Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 172 . mál.


189. Frumvarp til laga



um vinnumarkaðsaðgerðir.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Markmið þessara laga er að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu.

2. gr.

    Vinnumarkaðsaðgerðir eru samkvæmt lögum þessum aðgerðir sem eru gerðar að tilhlutan hins opinbera til þess að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu og sjá atvinnulífinu fyrir hæfu starfsfólki.

II. KAFLI

Vinnumálastofnun.

3. gr.

    Vinnumálastofnun, sem heyrir undir félagsmálaráðherra, fer með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu.
    Ráðherra skipar forstjóra Vinnumálastofnunar til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar.
    Forstjóri annast daglega stjórn stofnunarinnar og ræður starfsfólk hennar.

4. gr.

    Verkefni Vinnumálastofnunar eru:
    Að hafa eftirlit með svæðisvinnumiðlunum og samræma starfsemi þeirra.
    Að veita starfsfólki svæðisvinnumiðlana faglega aðstoð og fræðslu.
    Að afla upplýsinga frá svæðisvinnumiðlunum um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnuhorfur.
    Að vinna úr upplýsingum frá svæðisvinnumiðlunum og koma niðurstöðum, ábend-ingum og tillögum um vinnumarkaðsaðgerðir á framfæri við stjórn stofnunarinnar.
    Að fylgjast með þróun erlendis í vinnumarkaðsmálum og miðla upplýsingum um hana til hlutaðeigandi aðila.
    Að miðla í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar upplýsingum um vinnumarkaðsmál hér á landi til erlendra aðila.
    Ráðherra getur með reglugerð falið stofnuninni fleiri verkefni en kveðið er á um í 1. mgr.

III. KAFLI

Stjórn Vinnumálastofnunar.

5. gr.

    Félagsmálaráðherra skipar stjórn Vinnumálastofnunar til fjögurra ára í senn.
    Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasamband Íslands, Vinnumálasambandið, Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs tilnefna einn aðalmann og einn varamann hvert í stjórnina.
    Ráðherra skipar án tilnefningar tvo aðalmenn í stjórnina, formann og varaformann, svo og varamenn þeirra.
    Láti stjórnarmaður af störfum áður en fjögurra ára tímabilið rennur út skal nýr aðili einungis skipaður til loka tímabilsins.
    Forstjóri Vinnumálastofnunar skal sitja fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétti.

6. gr.

    Stjórn Vinnumálastofnunar skal funda eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði.
    Stjórnin skal reglulega halda samráðsfundi með fulltrúum aðila sem eiga sérhagsmuna að gæta á vinnumarkaðinum og ekki eiga fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Enn fremur skulu haldnir reglulegir samráðsfundir með aðilum sem hafa yfir að ráða sérþekkingu á vinnumarkaðinum.

7. gr.

    Stjórn Vinnumálastofnunar skal fylgjast með þróun vinnumarkaðarins á hverjum tíma og gera tillögur til félagsmálaráðherra um vinnumarkaðsaðgerðir.
    Stjórnin skal vera umsagnaraðili um lagafrumvörp og stjórnvaldsreglur sem snerta vinnumarkaðinn.
    Stjórnin skal árlega, eða oftar eftir því sem tilefni er til, gefa ráðherra skýrslu um þróun vinnumarkaðarins og árangur vinnumarkaðsaðgerða. Ráðherra skal á grundvelli skýrslna stjórnarinnar gera Alþingi árlega grein fyrir þróun mála á vinnumarkaðinum.
    Stjórnin hefur umsjón og eftirlit með rekstri og starfsemi Vinnumálastofnunar. Árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir forstjóra Vinnumálastofnunar skulu lagðar fyrir stjórnina til samþykktar áður en þær eru lagðar fyrir félagsmálaráðherra.

IV. KAFLI

Svæðisvinnumiðlanir.

8. gr.

    Landið er eitt vinnusvæði en svæðisvinnumiðlanir starfa á ákveðnum svæðum. Félagsmálaráðherra ákveður umdæmi þeirra og staðsetningu að fengnum tillögum stjórnar Vinnumálastofnunar. Staðarval skal miðast við að sem flestir íbúar umdæmisins eigi greiðan aðgang að þjónustu svæðisvinnumiðlunar. Svæðisráð svæðisvinnumiðlunar ákvarðar nánara fyrirkomulag skráningar atvinnulausra innan svæðis.

9. gr.

    Forstjóri Vinnumálastofnunar ræður forstöðumann svæðisvinnumiðlunar að fenginni umsögn svæðisráðs.
    Forstöðumaður annast daglega stjórn svæðisvinnumiðlunar í samræmi við starfsáætlun samþykktri af svæðisráði.

10. gr.

    Verkefni svæðisvinnumiðlunar eru:
    Að aðstoða atvinnuumsækjendur við atvinnuleit og atvinnurekendur við að útvega hæft starfsfólk.
    Að taka saman og miðla upplýsingum um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnuhorfur til svæðisráðs og Vinnumálastofnunar.
    Að veita upplýsingar og ráðgjöf um starfsval og starfsmenntun.
    Að miðla upplýsingum um laus störf og umsóknum um störf til annarra svæðisvinnumiðlana.
    Að sjá til þess að atvinnulausir eigi kost á ráðgjöf og úrræðum, svo sem námi eða starfsþjálfun, sem miðast við þarfir og aðstæður hvers og eins, og hafa það að markmiði að auka starfsgetu og starfsmöguleika hins atvinnulausa.
    Að annast skráningu atvinnulausra, gefa út vottorð um atvinnuleysi og miðla upplýsingum og gögnum til úthlutunarnefnda.
    Að hafa eftirlit með því að umsækjendur um atvinnuleysisbætur fullnægi skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar og tilkynna úthlutunarnefnd ef rökstudd ástæða er til þess að ætla að svo sé ekki.
    Stjórn Vinnumálastofnunar og svæðisráð geta falið svæðisvinnumiðlunum fleiri verkefni en kveðið er á um í 1. mgr.

