeirri keppni milli skóla og byggðarlaga sem í gangi er. En ég tel slíkan keppnisanda ekki af hinu góða í skólastarfi.

Hins vegar tel ég að svonefnd samræmd próf geti verið til góðs ef þau eru notuð til að kennari geti áttað sig á hvar hann stendur með sinn hóp, hvað þarf að fara betur í og hvar hvert barn stendur innan hópsins. Sú umræða sem hefur farið fram undanfarið um sérstakt próf í stærðfræði held ég að hafi magnast svolítið upp af þessum keppnisanda sem ég var að lýsa áðan. Ég held að það hafi löngum verið þannig, og það þekkja allir kennarar, að mjög erfitt er að semja nákvæmlega sambærileg próf milli ára. Við höfum öll lent í því að stundum þegar við höldunm að við séum að semja létt próf þá finnst nemendunum þau þung. Ég held því að þessi umræða sé í sjálfu sér ekki ný og sú harka sem komið hefur fram sé vegna þess hvernig í pottinn er búið með þessa samkeppni.