Skýrsla námsmanna um LÍN

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:47:14 (1721)

1996-12-03 14:47:14# 121. lþ. 33.96 fundur 123#B skýrsla námsmanna um LÍN# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:47]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem er fróðleg og skýrslan líka vegna þess að í henni kemur það fram, hæstv. forseti, sem hefur reyndar verið staðfest áður að Lánasjóður ísl. námsmanna stóð vel 1991. Hann var með jákvæða eiginfjárstöðu á þeim tíma reiknað á núvirði upp á 3 milljarða kr. og stóð betur en aðrir hliðstæðir sjóðir á vegum ríkisins. Þess vegna var umræðan um það að sjóðurinn stæði sérstaklega illa í raun og veru algerlega tilefnislaus og það hefur nú verið staðfest í fyrsta lagi af Ríkisendurskoðun, í öðru lagi af Hagfræðistofnun háskólans og í þriðja lagi í þessari skýrslu sem hér liggur fyrir.

Það er einnig ljóst, hæstv. forseti, að það er almannavilji að lögunum verði breytt. Framsfl. lét sig hafa það að láta síðasta flokksþing sitt snúast um það að þessum lögum ætti að breyta, að það ætti að taka upp samtímagreiðslur aftur hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Í síðustu kosningum lýsti Framsfl. því yfir að hann mundi berjast fyrir því að það yrðu teknar upp samtímagreiðslur og talsmenn Framsfl. lýsa því hér yfir úr þessum ræðustól aftur og aftur að taka eigi upp samtímagreiðslur í lánum.

Þegar umræðan fer svo fram núna, þá gufa allir fulltrúar Framsfl. úr salnum. Hér voru þeir fjöldamargir í síðustu umræðu, m.a. með árásir á þann sem hér stendur og einnig í raun og veru á núv. hæstv. menntmrh. Þegar kemur að umræðum um LÍN, þá hleypur Framsókn úr salnum. Af hverju er það, hæstv. forseti? Er það vegna þess að hæstv. menntmrh. er búinn að hafa Framsfl. undir í málinu? Er það vegna þess að Framsfl. ætlar að lúffa og láta Sjálfstfl. skipa sér fyrir verkum í þessum efnum? Ég dreg ályktunina af því að í ræðu hæstv. menntmrh. áðan færðist hann allur í aukana við að snúast gegn samtímagreiðslum. Það bendir því allt til þess að Framsfl. sé að beygja sig í svaðið eins og hæstv. menntmrh. þóknast og það er dapurlegt, bæði fyrir lýðræðið í landinu en þó sérstaklega fyrir námsmenn, menntakerfið og þjóðina alla.