V. KAFLI

Svæðisráð.

11. gr.

    Félagsmálaráðherra skipar á hverju svæði, að afloknum reglubundnum sveitarstjórnarkosningum, níu manna ráðgjafarnefnd svæðisvinnumiðlunar, sem í lögum þessum er nefnd svæðisráð.
    Svæðisráð skal skipað þremur fulltrúum tilnefndum af samtökum vinnuveitenda og þremur fulltrúum tilnefndum af samtökum launþega á svæðinu. Tveir fulltrúar skulu tilnefndir af sveitarfélögum og einn af framhaldsskólum á svæðinu. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Náist ekki samkomulag um tilnefningu úrskurðar ráðherra um hver skuli tilnefna fulltrúa í ráðið með hliðsjón af því hversu fjölmenn viðkomandi samtök eða sveitarfélög eru á svæðinu og að fenginni umsögn viðkomandi heildarsamtaka. Ráðherra skipar formann og varaformann svæðisráðs úr hópi þeirra sem tilnefndir hafa verið sem aðalmenn.
    Forstöðumaður svæðisvinnumiðlunar skal sitja fundi svæðisráðs með málfrelsi og tillögurétti.
    Svæðisráði er heimilt að skipa úr sínum hópi þriggja manna framkvæmdaráð til að fara með verkefni svæðisráðs eftir nánara umboði ráðsins.

12. gr.

    Svæðisráð skal funda að jafnaði einu sinni í mánuði.

13. gr.

    Svæðisráð skal fylgjast með framvindu atvinnumála á svæðinu og gera tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir. Tillögum sínum skal ráðið beina til stjórnar Vinnumálastofnunar, sveitarfélaga, atvinnuráðgjafa, félagasamtaka og fyrirtækja á svæðinu eftir því sem við á.
    Svæðisráð skal aðstoða svæðisvinnumiðlun við að hrinda í framkvæmd úrræðum fyrir atvinnulausa, sbr. e-lið 1. mgr. 10. gr., m.a. með því að fá þá aðila sem tilgreindir eru í 1. mgr. til samstarfs um slík úrræði.
    Svæðisráð skal árlega, og oftar eftir því sem tilefni er til, gefa stjórn Vinnumálastofnunar skýrslu um atvinnuástand og árangur vinnumarkaðsaðgerða á svæðinu.

VI. KAFLI

Réttindi og skyldur þeirra sem leita eftir atvinnu

og atvinnurekenda sem leita eftir vinnuafli.

14. gr.

    Svæðisvinnumiðlun er skylt að aðstoða alla þá sem hafa óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi við atvinnuleit og val á starfsnámi. Henni er enn fremur skylt að aðstoða atvinnurekendur sem leita eftir almennum upplýsingum um framboð á vinnuafli eða aðstoð við ráðningu starfsfólks. Þjónusta svæðisvinnumiðlunar skal miðast við þarfir hvers og eins.
    Svæðisvinnumiðlun getur synjað þeim um þjónustu sem ítrekað hefur hafnað úrræðum svæðisvinnumiðlunar um aðstoð eða ekki sinnt skyldum sínum gagnvart henni.

15. gr.

    Svæðisvinnumiðlun skal gera starfsleitaráætlun með samkomulagi við hvern einstakan atvinnuleitanda. Í því samkomulagi skulu koma fram hugmyndir atvinnuleitanda og fulltrúa svæðisvinnumiðlunar um atvinnumöguleika viðkomandi og hvaða tilboð og aðstoð vinnumiðlun getur veitt, sbr. e-lið 1. mgr. 10. gr. laga þessara. Áætlunin skal miðast við persónulegar forsendur atvinnuleitandans og atvinnuhorfur í landinu. Enn fremur skulu svæðisvinnumiðlun og hinn atvinnulausi semja um hvernig háttað skuli sambandi þeirra og eftirliti fulltrúa vinnumiðlunar meðan atvinnuleysi viðkomandi varir.
    Ef ágreiningur rís vegna samkomulags um starfleitaráætlun getur hvor aðili fyrir sig vísað honum til úthlutunarnefndar, sbr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

16. gr.

    Sá sem er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum eða sætir missi bóta skal eiga rétt á aðstoð svæðisvinnumiðlunar við að kanna rétt sinn til annarrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélagi.

17. gr.

    Þjónusta svæðisvinnumiðlana skal vera þeim sem leita eftir atvinnu og atvinnurekendum að kostnaðarlausu.

18. gr.

    Allar upplýsingar sem svæðisvinnumiðlun fær í starfi sínu, hvort sem þær snerta einkamál eða viðskiptahagsmuni, skulu vera trúnaðarmál vinnumiðlunar og þess er upplýsingar veitir, að öðru leyti en því sem snertir bein tengsl við miðlun vinnu og starfsráðningar.
    Stjórn Vinnumálastofnunar setur nánari reglur um meðferð upplýsinga varðandi þá sem leita eftir aðstoð svæðisvinnumiðlunar. Reglur þessar skulu staðfestar af ráðherra.

19. gr.

