Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:16:40 (6672)

1997-05-15 19:16:40# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:16]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það þingplagg sem við ræðum hér, vegáætlun til tveggja ára, er allsérstætt. Í fyrsta lagi það að hlaupið er frá því verki að endurskoða vegáætlun til fjögurra ára eins og gert hafði verið ráð fyrir. Hlaupið er frá því verkefni að láta fylgja langtímaáætlun í vegagerð sem lofað hafði verið að fram kæmi og sem er sjálfsagt að liggi fyrir sem hluti af heild þegar vegáætlun er lögð fyrir. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það er lítið að sækja í þá skýringu sem hæstv. samgrh. hafði uppi sem ástæðu fyrir því að brugðið var á það ráð að leggja fyrir það óbermi sem hér er um að ræða, þessa tveggja ára niðurskurðaráætlun í vegamálum, og satt að segja heldur kaldar og leiðar kveðjur sem lagðar eru fyrir þingið undir lok þess í þessu formi.

Í raun hefur þróunin í samgöngumálum á landi undanfarin ár verið mjög alvarleg. Hert hefur verið á í þeim efnum, m.a. með ákvörðunum af hálfu stjórnvalda að draga úr strandflutningum og færa flutninga yfir á vegakerfi landsins þar sem þungi umferðarinnar vex ár frá ári með stærri tækjum á veiku vegakerfi sem er mjög víða að láta sig þannig að það engan veginn ber þessa umferð. Þarna eru að verða breytingar, þarna er að verða bilun í vegakerfinu á stórum köflum á aðalleiðum þannig að við blasir að til hreinna vandræða dregur fyrr en seinna. Þar við bætist að ýmsar brýr á þjóðvegakerfi landsins þola ekki þá þungaflutninga sem beint hefur verið út á þjóðvegina og þar kemur nú þegar fram mismunun á milli byggðarlaga og landshluta að því er þetta varðar og stórfelld verkefni sem við blasa sem stjórnvöld hafa ekki gert Alþingi neina viðhlítandi grein fyrir hversu stór eru í sniðum, hvað muni kosta og með hvaða hætti eigi að bregðast þar við. Hér fljóta menn í raun sofandi að feigðarósi í þessum efnum og það er skylt að vara við þessu ástandi þegar við ræðum vegáætlun. Ekkert veldur meiri áhyggjum en þetta samhengi vaxandi þungaflutninga og umferðar á þjóðvegakerfi landsins og samdráttur í fjármagni þegar alveg ljóst liggur fyrir að það þyrfti að auka það í stórum stíl er óhætt að segja, í rauninni að margfalda það fjármagn sem varið er til vegagerðar í landinu ef menn ætla ekki að stefna í algert óefni.

Ég spurðist á síðasta þingi fyrir um það hvað væri áætlað að þyrfti að framkvæma á aðalleiðum landsins vegna þungaumferðar og fékk ekkert nema mjög almenn orð frá hæstv. samgrh. þar að lútandi því að engin marktæk úttekt hafði þá farið fram á því hversu stór viðfangsefni væri við að fást. Ég ætla ekki að ræða það frekar en minni þó á að í því kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir, Austurlandskjördæmi, er ástandið að þessu leyti mjög alvarlegt. Þar blasir að þörfin á að byggja nýjar brýr til þess að uppfylla þá staðla sem verið er að setja í sambandi við þungaflutninga er komin á okkur í ríkum mæli. Þarna er um stórverkefni að ræða í kjördæminu sem er í rauninni eyða þegar litið er á uppsetningu þjóðvegakerfisins út frá mælikvarða Evrópulestarinnar sem svo er kölluð. Þarna er um að ræða t.d. nýframkvæmdir eins og brú á Jökulsá í Lóni sem er engin smásmíði sem þarf að koma til og fjölmargar aðrar minni brýr sem bera ekki þessa umferð.

