Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 17:39:39 (1571)

1996-11-21 17:39:39# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[17:39]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri athugasemd við það. Ég tel að þessi nefnd hafi verið illa skipuð að því er þetta varðar, hún hafi verið pólitískt þröngt skipuð. Hæstv. ráðherra veit alveg um hvað ég er að tala. Niðurstaðan varð sú að öllum þeim aðilum sem eru t.d. fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi eða slíkum flokkum var haldið fyrir utan þessa nefnd, hvort sem því olli röð af óheppilegum tilviljunum eða ekki. Ég tel það mjög slæmt og ég tel að ráðherrann eigi einfaldlega að viðurkenna það og horfast í augu við að þar var ekki rétt staðið að málum.

Varðandi síðan það að kyrrstaðan hafi verið rofin er það ekki að þakka einum eða neinum í þeirri stöðu. Það eru hinar almennu kringumstæður sem valda því. Staðreyndin er sú að mjög margt er að breytast í orkumálum. Þær breytingar eru mjög dýrmætar og mjög miklar og það er ljóst að á Íslandi er vaxandi skilningur á því að orkan hlýtur að verða, mér liggur við að segja, ásamt sjávarútveginum hrygglengjan í batnandi lífskjörum á næstu öld. Ef menn ætla að halda þannig á máli þarf að treysta tvennt: Annars vegar arð og hins vegar umhverfi og að arðurinn skiptist af sanngirni milli allra landsmanna.

Ég segi alveg eins og er, hæstv. forseti, mér finnst að ráðherrum Framsfl. hafi verið mislagðar hendur við að skapa þá samstöðu um að tryggja arðinn og bæta umhverfið til þess að þessi nýja sýn, nýtingar orkumála á Íslandi, gæti orðið til þess að skapa almennt séð jákvætt andrúmsloft í landinu. Mér finnst að ráðherra Framsfl. hafi valið að mörgu leyti aðferðir gömlu viðreisnarstjórnarinnar að halda þannig á málum, að halda spilunum upp að andlitinu á sér og flokkum sínum en reyna að berja aðra frá eins og mögulegt er. Mér finnst það ekki skynsamlegt, hæstv. forseti.