    Atvinnuleitanda er skylt að tilkynna svæðisvinnumiðlun, sem hann hefur leitað til, ef hann er ráðinn til starfa. Atvinnurekanda er á sama hátt skylt að tilkynna svæðisvinnumiðlun ef einhver þeirra atvinnuleitenda, sem hún hefur vísað á, er ráðinn til starfa.

20. gr.

    Ákvörðun svæðisvinnumiðlunar er unnt að skjóta til stjórnar Vinnumálastofnunar eftir að svæðisráð hefur fjallað um málið.

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

21. gr.

    Fyrirtækjum, einstaklingum og félagasamtökum er heimilt að annast milligöngu um ráðningar, enda sé það gert á kostnað atvinnurekenda. Mál vegna brota á þessu skulu varða sektum sem renna skulu í ríkissjóð. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

22. gr.

    Kostnaður af rekstri Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana greiðist af ríkinu.

23. gr.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um störf Vinnumálastofnunar og stjórnar hennar og svæðisvinnumiðlana og svæðisráða.

24. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. júlí 1997. Jafnframt falla úr gildi lög um vinnumiðlun, nr. 18/1985, með síðari breytingum, og IX. kafli laga um stjórn efnahagsmála o.fl., nr. 13/1979.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þegar eftir gildistöku laga þessara skal skipa svæðisráð, sbr. 11. gr. laga þessara, sem starfa skulu þar til skipuð hafa verið ný svæðisráð að afloknum næstu reglulegu sveitarstjórnarkosningum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði sumarið 1995. Nefndin var skipuð sem hér segir: Hjálmar Árnason alþingismaður, formaður, Ögmundur Jónasson alþingismaður, Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, Hervar Gunnarsson varaforseti ASÍ, Jón Rúnar Pálsson lögfræðingur VMS, Jón H. Magnússon lögfræðingur VSÍ og Nikulás Einarsson viðskiptafræðingur hjá Reykjavíkurborg.
    Nefndin skilaði af sér til ráðherra tveimur frumvörpum í apríl 1996, annars vegar frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir og hins vegar frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar. Nefndin stóð einhuga að baki fyrra frumvarpinu en ágreiningur var í nefndinni um frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar og urðu lyktir þær að Hervar Gunnarsson og Ögmundur Jónasson stóðu ekki að því.
    Frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir er ætlað að leysa af hólmi lög um vinnumiðlun, nr. 18/1985, með síðari breytingum. Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:
    Í frumvarpinu er lagt til að vinnumiðlun verði rekin alfarið á vegum ríkisins. Var einhugur í nefndinni, sem samdi frumvarpið, um að unnt sé að efla og samhæfa vinnumiðlun betur en nú er ef rekstur hennar er á einni hendi.
    Lagt er til að Vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins verði gerð að sjálfstæðri stofnun, sem nefnist Vinnumálastofnun. Stofnunin fari með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu. Hún lúti stjórn nefndar sem verði skipuð aðilum vinnumarkaðarins, en fulltrúi félagsmálaráðherra gegni formennsku í henni, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Auk umsjónar- og eftirlitshlutverks með stofnuninni hafi stjórnin það hlutverk að fylgjast með ástandi vinnumarkaðarins á hverjum tíma, gefa félagsmálaráðherra skýrslu þar að lútandi og gera tillögur til hans um vinnumarkaðsaðgerðir, sbr. 7. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt frumvarpinu skulu svæðisvinnumiðlanir, sbr. 8. gr. frumvarpsins, annast opinbera vinnumiðlun hver á sínu svæði undir yfirstjórn Vinnumálastofnunar. Taldi nefndin nauðsynlegt að a.m.k. ein svæðisvinnumiðlun verði starfandi í hverju kjördæmi. Til þess að tryggja nauðsynlegt aðgengi íbúa svæðis er gert ráð fyrir að samið verði við aðila eins og sveitarfélög, verkalýðsfélög eða sýslumenn um að annast skráningu atvinnulausra. Eitt af nýmælum frumvarpsins er að svæðisvinnumiðlanir eigi að sjá atvinnulausum fyrir ráðgjöf og úrræðum, svo sem námi og starfsþjálfun, til þess að auka starfsgetu og starfsmöguleika þeirra, sbr. e-lið 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að í tengslum við svæðisvinnumiðlanir starfi sérstakar ráðgjafarnefndir, sem í frumvarpinu eru nefndar svæðisráð, skipaðar fulltrúum aðila vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum sveitarfélaga og framhaldsskóla á svæðinu, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Svæðisráðin hafi það hlutverk að fylgjast með atvinnumálum á svæðinu og gefa stjórn Vinnumálastofnunar skýrslu þar að lútandi, gera tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir og fá aðila á svæðinu til samstarfs um slíkar aðgerðir, sbr. 13. gr. frumvarpsins. Byggt er á því að svæðisráðin gegni lykilhlutverki við að aðstoða svæðisvinnumiðlanir til að hrinda í framkvæmd náms- og starfsúrræðum fyrir atvinnulausa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin felur í sér skilgreiningu á markmiði laganna. Orðalag er einfaldað frá því sem er í 2. mgr. 1. gr. laga um vinnumiðlun, nr. 18/1985, en inntakið er hið sama

Um 2. gr.


    Hugtakið vinnumarkaðsaðgerðir nær í lögunum til allra aðgerða sem framkvæmdar eru af ríki eða sveitarfélögum, eða með aðstoð þeirra, til þess að ná jafnvægi á vinnumarkaðinum og sjá honum fyrir hæfu starfsfólki. Hugtakið tekur til starfsemi Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana og starfa stjórnar Vinnumálastofnunar og svæðisráða vinnumiðlunar. Það tekur einnig til aðgerða ríkis og sveitarfélaga til þess að skapa til frambúðar ný atvinnutækifæri á grundvelli tillagna þessara aðila og aðgerða til þess að draga úr þenslu á vinnumarkaði.

