Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 22:53:17 (1612)

1996-11-21 22:53:17# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[22:53]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram að hvorki Reykjavíkurborg né Akureyrarbær skipta sér af því hvernig ríkið velur sína fulltrúa, það er alveg augljóst mál og liggur alveg fyrir. Þannig að það er ekki hægt að skjóta sér á bak við það. Þess vegna endurtek ég spurninguna. Ég sé í raun og veru ekki hvað það er sem rekur ríkisstjórnina til þess endilega að flytja þetta frv. eins og það er ef það er bara til þess að uppfylla það sem snýr að sameignaraðilunum. Ég ætla líka að endurtaka það að auðvitað eru í þessu frv. ýmis önnur atriði sem ég tel algjörlega fráleit. Eins og það að henda út Ríkisendurskoðun. Það er hent út kjörnum fulltrúum Alþingis og það er líka hent út eftirliti Ríkisendurskoðunar. Það er mjög alvarlegt mál. Það er stórpólitískt mál og brýtur í bága við þá stefnu sem hæstv. forseti Alþingis hefur kynnt hér nýlega í umræðum um skýrslu um starfsemi Ríkisendurskoðunar.

Síðan bara þetta um verðjöfnunina. Það er ekkert í þessu frv. sem breytir því að verðjöfnun haldi áfram. Það er alveg rétta hjá hæstv. iðnaðar- og orkuráðherra. Það er alveg hárrétt. En veruleikinn sem verður til í kringum þetta frv. með aukinni áherslu á arðgreiðslur til eignaraðila þýðir það að verðjöfnunin er í uppnámi. Og það er dálítið merkilegt að í aðdraganda 80 ára afmælisþings Framsfl. skuli iðnrh. Framsfl. beita sér fyrir því með mikilli hörku að knýja hér fram mál sem bersýnilega breytir mikilvægu grundvallaratriði sem Framsfl. hefur alltaf lagt áherslu á í sínu starfi og sinni pólitík, þ.e. verðjöfnun á orku. Það eru dálítið merkileg kaflaskil á þessum tímamótum sem munu hefjast í fyrramálið þar sem spennan mun aðallega verða um það hver verður þriðji varagjaldkeri flokksins.