Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:42:57 (1742)

1996-12-03 16:42:57# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þá menn sem fá mjög háan lífeyri, bankastjóra og aðra, þá er ég hjartanlega sammála hv. þm. að það er mjög brýnt að taka á þeim vanda, þar sem menn öðlast mjög háan lífeyrisrétt á örstuttum tíma. Ég hef margoft bent á það og ég lagði fram frv. á síðasta Alþingi sem átti að afnema lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra en það náði ekki fram að ganga.

Varðandi þetta dæmi sem hv. þm. kom með, þá er það þannig að lífeyriskerfið í dag er félagslegt. Þeir sem engin eiga börnin borga jafnhátt iðgjald og þeir sem eiga mörg börn. Þannig er kerfið uppbyggt. Þeir sem eru ungir að árum borga jafnhátt iðgjald og öðlast jafnmikil réttindi og þeir sem eru gamlir þrátt fyrir að þeir sem yngri eru ættu í rauninni að fá miklu meiri réttindi af því að það er lengra til þess að þeir fái lífeyri og vextirnir sem reiknað er með gera það að verkum að þeir ættu að fá töluvert hærri réttindi fyrir hverja krónu heldur en þeir sem eru eldri. Þetta er félagsleg jöfnun í lífeyriskerfinu hér á landi.