Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 18:56:57 (1768)

1996-12-03 18:56:57# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[18:56]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil staðfesta þennan skilning varðandi kennara. Aðild þeirra og tryggður réttur í þessu máli er alveg ótvíræður. Það er enginn efi í mínum huga varðandi það. Það sem mér gekk til og ég held að sé mjög mikilvægt er að draga fram ákveðna óvissu sem fylgir þessari breytingu. Hún felst í því að þó svo við reiknum núna 11,5% þá getur þetta tekið breytingum af ástæðum m.a. vegna þess að skuldbindingunum við samningsaðila hefur verið breytt og sem ríkið hefur ekki nema að hluta til kannski áhrif á. Það getur líka gerst af ásettu ráði af hálfu ríkisins. Það getur einnig gerst við aðra viðmiðun vaxta. Það þarf að vera alveg ljóst að við erum að ganga inn í kerfi sem felur í sér, við getum kallað það umtalsverða áhættu. Ég er ekki að leggjast gegn þessari útfærslu en ég vil hins vegar að það sé alveg ljóst á hvaða braut við erum að feta okkur með þessu. Þetta er öðruvísi heldur en á almenna markaðnum. E.t.v. verður niðurstaðan í okkar uppstokkun í lífeyriskerfinu sú að menn þoki sér meira inn á þessa braut sem hér er, þ.e. tryggi aukinn lífeyri og þá með auknum greiðslum. Ég veit ekki um það, en við skulum vera þess fullmeðvitaðir í hvað við förum með þessari útfærslu.