Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 09. október 1996, kl. 14:06:25 (176)

1996-10-09 14:06:25# 121. lþ. 5.2 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Hann fór yfir allar þær spurningar sem ég lagði fyrir hann. Flestar voru þær skýrar en þó ekki um ákveðin atriði sem ég vil ítreka frekar. Áður en ég fer í þau atriði vil ég spyrja varðandi 12. gr., þ.e. um söluyfirlitið og hvað stendur í því. Ég færði rök fyrir að misbrestur væri þar á af hálfu fasteignasalanna. Ráðherrann gerði ráð fyrir í svörum sínum að öll atriðin í núgildandi lögum komi fram í reglugerð. Ég á sæti í hv. allshn. sem mun fjalla um málið. Ég mun ganga mjög eftir því að ráðherrann leggi a.m.k. drög að reglugerðinni fyrir nefndina áður en nefndin afgreiðir málið frá sér og spyr ráðherra hvort hann geti orðið við því.

Mér fannst svörin alls ekki vera nægilega skýr varðandi 5. gr. Hæstv. ráðherra talar þannig um fjárhæðirnar að miðað sé við það sem gildi í ábyrgðartryggingu hjá lögmönnum. Ég tel þetta alls ekki sambærilegt. Við erum að tala um fasteignasala sem fjalla um eignir fólks, aleigu fólks, mikil verðmæti sem eru í húfi fyrir heimilin. Það verður að vera vel og tryggilega frá því gengið að vátryggingarfjárhæðir standi undir hugsanlegum skaðabótum. Ég ítreka aftur dæmið sem kom fram á Stöð 2 í gær. Það er ljóst varðandi það dæmi að peningum sem fasteignasali fékk í hendurnar var varið til að greiða niður skuldir sem voru óviðkomandi kaupanda. Þessi hjón hafa skaðast mjög mikið. Þau þurftu að fara úr sínu húsnæði vegna þessa. Þau hafa í sex ár verið á leigumarkaði og borgað 3 millj. kr. í leigu. Þau eiga samkvæmt dómi Hæstaréttar að fá 2 millj. í skaðabætur en þau hafa enn ekki fengið þær vegna þess að ágreiningur er milli tryggingaraðila hvort um gáleysi hafi verið að ræða eða ekki. Þetta er einmitt það sem ég spurði um. Þegar fasteignasalar eru milligöngumenn með fjármuni fólks í höndum og falin sú ábyrgð að ráðstafa þeim á tiltekinn hátt og þeir gera það ekki þá er mjög mikilvægt og ekki hægt að komast hjá að svara því hvort ábyrgðin nái til slíkra tilvika, hvað það er sem bótafjárhæðin á að ná yfir.

Það má vera að ráðherra hafi ekki svör við því hér og nú. Ég hef skilning á því. En það verður kallað mjög ákveðið eftir því í störfum nefndarinnar að fá þetta fram. Einnig ef þessar fjárhæðir duga ekki því mér sýnist að dregið hafi úr þessum vátryggingarfjárhæðum frá því sem nú er. Ef fasteignasala verður á í messunni og hann er skaðabótaskyldur fyrir hærri fjárhæð en kemur fram í lögunum, hver er þá staða kaupenda sem hafa kannski misst mikla fjármuni vegna gáleysis eða ásetnings fasteignasalans? Þetta þarf að vera ljóst. Við erum að tala um atriði sem eru svo mikilvæg fyrir þá sem standa í fasteignaviðskiptum að þetta verður að vera skýrt. Ég vildi árétta, virðulegi forseti, að þetta verður örugglega skoðað í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar.

Skoðun mín á 2% þóknuninni er sú að mér finnst þetta há þóknun sem tekin er af seljendum fasteigna. Það eru háar fjárhæðir vegna þess að það er ýmis annar kostnaður sem fasteignasalarnir taka sér. Hv. 16. þm. Reykv. var alveg sannfærður um að ef þakinu yrði aflétt mundi þóknunin hækka. Hann taldi að við værum með mjög lága þóknun. Ég hygg að ráðuneytið hafi eitthvað velt fyrir sér afleiðingunum af þessu ákvæði. Ég spyr um mat ráðherrans á því. Telur hann líkur á að þetta leiði til verulegra hækkana á þóknunum fasteignasala? Menn verða að gera sér það ljóst vegna þess að mikill kostnaður fylgir því að kaupa eða selja íbúð. Það er ekki á hann bætandi. Við verðum að vona að nái þetta ákvæði fram, þá fylgist Samkeppnisstofnun mjög grannt með því strax í upphafi hvort verðsamráð verði haft milli fasteignasala.

Ég vil ítreka þessar spurningar, hvort ráðherrann hafi skýrari svör við þeim en fram komu í máli hans, og sérstaklega varðandi 5. gr. Ég tel 5. gr. eina mikilvægustu grein frv. og nauðsynlegt að tryggilega sé frá henni gengið. Eins hvort ráðherrann treystir sér til að gefa nefndinni drög að reglugerð um hvað á að vera í söluyfirliti. Misbrestur er á að fasteignasalar skýri nægilega frá í söluyfirliti ef eitthvað er að fasteignum, galli eða meiri háttar viðgerðir, sem ekki er sýnilegt við skoðun, svo ég nefni bara eitt dæmi. Mér finnst mikilvægt að nefndin sem fær þetta til úrlausnar hafi möguleika á að skoða hvað sett verður í slíka reglugerð.