Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 12:33:42 (1515)

1996-11-21 12:33:42# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég efa ekki að það var jákvæður tilgangur hjá þeirri nefnd sem fjallaði um þessi mál og bjó til þessi frumvörp. Það var ekkert annað sem vakti fyrir þeim. Ég bendi samt á að þær aðstæður geta verið uppi hjá fólki sem vill vinna að það á erfitt með að fara á milli landshorna til þess að sækja vinnu.

Þegar bæði frumvörpin eru lesin saman gefa þau hins vegar hinu opinbera skýlausan rétt til þess að skipa fólki á milli landshorna. Ég hef skilið lögin þannig og það hafa fleiri gert. Enginn hefur mótmælt því í þessum sölum, ekki heldur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann hefur að vísu bent á það áður að það er heimild hjá úthlutunarnefndum til þess að taka tillit til fjölskylduhátta. Þar með er það lagt alfarið undir hjartalag og miskunn viðkomandi manna sem sitja í úthlutunarnefndum hvort og hve mikið þetta tillit er. Ég tel hins vegar að það eigi fortakslaust að vera hluti af þessum lögum að kveðið sé á um að tekið verði tillit til fjölskylduhátta.

Ég er alveg sammála hv. þm. um að það er allt í lagi í erfiðu árferði að gera mönnum skylt að flytja sig til svo fremi sem fjölskylduhagir þeirra bjóði upp á það, t.d. þeim sem eru einhleypir, en alls ekki fjölskyldufólki. Það er einungis við alveg sérstakar aðstæður sem það er hægt. Ég tel að framkvæmdarvaldið geti ekki með þeim hætti raskað högum fólks og jafnvel rifið upp þær rætur sem hefur tekið langan tíma að festa í þeim jarðvegi sem viðkomandi fólk er sett í.