Þetta bætist við vegakafla sem teldust óvegir á almennan mælikvarða nú orðið, malarvegir sem hafa staðið undir umferð síðan á miðri öldinni og ekkert hafa breyst og ófullburða vegir þó með bundnu, einbreiðu slitlagi sem er að gefast upp vegna þessa mikla álags. Ég tel að menn hafi í raun ekki dregið upp myndina nógu dökkum litum í umræðu fram til þessa þannig að ástæða er til þess að bæta þar við með þeim orðum sem ég hef látið falla. Austurland er auðvitað alveg sérstaklega illa sett með sitt langa þjóðvegakerfi og hlutfallslega litlu fjármuni sem koma eftir þeim skiptiformúlum sem skammta fjármagn á milli kjördæma.

Ástandið í hinu almenna vegakerfi hefur farið hríðversnandi á undanförnum árum vegna þeirrar hólfunar sem þar hefur verið dregin upp. Ætli það séu ekki ein fimm hólf sem farið er að flokka fjármagn til vegamála niður í, og þar sem kjördæmin og þingmenn kjördæmanna hafa ekki vald nema að mjög takmörkuðu leyti. Stórverkefni liggja þar fyrir utan. Hvernig horfa þau við okkur Austfirðingum? Þar er verið að leggja veg yfir Fjöllin sem kallað er. Það hefur verið sérstakt áhugamál núv. hæstv. samgrh. að byggja upp veg milli Norður- og Austurlands yfir Möðrudalsöræfi eða yfir Fjöllin sem við köllum, Jökuldalsheiði og norður um. Út af fyrir sig er það auðvitað þörf framkvæmd að bæta úr samgöngum milli landshluta en er í hróplegu ósamræmi við stöðu vegamála innan kjördæmisins og þau verkefni sem þar er ólokið. Forstöðumaður Vegagerðar ríkisins á Reyðarfirði hefur dregið þessa mynd afar dökkum litum og gagnrýnir mjög harðlega hvernig á þeim málum er haldið af yfirvöldum vegamála, þ.e. að vera að kasta sæmilegum malarvegi sem ber þokkalega þá umferð sem fram fer milli landshluta, milli Norður- og Austurlands, á sama tíma og ástandið er með þeim hætti sem raun ber vitni innan kjördæmisins í vegum á milli byggðarlaga og aðalflutningaleiðum, m.a. suður yfir.

Staðreyndin er auðvitað sú að fjármagnið er langtum minna en þörf er á, margfalt minna er óhætt að segja og á sama tíma og það blasir við hirðir ríkissjóður með stefnumörkun stjórnvalda hundruð milljóna af tekjum Vegagerðarinnar. Ætli það sé ekki hálfur milljarður sem er hirtur beint inn í ríkissjóð og hefur verið svo nú árum saman. Það sem innheimtist af umferðinni skilar sér ekki til lífsnauðsynlegra framkvæmda eins og á málum er haldið og ég hef dregið upp, heldur er þetta notað sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Það er aldeilis vit í hlutunum að haga þessu þannig.

Talsmaður Framsfl., hv. þm. Stefán Guðmundsson, fullyrðir að Framsfl. vildi auka verulega fjárveitingar til vegamála en fær engu ráðið vegna Sjálfstfl. Sjálfstfl. sé sá sem ábyrgð ber í þessum efnum og af þessum sökum, vegna þeirra upplýsinga sem koma fram frá hv. þm. og ég vefengi ekki út af fyrir sig meðan ekki kemur annar fram, vil ég spyrja hæstv. samgrh. um það hvort ráðherrar Framsfl., og ég bið hæstv. samgrh. að leggja við hlustir, hafi haft uppi þá sérstöðu innan ríkisstjórnar í sambandi við ákvarðanir í vegamálum að það veiti stuðning þeim upplýsingum sem eru bornar fram af hv. þm. í þessari umræðu. Ég tel að það sé ekki nema eðlilegt að við fáum um það upplýsingar frá hæstv. samgrh. hvort formaður Framsfl., sem menn höfðu stundum talið að mætti sín einhvers í samstarfinu við Sjálfstfl. í ríkisstjórn, hafi markað skýra sérstöðu í þessum efnum, lagt fram bókanir ásamt öðrum ráðherrum Framsfl. gegn þeim fjárveitingum og niðurskurði til vegamála sem endurspeglast í þessari vegáætlun. Ég tel nauðsynlegt til að alls réttlætis sé gætt og Framsfl. fái þessa fjöður sæmilega festa í hatt sinn, sem hv. þm. Stefán Guðmundsson er hér að draga fram og lyfta hátt í umræðunni, að hæstv. ráðherra upplýsi þetta og eftir atvikum formaður samgn. sem er eðlilega þátttakandi í umræðunum.

