Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:35:30 (1479)

1996-11-20 15:35:30# 121. lþ. 29.6 fundur 155. mál: #A Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KH
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:35]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum voru húsmæðraskólar reknir sem heils árs skólar víða um land og ég minnist 10 slíkra skóla á mínum uppvaxtarárum, þ.e. á Varmalandi, Staðarfelli, Ísafirði, Blönduósi, Akureyri, Laugalandi í Eyjafirði, Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu, Hallormsstað, Laugarvatni og Reykjavík. Nú eru aðeins tveir þessara skóla eftir og það er nauðsynlegt að tryggja að þeir geti haldið áfram starfi sínu og þróað það í takt við tímann án þess að tapa tengslum við fortíðina.

Fræðsla af því tagi sem þarna er í boði er því miður alger hornreka í þeim framhaldsskólum sem þó teljast bjóða eitthvað samsvarandi og stór hætta er á að það starf sem unnið er í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað verði hornreka ef hann verður hluti af Menntaskólanum á Egilsstöðum. Það er kjarni málsins.