Um 3. gr.


    Greinin gerir ráð fyrir að ný stofnun, Vinnumálastofnun, verði sett á laggirnar til þess að annast yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu og að hún taki við verkefnum vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að starfsmenn vinnumálaskrifstofunnar verði starfsmenn hinnar nýju stofnunar. Þykir rétt að fela sjálfstæðri stofnun yfirstjórn vinnumiðlunar fremur en að deild eða skrifstofa í ráðuneytinu hafi það hlutverk með höndum. Er þetta í samræmi við þá stefnu að færa hrein stjórnsýsluverkefni frá ráðuneytum, sem annist sem mest stefnumótun, sbr. stofnun fangelsismálastofnunar og barnaverndarstofu.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að efla opinbera vinnumiðlun. Þáttur í því er að rekstur vinnumiðlana verði verkefni ríkisins en ekki sveitarfélaga eins og nú er. Með því móti fæst betri heildarsýn yfir vinnumarkaðinn en það hefur þótt brenna við að starfsemi vinnumiðlana sveitarfélaga einskorðist um of við eigið sveitarfélag. Jafnframt er nauðsynlegt að efla yfirstjórn málaflokksins. Með því að svæðisvinnumiðlanir verði reknar á vegum ríkisins verða tengsl vinnumiðlana og Vinnumálastofnunar skýrari og nánari en milli vinnumálaskrifstofu og vinnumiðlana sveitarfélaga. Verður væntanlega auðveldara fyrir Vinnumálastofnun að framfylgja nauðsynlegu eftirliti og samræmingu milli vinnumiðlana en nú er.

Um 4. gr.


    Í greininni eru talin helstu verkefni Vinnumálastofnunar. Stofnunin hefur hliðstæð verkefni og vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins nú, sbr. lög nr. 18/1985 og IX. kafla laga nr. 13/1979, sbr. reglugerð um Vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins, nr. 9/1980. Verkefnin eru af tvennum toga, annars vegar er um að ræða aðstoð og eftirlit gagnvart svæðisvinnumiðlunum og hins vegar söfnun, vinnslu og miðlun upplýsinga um atvinnuleysi, atvinnuástand og atvinnuhorfur.
    Í 2. mgr. greinarinnar er ráðherra veitt heimild til þess að fela stofnuninni fleiri verkefni en kveðið er á um í 1. mgr. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að hugsanlegt er að ráðherra neyti heimildar sinnar í 2. mgr. 3. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, til þess að fela stofnuninni útgáfu atvinnuleyfa. Einnig er hugsanlegt að ráðherra feli stofnuninni að gegna hlutverki þjónustustofnunar samkvæmt EBE-reglugerð um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. lög nr. 47/1993, með síðari breytingum.
    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 45/1995 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, annast vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins skrifstofuhald fyrir atvinnuleysistryggingasjóð. Í 19. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar er lagt til að Vinnumálastofnun hafi það hlutverk með höndum.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir að stjórn Vinnumálastofnunar verði skipuð á sama hátt og ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins, sbr. 3. gr. laga nr. 18/1985, að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir að Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands eigi fulltrúa í stjórninni. Breytingin tengist því að stjórnin hefur að nokkru leyti aðra stöðu en ráðgjafarnefndin þar sem henni er ætlað umsjónar- og eftirlitshlutverk gagnvart Vinnumálastofnun sem ráðgjafarnefndin hefur ekki gagnvart vinnumálaskrifstofu. Hins vegar er gert ráð fyrir að stjórnin haldi reglulega samráðsfundi með aðilum eins og Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp, sbr. 2. mgr. 6. gr.

Um 6. gr.


    Til þess að stjórnin geti sinnt verkefnum sínum skv. 7. gr. er nauðsynlegt að hún fylgist vel með allri þróun á vinnumarkaðinum og sé í nánu sambandi við aðila sem tengjast honum. Með hliðsjón af því er í greininni gert ráð fyrir að stjórnin haldi reglulega samráðsfundi með fulltrúum aðila sem tengjast vinnumarkaðinum en ekki eiga fulltrúa í stjórninni. Annars vegar er um að ræða aðila sem eiga sérhagsmuna að gæta á vinnumarkaðinum, svo sem hagsmunasamtök fatlaðra og félög aðila vinnumarkaðarins sem ekki eiga aðild að þeim heildarsamtökum sem eiga fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Hins vegar er um að ræða aðila sem hafa yfir að ráða sérfræðiþekkingu á málefnum vinnumarkaðarins, svo sem Þjóðhagsstofnun, Byggðastofnun o.fl. Ráðherra hefur heimild til að kveða nánar á um þessa samráðsfundi í reglugerð, sbr. 23. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.


    Þess er vænst að stjórn Vinnumálastofnunar muni, m.a. á grundvelli upplýsinga sem hún fær frá starfsmönnum stofnunarinnar, svæðisvinnumiðlunum og samráðsaðilum, öðlast heildarsýn yfir ástand vinnumarkaðarins hverju sinni og verði því vel í stakk búin til þess að miðla upplýsingum til ráðherra og gera tillögur til hans um opinberar aðgerðir til að skapa jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli. Þær geta bæði falið í sér tillögur um aðgerðir til að skapa ný atvinnutækifæri og aðgerðir til að draga úr þenslu á vinnumarkaðinum. Valdsvið stjórnar til að fjalla um vinnumarkaðsmál takmarkast við þau mál sem hafa áhrif á framboð og eftirspurn eftir vinnuafli. Auk þess að veita upplýsingar og gera tillögur til ráðherra hefur stjórnin umsjón og eftirlit með rekstri og starfsemi Vinnumálastofnunar.