Virðulegur forseti. Eitt af því sem mikið er rætt á Austurlandi og hefur verið um árabil eru jarðgangaframkvæmdir. Það hefur verið áhyggjuefni Austfirðinga undanfarin ár að heyra þær áherslur sem komu frá núv. hæstv. samgrh. í þeim efnum, ekki aðeins það að aflýsa af sinni hálfu jarðgangagerð á Austurlandi um a.m.k. áratug ef ég man rétt ummæli hæstv. ráðherra hér ekki fyrir mjög löngu í þinginu þegar þessi mál bar á góma og tel ég það ótímabært, en jafnframt að draga inn aðra framkvæmdamöguleika í jarðgangagerð sem teflt er í raun gegn hugmyndum um það og samþykktum sem lágu fyrir á sínum tíma að framkvæmdir á Austurlandi í jarðgangagerð væru það næsta viðfangsefni í þessum efnum. Síðan var smyglað inn Hvalfjarðargöngunum, sem menn þekkja vel til, og nú er farið að tæpa á að aðrir kostir ættu að koma þarna inn á undan Austurlandi.

Það sem er aðalatriði málsins er að hjá núv. ríkisstjórn er enginn sjáanlegur vilji uppi til þess að ráðast í jarðgöng og skiptir þá ekki máli hvort það er fyrir austan eða norðan þó að við höldum að sjálfsögðu uppi okkar réttlætiskröfu um það að staðið sé við fyrirheit í þessum efnum. Þegar litið er til þeirra vesölu fjárveitinga sem liggja fyrir í rannsóknir til jarðgangagerðar sjá auðvitað allir hvernig refir eru skornir í þessum efnum. Svo að ég fari með tölur þar að lútandi eru þeta líklega 2--3 millj. til rannsókna á jarðgöngum á Austurlandi sem sjá má í þessari vegáætlun og geta menn rétt ímyndað sér hvaða þýðingu slíkt hefur.

[19:30]

Ég hef í hóp þingmanna Austurlands og hér á Alþingi ítrekað hvatt til þess að menn taki á í þessum efnum og standi við gefin fyrirheit. Ég hef ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni lagt fram tillögur um tiltekin jarðgöng á Austurlandi sem nýttust í samhengi samgangna milli landshluta, þ.e. jarðgöng milli Héraðs og Vopnafjarðar. Það hefur því ekki vantað stefnu af okkar hálfu í þessum efnum því að oft er verið að núa Austfirðingum því um nasir að þeir hafi ekki náð saman í sambandi við þessi efni. Ég hef jafnframt ítrekað sagt það í hóp þingmanna Austurlands og einnig við yfirferð vegna þessarar vegáætlunar nú að ég sé að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að leita samkomulags í hóp þingmanna Austurlands þannig að við stöndum óskiptir að tillögugerð að þessu leyti. Mér finnst að það hafi dregist óhóflega að þessi mál væru rædd sem vert væri til þess að stefnan væri skýrari en hún liggur fyrir nú og er brýnt að úr því máli verði unnið hið fyrsta.

