Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 10:39:56 (1500)

1996-11-21 10:39:56# 121. lþ. 30.2 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[10:39]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er helst að skilja að hér séum við að fjalla um frv. um kaup á hafrannsóknaskipi og ættum þess vegna, miðað við framsöguræðu hæstv. ráðherra, að skella okkur í umfjöllun um skipið. Eins og málið er lagt upp mætti af því skilja að ákvörðun lægi fyrir og nú væri einungis eftir það ánægjulega verkefni að velja. En svo er ekki. Það frv. sem hér liggur fyrir er frv. um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Það kemur reyndar fram í 1. gr. frv. að það á að henda út gömlu 1. gr. og setja nýja inn í staðinn og breyta hlutverki sjóðsins þannig að eitt þessara hlutverka verði að fjármagna kaup eða smíði á skipi fyrir Hafrannsóknastofnun. Það er ekki alveg það sama og að fjalla um kaup á nýju skipi. Við erum að fjalla um lagabreytingar sem gætu gert kleift að kaupa hafrannsóknaskip með þeim fjármunum sem koma inn í þróunarsjóðinn vegna þess að þeir fjármunir eru ekki settir í þetta verkefni af fjárlögum ríkisins. Ég held að við ættum að hafa þetta nokkuð á hreinu þannig að það sé alveg ljóst hvað verið er að gera.

Þegar þróunarsjóðurinn tók fyrst til starfa vorið 1994 var hlutverk hans ,,... að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegsfyrirtækjum með því að auðvelda þeim að losna við umframafkastagetu í veiðum jafnt sem vinnslu``. Þetta er bein tilvitnun, herra forseti. ,,Í því skyni veitir sjóðurinn styrki til að úrelda fiskiskip, kaupir fiskvinnslustöðvar og framleiðslufyrirtæki. Enn fremur veitir sjóðurinn lán og ábyrgðir til nýsköpunar í sjávarútvegi og til að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis.``

Það lá sem sé greinilega ekkert smáræðis nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir og þess vegna voru þessi lög væntanlega samþykkt á Alþingi.

Það hefur orðið nokkur árangur af úreldingarhlutverki sjóðsins að því er lýtur að bátum og skipum. Ég mun koma nánar að því á eftir. En það væri fróðlegt á þessum tímamótum í starfi sjóðsins þegar hann hverfur frá þessum verkefnum og tekur að sér að fjármagna stórverkefni á sviði rannsókna, að fá yfirlit yfir árangur af því starfi sem fjallað er um í greinargerð og snýr að nýsköpun, þróunarverkefnum, verkefnum erlendis og fleira þess háttar sem ég minnist nú ekki að hafi verið rætt hér. Menn hafa farið yfir úreldingarþáttinn en ég minnist þess ekki að við höfum fengið yfirlit eða skýrslu um þátttöku sjóðsins og afrek á þessum sviðum. En væntanlega er hægur vandinn að fá slíkt yfirlit.

Það er líka merkilegt með Þróunarsjóð sjávarútvegsins að þó hann sé ungur að árum þá hafa verið gerðar á honum sífelldar breytingar. Hann er sjóðurinn sem hefur verið notaður til að bregðast við ef eitthvað kemur upp á. Þegar menn þurftu að hemja stækkun krókabátaflotans var sjóðurinn notaður og lögunum var breytt. Þegar síðan þurfti að ganga fetinu framar var lögunum um sjóðinn aftur breytt og nú þegar okkur vantar fjármagn til að byggja rannsóknaskip er lögunum um sjóðinn enn breytt. Kannski væri ástæða til að breyta lögunum enn meira en hér er gert og hreinsa þá betur til. Það væri hægur vandi að hreinsa út ýmsa hortitti og annað í lögunum og gera þau þar með einfaldari og skilvirkari.