Um 8. gr.


    Í greininni er áréttað að landið sé eitt vinnusvæði, en í því felst að vinnumiðlun er rekin á landsvísu og að mönnum getur verið skylt að taka vinnu utan heimabyggðar sinnar samkvæmt nánari ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 13. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segir að ef hafnað sé vinnu fjarri heimili meti úthlutunarnefnd hvort það skuli varða missi bótaréttar og skal þá m.a. gætt heimilisástæðna umsækjanda. Ákvæðið er hvað þetta atriði snertir samhljóða 6. tölul. 21. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum með 13. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að með heimilisástæðum sé átt við fjölskylduaðstæður, þar á meðal heilsufar fjölskyldumeðlima umsækjanda.
    Hver svæðisvinnumiðlun þjónar fyrst og fremst sínu umdæmi en þeim er síðan ætlað að miðla upplýsingum sín á milli, sbr. d-lið 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins.
    Hugmyndir nefndar sem samdi drög að þessu frumvarpi eru þær að svæðisvinnumiðlanir þurfi a.m.k. að vera starfandi í hverju kjördæmi landsins, þó þannig að umdæmi þeirra fylgi ekki endilega kjördæmamörkum nákvæmlega. Til þess að tryggja greiðan aðgang íbúa er nauðsynlegt að skráningarstaðir séu fleiri og því er í ákvæðinu kveðið á um að svæðisráð ákvarði nánar fyrirkomulag skráningar innan svæðis. Er gert ráð fyrir að aðilar eins og sveitarfélög, sýslumenn og verkalýðsfélög geti annast þau verkefni á grundvelli óska svæðisráðs.

Um 9. gr.


    Ákvæðið gerir ráð fyrir að forstöðumaður annist daglega stjórn svæðisvinnumiðlunar í samræmi við starfsáætlun sem svæðisráð hefur samþykkt. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður geri tillögu að starfsáætlun fyrir nánar tiltekinn tíma og að hún verði lögð fyrir svæðisráð. Í starfsáætluninni verði gerð áætlun um áherslur og markmið í starfi svæðisvinnumiðlunar, innan ramma gildandi laga, reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla Vinnumálastofnunar um starfsemi svæðisvinnumiðlana. Nauðsynlegt er að slíkar áætlanir sæti reglubundinni endurskoðun og metið sé hvernig tekist hefur að framfylgja áætlun.

Um 10. gr.