Af hálfu Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi hefur verið ýtt á eftir þessu máli, minnt á fyrirheit í þessum efnum og samþykktir sem eðlilegt er. Ég hlýt að nefna við þessa umræðu síðasta erindi sem okkur þingmönnum barst um þetta efni, dags. 10. maí sl., og fjallar um jarðgangaframkvæmdirnar og hvatningarorð um að mörkuð verði stefna í þessum efnum áður en vegáætlun verði afgreitt frá þinginu á þessum dögum.

Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að taka tíma til þess að ræða um einstakar framkvæmdir. Það væri að æra óstöðugan ef ég t.d. ætlaði að fara yfir dæmið sem blasir við okkur Austfirðingum varðandi óuppbyggða langa vegarkafla í kjördæminu sem enginn sér fyrir hvenær unnt verður að ráðast í miðað við fyrirliggjandi fjárveitingar. Auðvitað þekkja allir sem sótt hafa Austurland heim, þó að ekki séu þeir búsettir þar, hvernig ástandið er. Sú stefna sem uppi er hjá stjórnvöldum í þessu efni hrópar í himininn og jafnframt sker það í auga að jafnstórum fjárhæðum skuli varið til uppbyggingar á vegi yfir Fjöllin á sama tíma og svo naumt er skorið og skammtað í framkvæmdir innan fjórðungs.

Þessi breyting frá vegáætlun fjögurra ára sem hér liggur fyrir þýðir fyrir Austurland niðurskurð á niðurskurð ofan. Mér telst svo til samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar að af þeim fjárveitingum sem við fáum eitthvað um ráðið, þingmenn kjördæmisins, verði skornar niður 44 millj. kr. 44 millj. í beinan niðurskurð frá því sem ráðgert var samkvæmt núgildandi vegáætlun sem er verið að skera niður og álíka niðurskurður á næsta ári blasir við. Þetta er rosalegt, virðulegur forseti, með tilliti til ástands vega en ekki síður með tilliti til hvernig af opinberri hálfu er haldið á framkvæmdamálum í landinu, eins og nefnt hefur verið með réttu í þessari umræðu, þar sem allt fjármagn sem einhverju nemur í sambandi við stórframkvæmdir í öðrum greinum, virkjunarframkvæmdum, stóriðjuframkvæmdum, er á einu landshorni þangað sem stjórnvöld smala landsfólkinu með skipulögðum hætti. Reykjavíkurborg er að undirbúa það, með því að fá Kjalnesinga í slagtog með sér og sameina, stækka og útfæra borgarmörkin, að taka við flóttafólki utan af landi sem ríkisstjórnin er skipulega að undirbúa að leiti hælis á þessu svæði. Þannig er nú haldið á málum af núv. hæstv. ríkisstjórn.

Virðulegur forseti. Ég tel nauðsynlegt að fá það hér fram við umræðuna hvernig staðan er á stjórnarheimilinu í þessum efnum, hvort þetta er eins hv. þm. Stefán Guðmundsson hefur dregið fram að Framsfl. standi með öllu sínu afli gegn þeim niðurskurði sem hér er um að ræða í vegamálum, standi með hnefana væntanlega á hæstv. samgrh. og hans samráðherrum úr Sjálfstfl. sem ráða ferðinni í þessum efnum eftir því sem hv. þm. segir og bera alla ábyrgð á niðurskurði hér að lútandi.

Ég vænti þess að hæstv. samgrh. svari fyrirspurnum mínum um þetta efni með skýrum hætti og ég geri ráð fyrir því að fjárveitingamenn kannist þá við söguna vegna þess að þessi mál ber á góma, að best ég veit, í fjárln. þingsins í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Þar hlýtur það sama að hafa verið uppi, að framsóknarliðið hafi verið grátt fyrir járnum til þess að verja fjárveitingarnar til vegamála gegn hins vegar sjálfstæðismönnunum sem höfðu betur í þessari glímu eins og kannski mörgum öðrum.