Þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:57:46 (1463)

1996-11-20 14:57:46# 121. lþ. 29.4 fundur 125. mál: #A þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:57]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Örstutt í tilefni umræðnanna. Ég vil árétta þá fyrst að við erum á stórkostlegri framfarabraut í náttúruverndarmálum með tilkomu nýrra laga um Náttúrufræðistofnun Íslands. Stofnun setranna á Akureyri og í Reykjavík lofar mjög góðu og þar er uppbygging í fullum gangi. En ég vil almennt séð ítreka og brýna fyrir mönnum, og þar með hæstv. ráðherra, að skilaboð stjórnsýslunnar um málsmeðferð verða að vera skýr. Ef menn fá það á tilfinninguna úti um land, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur bent á, að það dugi að menn sæki um að fá þetta til sín, þá fær ráðuneytið að sjálfsögðu umsókn frá Skagaströnd, Sauðárkróki og Hólum í Hjaltadal. Ef skilaboðin eru alveg skýr um það að menn eigi að koma sér saman heima fyrir um hvernig þeir vilji haga þessum málum og sækja síðan um eins og lögin gera ráð fyrir, og það er tvímælalaust lögð á það áhersla, þá eflum við valddreifingu og komumst hjá hnútum í stjórnkerfinu.