    Grein þessi fjallar um verkefni svæðisvinnumiðlana. Verkefni þeirra eru hliðstæð verkefnum vinnumiðlana sveitarfélaga, sbr. 8. gr. laga um vinnumiðlun, nr. 18/1985. Hins vegar er gert ráð fyrir að svæðisvinnumiðlanir verði mun virkari en vinnumiðlanir sveitarfélaga og hafi upp á að bjóða víðtækari ráðgjöf og úrræði fyrir atvinnulausa. Mikilvægustu nýmælin í því sambandi eru í e-lið 1. mgr. 10. gr. þar sem gert er ráð fyrir að svæðisvinnumiðlun skuli sjá atvinnulausum fyrir ráðgjöf og úrræðum sem miða að því að auka starfsgetu og starfsmöguleika þeirra. Með úrræðum er átt við að gerður sé samningur við hinn atvinnulausa um að hann sinni ákveðnu verkefni daglega í tiltekinn tíma, annað hvort á almennum launakjörum eða á atvinnuleysisbótum. Verkefnin geta falið í sér nám, störf eða samtvinnun á námi og störfum, en þau verða að taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum og þörfum hins atvinnulausa og miða að því að auka starfsgetu og starfsmöguleika hans. Er gert ráð fyrir að hinn atvinnulausi muni geta valið um nokkur úrræði, en það að hafna alfarið slíkum úrræðum geti haft sömu viðurlög í för með sér og að hafna vinnu samkvæmt nánari ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar. Er þess vænst að með framangreindum hætti sé unnt að virkja hinn atvinnulausa til athafna sem auki raunverulega atvinnumöguleika hans í stað þess að hann sé aðgerðarlaus sem hefur þveröfug áhrif. Einnig er með þessum hætti unnt að hafa eftirlit með því að hinn atvinnulausi sé raunverulega atvinnulaus og hafi vilja til þess að fá atvinnu.
    Gert er ráð fyrir að svæðisráð, sem skipað er fulltrúum sveitarstjórna, framhaldsskóla og aðila vinnumarkaðarins í umdæmi svæðisvinnumiðlunar, aðstoði svæðisvinnumiðlanir við að skipuleggja og hrinda í framkvæmd slíkum úrræðum og að gerðir verði samningar við sveitarfélög, framhaldsskóla, fyrirtæki og ríkisstofnanir um að annast framkvæmd þeirra. Með hliðsjón af skipun svæðisráðs og tengsla ráðsmanna við atvinnulíf á svæðinu er talið unnt að tryggja að eingöngu verði boðið upp á úrræði sem þjóni framangreindum markmiðum fyrir hinn atvinnulausa. Í 22. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar er gert ráð fyrir að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sé heimilt að styrkja þessi úrræði.
    Það færi eftir því hvort hinn atvinnulausi er ráðinn á almennum launakjörum eða ekki, hvort hann telst atvinnulaus meðan á einhverju úrræði stendur þannig að honum sé ekki skylt að taka frambúðaratvinnu sem býðst á tímabilinu. Hér er gerð nánari grein fyrir því um hvers konar úrræði getur verið að ræða:
     Úrræði í atvinnuleysi – skylduvirkni. Hér á eftir skulu nefnd nokkur þeirra úrræða sem gert er ráð fyrir að atvinnulausum muni standa til boða. Ítrekað er að þeim er ætluð sú skylda að velja eitt þeirra og sinna þeim daglega að viðlögðum missi bóta. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að koma í veg fyrir félagslegt skipbrot einstaklinga, en allar rannsóknir sýna að atvinnuleysi hefur á skömmum tíma neikvæð áhrif á einstaklinga. Með ákvæðum um skylduvirkni vinnst og það að líkur á ranglátri misnotkun atvinnuleysisbóta verða minni.
     Nýsköpun innan fyrirtækja. Innan margra fyrirtækja starfa einstaklingar sem hafa hugmyndir að nýsköpun hvers konar. Vegna daglegra starfa sinna gefst þeim sjaldan tækifæri til að sinna þeim. Hér er gert ráð fyrir því að hinn atvinnulausi leysi af hólmi hugvitsmanninn, en sá síðarnefndi vinni að hugmyndum sínum innan fyrirtækisins.
     Nýsköpun á eigin vegum. Gert er ráð fyrir að einstaklingar geti á eigin vegum sinnt nýsköpun með samþykki starfsfólks svæðisvinnumiðlunar. Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að samráð sé haft við atvinnuráðgjafa, Iðntæknistofnun, nýsköpunarsjóði og aðra er málum af þessum toga tengjast.
     Leit að nýjum tækifærum. Í samráði við svæðisvinnumiðlun verði einstaklingum gefinn kostur á að leita eftir nýjum hugmyndum til atvinnutækifæra, m.a. eftir leiðum tölvutækninnar, skilgreina og skoða með t.d. atvinnuráðgjöfum, hugvitsmönnum o.fl.
     Stofnun fyrirtækja. Atvinnulausir stofni fyrirtæki um nýja hugmynd sem hlotið hefur blessun svæðisvinnumiðlunar. Tilraunin standi í sex mánuði. Reynsla Svía af þessari aðferð er mjög jákvæð og sýnir m.a. að um þriðjungur slíkra fyrirtækja lifir áfram.
     Landgræðsla. Í samstarfi við félög, stofnanir og fyrirtæki verði gefinn kostur á landgræðsluverkefnum ýmiss konar. Af nógu er að taka á því sviði.
     Endurmenntunarstefna fyrirtækja. Fyrirtæki og stofnanir geri sér endurmenntunaráætlun þannig að stöðugt sé ákveðinn fjöldi starfsmanna í endurmenntun, en í þeirra stað verði ráðnir einstaklingar af atvinnuleysisskrá. Tvennt vinnst með þessu. Annars vegar styrkir fyrirtækið samkeppnisstöðu sína og hins vegar skapast svigrúm til að ráða fólk til tímabundinna starfa.
     Tilraun með sveigjanlegan vinnutíma. Náist um það samstaða meðal aðila vinnumarkaðarins, einstakra fyrirtækja og starfsfólks verði gerðar tilraunir í einstökum fyrirtækjum með sveigjanlegan vinnutíma. Þetta getur m.a. falið í sér að einstaklingar geta sótt vinnu á öðrum tímum en venjulega tíðkast. Um þetta þarf vitaskuld að vera náið samráð.
     Menntun og námskeið. Gildi starfsmenntunar fer stöðugt vaxandi í atvinnulífinu. Í ábendingum OECD og ESB er hvatt til að þessi þáttur verði efldur til muna sem leið út úr varanlegu atvinnuleysi. Mælt er með því að einstaklingar geti verið á námskeiðum á meðan þeir styrkja stöðu sína gagnvart vinnumarkaðnum. Hins vegar er lagt til að Starfsmenntasjóður annist greiðslur fyrir undirbúning og kennslu slíkra námskeiða.
     Tækifæri til að sanna sig innan fyrirtækja. Einstaklingi er gefinn kostur á að „sanna sig“ innan fyrirtækis. Fyrirtækið greiði muninn á bótum og launatöxtum. Gæta verður þess að engum sé sagt upp störfum á móti né að fyrirtæki misnoti þennan möguleika. Reynsla Svía af þessari leið er sú að um 63% þeirra sem fá slík tækifæri ílendast í fyrirtæki.
     Störf í þágu Atvinnuleysistryggingasjóðs og svæðisvinnumiðlana. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn og svæðisvinnumiðlanir geti ráðið fólk af atvinnuleysiskrá til að vinna ýmis störf í þágu sjóðsins eða svæðisvinnumiðlana, svo sem úttektir, ráðgjöf, eftirlit o.s.frv.
     Orlofsstefna fyrirtækja. Fyrirtæki skoði hvort einhverjir starfsmanna sinna vilji taka sér launalaust orlof í tiltekinn tíma en halda stöðu sinni. Í staðinn má ráða fólk af atvinnuleysisskrá.
     Stuðningur við útflutningsverkefni. Sérstaklega verði stutt við bakið á fyrirtækjum sem eru að hasla sér völl í útflutningi, enda séu þau ekki í samkeppni við önnur innlend fyrirtæki.
     Umhverfisverkefni. Fólk vinni að ýmsum umhverfismálum í samstarfi við samtök og stofnanir á því sviði. Hér eru verkefni óþrjótandi.
     Ferðamál. Í samstarfi við ferðamálasamtök verði gert átak á sviði ferðamála. Samkvæmt upplýsingum fólks úr þessum geira eru verkefnin óþrjótandi fyrir þennan mikilvæga atvinnuveg Íslendinga.
     Aukin opinber þjónusta. Á öllum sviðum velferðarkerfisins er kvartað undan því að þjónusta mætti vera meiri. Auðvelt er að skilgreina ný verkefni á því sviði við t.d. alls kyns umönnun fyrir m.a. aldraða, fatlaða og sjúka. Gæsla og leiðbeiningar til að efla öryggi borgaranna er orðinn snar þáttur í lífi okkar. Ýmsum félagslegum þáttum má sinna betur og þannig má áfram telja. Að þessu sviði mætti beina mörgum úr atvinnuleysi. Hafa ber þó vel í huga að hvergi sé gengið á svig við fyrirtæki á þessu sviði né kjarasamninga.
     Aðstoð við góðgerðarsamtök og stofnanir. Stofnanir á borð við kirkjuna, hjálparsveitir og Rauða krossinn vinna þakklát störf. Í samráði við þessa aðila mætti skilgreina ýmis störf er beina mætti fólki að.
     Opinberar framkvæmdir. Á tímum samdráttar í atvinnulífinu kemur til greina að hið opinbera auki framkvæmdir sínar. Setja má þar inn ákvæði um ráðningu fólks af atvinnuleysisskrá.
     Styrkir með einstaklingum 60 ára og eldri. Illu heilli virðist til sú skoðun almenn að fólk eldra en 60 ára skili ekki fullum afköstum í vinnu. Af þeim sökum á sá aldurshópur oft örðugt um vik að fá störf. Fordómum þarf að eyða, en sú leið hefur verið farin t.d. annars staðar á Norðurlöndum að stutt er við bakið á þeim fyrirtækjum er sýna skilning á þessu sviði.
    Hér hefur verið bent á nokkur hugsanleg úrræði fyrir atvinnulausa. Áhersla er hins vegar lögð á að hér er aðeins um ábendingar að ræða en aðaluppspretta nýrra hugmynda ætti að vera skilvirk vinnumiðlun þar sem stöðugt og náið samband er milli starfsfólks hennar og fyrirtækja og opinberra stofnana á svæðinu.
    Gert er ráð fyrir nánu samstarfi sjóðsins og svæðisvinnumiðlana við aðila vinnumarkaðar, nýsköpunarsjóði, Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og aðra þá aðila er að nýsköpun í atvinnulífi koma. Í einhverjum tilvikum má ætla styrki eða lán frá slíkum aðilum til nýsköpunarverkefna með framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Reikna má með að einhvern tíma taki svæðisvinnumiðlanir að koma úrræðum sínum í það horf að til þeirra megi grípa.
    Meginatriðið er að hið opinbera, stjórnendur fyrirtækja og verkalýðsfélög axli í sameiningu þá miklu ábyrgð sem felst í því að útrýma atvinnuleysi. Varað er við því að festast í fyrra horfi en hvatt til þess að horft verði djörfum og bjartsýnum augum til framtíðar. Segja má að viljinn ráði verki.

