Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 15:41:06 (2386)

1996-12-18 15:41:06# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[15:41]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki skýrði þessi málflutningur mjög mikið í þessu máli því sannleikurinn er sá að ég benti á þá ofureinföldu staðreynd að sambærilegar heimildir og hv. þm. hafði ákaflega stór orð um hafa staðið í samkeppnislögunum allt frá upphafi, í lögum sem voru sett m.a. að frumkvæði þáv. hæstv. viðskrh. sem kom úr Alþfl. Nú segir hv. þm. að hérna sé nokkuð langt gengið í þessum heimildum þó ég hafi nú að vísu ekki heyrt hann segja að verið væri að brjóta gegn öllum þessum mannréttindasáttmálum sem hann telur að verið sé að brjóta gegn með frv. um Póst- og fjarskiptastofnun. En það væri mjög fróðlegt ef hv. þm. talaði svolítið skýrar um lögin um Samkeppnisstofnun vegna þess að hv. þm. hefur fimbulfambað í löngu máli sínu um Póst- og fjarskiptastofnun en hefur síðan gefið til kynna að verið sé að ganga, eins og hann sagði, nokkuð langt varðandi samkeppnislögin. Og ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir þessa umræðu að hv. þm. svari því núna í seinna andsvari sínu hvort hann telji að ástæða sé til þess að fara sambærilegum orðum um lögin um Samkeppnisstofnun, hvort lögin um Samkeppnisstofnun séu brot á mannréttindasáttmálum, hvort á Alþingi Íslendinga, sem mig minnir nú að hafi samþykkt samkeppnislögin mótatkvæðalaust, hafi með því vaðið á skítugum skónum yfir öll mannréttindaákvæði í heiminum. Það er mjög mikilvægt að hv. þm. upplýsi okkur um þetta. Hann hefur komið á framfæri sínum sjónarmiðum varðandi Póst- og fjarskiptastofnun en hann hefur tækifæri til þess núna í seinna andsvari að tala um Samkeppnisstofnunina sem líka er nauðsynlegt.