Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 15:48:22 (2390)

1996-12-18 15:48:22# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[15:48]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að það hefið ekki farið fram hjá hv. þm. þegar hinn nýkjörni formaður Alþfl., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, tók til máls og kynnti sjálfan sig sem nútímalegan jafnaðarmann, fremstan í flokki jafningja. Mér skildist að það ætti að fara fram hér mikil breiðfylking nútímalegra jafnaðarmanna sem væru í grófum dráttum eins og nútímalegir jafnaðarmenn í öðrum löndum. Það er leiðinlegt ef þetta hefur farið fram hjá hv. þm. Hann hefur kannski verið vant við látinn á meðan formaðurinn flutti ræðu sína.

Hv. þm. var að tala um að Póst- og fjarskiptastofnun mundi þenjast mjög út. Við erum með sérstakt fjarskiptaeftirlit. Það er gert ráð fyrir því á fjárlögum að það kosti um 58 millj. kr., starfsmenn þess eru tíu. Það er gert ráð fyrir að heildarkostnaður við Póst- og fjarskiptastofnun verði 85--87 millj. kr. Þessi stofnun mun taka yfir ýmis verkefni sem nú eru hjá Pósti og síma þannig að þessi hrollvekja sem hann var að reyna að lýsa um hvernig þessi stofnun muni vaxa út er aðallega í hans eigin hugarheimi.

Ég vil aðeins lesa hér upp af því að hv. þm. virtist ekki skilja hvað stendur um m.a. úrræði Tryggingaeftirlitsins. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Tryggingaeftirlitið getur krafið þá, er vátryggingastarfsemi reka, um hvers konar gögn og upplýsingar, sem því þykir þurfa. Þá getur það rannsakað eða látið rannsaka alla starfsemi þessara aðilja og á rétt á að fá óhindraðan og tafarlausan aðgang að bókhaldi og skjölum þeirra, að jafnaði á venjulegum skrifstofutíma.``

Þannig að það er alveg ljóst að þau ákvæði sem við erum að tala um eru ekki einsdæmi. Ég hélt satt að segja að hv. þm., sem er vel að sér í lögum og vandvirkur í þeim efnum og gjörhugull hefði áttað sig á þessu.