Um 11. gr.


    Lagt er til að sérstök ráðgjafarnefnd, sem nefnd verði svæðisráð, verði starfandi í tengslum við hverja svæðisvinnumiðlun. Hún verði skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og framhaldsskóla á svæðinu og á skipan hennar að endurspegla hversu fjölmenn viðkomandi samtök eða sveitarfélög eru á svæðinu. Er byggt á því að aðilar nái samkomulagi um tilnefningar, en gangi það ekki eftir skuli ráðherra úrskurða um það með hliðsjón af því hversu fjölmenn viðkomandi samtök eða sveitarfélög eru á svæðinu. Er gert ráð fyrir að hann afli umsagnar viðkomandi heildarsamtaka, þar með talið Sambands íslenskra sveitarfélaga ef við á, áður en hann kveður upp úrskurð sinn. Með þessari skipan svæðisráðs er þess vænst að tryggja megi að í ráðinu sitji aðilar með víðtæka þekkingu á atvinnulífi og atvinnuástandi á svæðinu. Vegna mikilvægi menntunar fyrir atvinnumöguleika atvinnulausra og með hliðsjón af þeim úrræðum sem svæðisvinnumiðlun skal sjá atvinnulausum fyrir, sbr. e-lið 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins, er talið mikilvægt að í ráðinu eigi sæti fulltrúi framhaldsskóla á svæðinu.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Grein þessi fjallar um verkefni svæðisráðs. Svæðisráð hefur það hlutverk að fylgjast með þróun atvinnumála á svæðinu og upplýsa stjórn Vinnumálastofnunar um þau mál. Á grundvelli þekkingar sinnar á atvinnumálum á svæðinu og tengsla við atvinnulífið skal ráðið gera tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir og beina þeim til þeirra aðila sem það telur æskilegt að fá til samstarfs um framkvæmd aðgerða. Með 2. mgr. greinarinnar er lögð sérstök áhersla á að svæðisráð aðstoði svæðisvinnumiðlun við að hrinda í framkvæmd úrræðum fyrir atvinnulausa skv. e-lið 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins.
    Ekki er gert ráð fyrir að svæðisráð hafi stjórnunarhlutverk gagnvart svæðisvinnumiðlun enda er það nauðsynlegt, m.a. vegna samræmingarsjónarmiða, að svæðisvinnumiðlanir lúti einni og sömu yfirstjórn. Í einstökum ákvæðum frumvarpsins er svæðisráði þó falið að hafa ákveðin afskipti af starfsemi svæðisvinnumiðlunar. Þannig á svæðisráð skv. 8. gr. frumvarpsins að taka ákvörðun um nánara fyrirkomulag skráningar atvinnulausra innan svæðis. Rökin að baki ákvæðinu eru þau að í ráðinu sitja fulltrúar frá svæðinu sem hafa þekkingu á staðháttum og tengsl við aðila á staðnum. Vegna þeirra fjárskuldbindinga sem leiða af samningum við þriðja aðila um að taka að sér skráningu er nauðsynlegt að samþykki Vinnumálastofnunar til samninga við þriðja aðila liggi fyrir. Skv. 9. gr. frumvarpsins er einnig gert ráð fyrir að starfsáætlanir forstöðumanns svæðisvinnumiðlunar verði lagðar fyrir svæðisráð til samþykktar, sbr. athugasemdir við þá grein, og skv. 2. mgr. 10. gr. getur svæðisráð falið svæðisvinnumiðlun fleiri verkefni en kveðið er á um í 1. mgr. greinarinnar. Slík verkefni mega að sjálfsögðu ekki stríða gegn lögum, reglugerðum og stjórnvaldsfyrirmælum Vinnumálastofnunar og ef þau hefðu fjárskuldbindingar í för með sér sem gætu komið niður á öðrum verkefnum svæðisvinnumiðlunar yrði að afla samþykkis Vinnumálastofnunar.