[10:45]

Herra forseti. Ég vil endilega koma því að strax að ég hef enga trú á þessu sólarlagsákvæði sem er í frv. Mér sýnist að saga sjóðsins, sem eins og ég sagði áðan hefur verið nýttur til að bregðast við, verði sú hin sama áfram. Þarna er sem sé komin ákveðin leið til að fjármagna tiltekna hluti í útgerð sem varða sjávarútveg og stjórnvöld hafa lært að nota þessa leið. Nú síðast með þessari tillögu um kaup á rannsóknaskipinu og ég sé ekki fyrir mér að það muni breytast. Ég get t.d. séð það fyrir mér, herra forseti, að innan mjög skamms tíma verði áhyggjur manna af sjómannamenntun og niðurskurði í framhaldsskólakerfinu orðnar slíkar að sú spurning komi upp að greinin sjálf í gegnum Þróunarsjóð sjávarútvegsins taki á því máli og fari að fjármagna menntun sjómanna. Af hverju ekki það eins og kaup á rannsóknaskipi? Er það ekki líka spurning um tiltekna þróun og jafnvel nýsköpun? Ég gæti séð ýmislegt fleira fyrir mér í þessum efnum og því segi ég að ég held að þetta sólarlagsákvæði sé blekking, hugsanlega til að fá einhverja trega til fylgilags við frv. En ég held hins vegar að ég sé sannspá um að ýmislegt fleira eigi eftir að koma upp á sem ástæða er til að fjármagna.

Víkjum aðeins að því hvernig þessi sjóður hefur starfað. Tekjur hans hafa verið af gjaldi sem í sumum tilfellum er kallað þróunarsjóðsgjald og þetta gjald hefur hvað varðar skip og báta í fyrsta lagi verið innheimt af brúttótonni eða brúttólest skipa og báta, þó aldrei fyrir hærri upphæð en fæst af skipum sem eru um það bil 350--400 tonn, þar stoppar það og stærri skipin greiða aldrei hærri upphæð þannig að eins og stundum fyrr er þeim hlíft sem skyldi, eða hvað? Á næsta ári er gert ráð fyrir að eftir þessum leiðum innheimti sjóðurinn 84 millj. kr. en 80 millj. kr. á ári eftir það fram til ársins 2006 eða alls 804 millj. kr. Þetta er tiltölulega flókin innheimtuleið og hún skilar 804 millj. kr. til ársins 2006 þegar þessum hluta sjóðsins verður lokað.

Þá er í öðru lagi frá því fiskveiðiári sem hófst 1. sept. sl. innheimt ein króna af hverju þorskígildiskílói. Þessari innheimtuaðferð er ætlað að skila 500 millj. á næsta ári og 558 millj. ári eftir það eða alls tæpum 5 milljörðum til ársins 2006. Ef menn ekki greiða þessa krónu fyrir úthlutað þorskígildiskíló liggur við svipting veiðileyfis. Ég bið menn að athuga það. Árangurinn af þessu, sem þykir það góður að nú er ástæða til að loka fyrir þá starfsemi sem þessi innheimta átti að fjármagna og fjármagnaði, er sá að líklega verður um 20--25% fækkun krókabáta að ræða með þátttöku sjóðsins ef allt gengur fram sem fyrirséð er. Á sama tíma hefur veiðileyfum einnig fækkað um 20--25% og að einhverju leyti hefur sjóðurinn komið þar inn, m.a. með uppkaupum á aflamarksbátum og skipum. Þetta var um skip og báta.

Þá komum við að fiskvinnsluhúsunum. Þegar ákveðið var að innheimta þróunarsjóðsgjald var líka ákveðið að innheimta af fiskvinnsluhúsunum. Og þar á líka að halda áfram að innheimta sérstakt gjald til ársins 2006. Þetta gjald er 0,75% af gjaldstofni sem er fasteignamatsverð á fasteign og tilheyrandi lóð sem notuð er til fiskvinnslu. Þetta sérstaka gjald á að gefa 67 millj. kr. í ár en upp frá því á þetta gjald að gefa 75 millj. kr. á ári eða í allt 742 millj. til ársins 2006, 742 millj. kr. Árangurinn þarna er hins vegar sá að sjö fiskvinnsluhús hafa verið úrelt. Sjö fiskvinnsluhús hafa verið úrelt og kostnaður sjóðsins við það eru 19 millj. kr. Þessi sjö fiskvinnsluhús voru úrelt fyrir 75 millj. kr. og seld aftur fyrir 56 millj. þannig að kostnaðurinn af úreldingunni er í raun orðinn 19 millj. og verður væntanlega ekki meiri. En til að ná þessum 19 millj. kr. árangri í úreldingu fiskvinnslustöðva þurftu þær að greiða inn í sjóðinn á árinu 1995 66 millj. kr. og munu á árunum til 2006 borga alls 742 millj. kr. Verða þær þá samtals búnar að greiða yfir 800 millj. inn í þetta kerfi svo úrelda mætti fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki fyrir 19 millj. kr. Þetta er skattlagning í lagi. Fiskvinnslan borgar hundruð milljóna til að úrelda megi báta og skip og kaupa rannsóknaskip fyrir Hafrannsóknastofnun. Það er makalaust, herra forseti, að lesa þetta frv. og hugsa svo til þeirra sem ekki mega til þess hugsa að útgerðin, sem í dag er rekin með bullandi hagnaði --- menn heyrðu nú húrrahrópin á landsfundi útvegsmanna þar sem hver maður gekk undir annan í því að hrósa hinni góðu afkomu --- greiði meira fyrir sín veiðileyfi. Þeir ætla nú að láta fiskvinnsluna í landinu, fiskvinnsluna sem rekin er með tapi og menn þykjast hafa verulegar áhyggjur af, greiða skatt til útgerðarinnar. Þar fundu menn þó matarholu.

Þetta er hreinasta snilld og skattastefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Hér er gamli Hrói höttur rétt eina ferðina mættur með öfugum formerkjum. Fjármagn er flutt frá illa staddri fiskvinnslu til vel staddrar útgerðar frá smásparendum til stóreignarmanna eins og í fjármagnstekjuskattinum og áfram mætti telja.

Herra forseti. Ég hef mælt fyrir veiðileyfagjaldi á útgerðina. Þeir hafa verið býsna margir í þessum sal sem hafa mótmælt því vegna þess að þeir vorkenna svo fiskvinnslunni í landinu. Á þeirri forsendu hafa þeir mótmælt veiðileyfagjaldi. Það hafa þeir gert þó svo að alltaf hafi legið ljóst fyrir að aldrei hefur staðið til að leggja veiðileyfagjald á fiskvinnslu. Hún fær einfaldlega ekki úthlutað veiðileyfum. Auðvitað er það útgerðin sem greiðir. En þessir höfðingjar, þeir eru ekki mættir hér eða hvað? Ég sakna þeirra sumra úr salnum, þessara miklu vina fiskvinnslunnar sem verða vinir hennar þegar veiðileyfagjald er á dagskrá en ekki þegar það er á dagskrá að skattleggja fiskvinnsluna um hundruð milljóna til að þjóna útgerðinni. Við skulum bara skipta þessu svona vegna þess að hafrannsóknaskip er auðvitað mikilvægt fyrir okkur öll. En ef menn ætla að fara að velta vöngum yfir því fyrir hvern það er mikilvægast, þá getum við allt eins flokkað það þannig að það sé mikilvægast fyrir útgerðina því þeir veiða fiskinn. Þeir njóta þeirra forréttinda að fá að nýta auðlindina í kringum landið. Við hin, þar með fiskvinnslan í landinu, sitjum á allt öðrum bekk. Og fyrst okkur er ekki ætlað að greiða sérstaklega fyrir þetta hafrannsóknaskip með okkar sköttum þá finnst mér furðulegt að það skuli eiga að taka fiskvinnsluna í landinu, fiskiðnaðinn, fram yfir annað og skattleggja hann sérstaklega til þess að fara í þessi kaup. Ég auglýsi aftur eftir vinum fiskvinnslunnar. Og það verður fróðlegt að fylgjast með því við afgreiðslu þessa máls hvernig þeir standa sig núna þegar þeir fá tækifæri til að sýna hlýhug sinn í verki.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst, fyrst verið er að hreinsa til í þessum lögum, að skynsamlegt væri að fella út 4. gr. sem fjallar um gjaldið sem lagt er á brúttótonn eða brúttórúmlest. Það er svo merkilegt með það gjald að það á að hækka samkvæmt byggingarvísitölu sem er nú brandari út af fyrir sig þegar við erum að tala um þessa hluti. Mér fyndist að það ætti að fella þá grein út. Það er einungis til að flækja málin að vera að innheimta gjald eftir þeirri aðferð auk þess sem gjaldið hefur mikla annmarka. Mér finnst líka að það ætti að fella út 5. gr. laganna eins og ég hef verið að undirstrika í mínu máli, en það er greinin sem snýr að innheimtu gjalda af fiskvinnslunni. Mér finnst hún fráleit og það á að fella hana út.

Mér finnst líka, af því að þessi byggingarvísitöluviðmiðun er út í hött, að það ætti að fella út 2. mgr. 6. gr. þar sem talað er um þetta byggingarvísitöluviðmið. Það er reyndar líka varðandi þá hækkun sem á að koma til á því gjaldi sem miðað er við þorskígildi. Þar er miðað við byggingarvísitölu. Það er ekki miðað við verð á veiðiheimildum á markaði eða eitthvað þess háttar. Nei, byggingarvísitölu. Það væri fróðlegt að fá útskýringar á því af hverju það viðmið var valið.

Herra forseti. Ef við felldum út þessar greinar, þ.e. innheimtuna á skip og báta eftir brúttótonnum eða brúttórúmlestum, eftir stærðinni sem sagt, og ef við felldum út gjaldið á fiskvinnsluna, hvað ætli við þyrftum þá að hækka krónuna mikið, þessa krónu sem samkvæmt 6. gr. er innheimt á þorskígildiskílóið? Við þyrftum að hækka hana um 27 aura til að ná sama árangri. Það er verið að halda úti flókinni innheimtu fyrir 27 aura. Af hverju breyta menn þessu ekki? Af hverju einfalda menn ekki þessa hluti, setja örlitla hækkun inn í 6. gr. þannig að í stað krónunnar komi 1,27 kr. og felli út 4. og 5. gr.? Það fyndist mér skynsamlegt að hv. nefnd tæki sér fyrir hendur þegar hún fær frv. til meðhöndlunar. Sú leið er einfaldari og hún er líka réttlátari. Það er þá alveg ljóst að þeir eru að greiða sem til þess ættu að hafa burði. Stærð skipa segir ekkert um það og stærð fiskvinnsluhúsa ekki heldur, fyrir utan það sem ég sagði um fiskvinnsluhúsin áðan og hversu fráleitt það er að vera að láta þau áfram borga inn í þennan sjóð þegar ekki er gert ráð fyrir neinni úreldingu fiskvinnsluhúsa. Það er lafhægt að taka þau út fyrir sviga rétt eins og okkur hin öll sem ekki eigum að taka þátt í að fjármagna rannsóknaskip í gegnum skattana okkar.

Herra forseti. Ég er ekki á móti því að Þróunarsjóður sjávarútvegsins greiði fyrir hafrannsóknaskip. Ég er hins vegar á móti því að þegar farið er í að breyta lögunum þá skuli það vera gert svona, þ.e. að þá skuli menn ekki ganga rösklega til verka og gera þetta almennilega. Ég er búin að benda á það sem ég tel að betur mætti fara og ég vænti að það verði tekið til athugunar í hv. nefnd. Ef ekki verður meiri hluti fyrir því í nefndinni munu að sjálfsögðu koma fram breytingartillögur þegar kemur að afgreiðslu málsins.

Ég ítreka í lokin, herra forseti, að ég held að sólarlagsákvæðið sé blekking. Ef menn vilja hafa slíkt inni í lögum er það sjálfsagt öllum að meinalausu eða meinalitlu en það er karlmannlegra að horfast í augu við þann veruleika að í fleiri verkefnum á næstu árum mun verða uppi krafa um að sjávarútvegurinn greiði sjálfur fyrir þá þjónustu eða þá starfsemi sem að honum lýtur en ríkið hefur borgað til þessa.