Um 14. gr.


    Af orðalaginu „óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi“ leiðir m.a. að svæðisvinnumiðlun væri skylt að aðstoða ríkisborgara í EES-landi á sama hátt og íslenska ríkisborgara, sbr. 5. gr. reglugerðar um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 1612/68/EBE, með síðari breytingum, sbr. lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafóks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993, með síðari breytingum.
    Gert er ráð fyrir að svæðisvinnumiðlun annist atvinnuleit fyrir fatlaða og er væntanlegt frumvarp til laga um breytingu á 28. gr. laga um málefni fatlaðra. Skv. 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins getur svæðisvinnumiðlun synjað þeim um þjónustu sem hefur ítrekað hafnað úrræðum svæðisvinnumiðlunar um aðstoð eða ekki sinnt skyldum sínum gagnvart henni. Synjun svæðisvinnumiðlunar um aðstoð felur í sér stjórnvaldsákvörðun sem viðkomandi aðili gæti skotið til stjórnar Vinnumálastofnunar, sbr. 20. gr. frumvarpsins.
    Þjónusta svæðisvinnumiðlana skal ekki einskorðast við þá sem eru atvinnulausir heldur er þeim einnig skylt að aðstoða fólk sem hefur áhuga á að skipta um vinnu.

Um 15. gr.


    Með greininni er lagt til að það verði fastur þáttur í þjónustu svæðisvinnumiðlunar að í samvinnu hins atvinnulausa og svæðisvinnumiðlunar verði gerð úttekt á stöðu og möguleikum hans til þess að fá vinnu og á grundvelli hennar verði gerð áætlun um á hvern hátt eigi að vinna að því markmiði. Þessar hugmyndir eru teknar upp að fyrirmynd nágrannaþjóða okkar þar sem svokölluð „handlingsplaner“ fyrir atvinnulausa hafa unnið sér fastan sess.
    Skv. 12. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar eru það eingöngu þeir sem ekki hafa gert starfsleitaráætlun sem er skylt að skrá sig vikulega. Er gert ráð fyrir því að sveigjanlegri reglur um eftirlit eigi við um þá sem gert hafa starfsleitaráætlanir, þannig að eftirlitið geti tekið mið af því hvort og í hvaða verkefnum hinn atvinnulausi tekur þátt hverju sinni. Það segir sig sjálft að ekki er þörf á sérstakri skráningu fyrir þann sem mætir til daglegra starfa sem þátttakandi í verkefnum svæðisvinnumiðlana. Hins vegar geta komið þau tímabil milli úrræða þegar gera verður kröfu um sérstaka skráningu. Er gert ráð fyrir því að í starfsleitaráætlun verði kveðið nánar á um hvernig eftirliti verði háttað. Ef ágreiningur rís milli svæðisvinnumiðlunar og hins atvinnulausa um þetta er unnt að vísa honum til úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta til úrskurðar, en skv. 12. gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar hefur úthlutunarnefnd heimild til þess að kveða upp úrskurð um bótamissi ef maður fylgir ekki starfsleitaráætlun.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra hafi á grundvelli 23. gr. frumvarpsins heimild til að setja með reglugerð nánari ákvæði um hvernig eftirliti svæðisvinnumiðlunar skuli háttað.

Um 16. gr.


    Greinin felur í sér að atvinnulausir sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum eða sæta missi bóta skuli eiga rétt á sérstakri aðstoð svæðisvinnumiðlunar við að kanna hugsanlegan rétt sinn til aðstoðar samkvæmt öðrum lögum og reglum. Eru hér fyrst og fremst höfð í huga lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð.

Um 17. gr.


    Gert er ráð fyrir að þjónusta svæðisvinnumiðlana verði endurgjaldslaus á sama hátt og þjónusta vinnumiðlana sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumiðlun, nr. 18/1985.

Um 18. gr.


    1. mgr. greinarinnar er samhljóða 2. mgr. 10. gr. gildandi laga um vinnumiðlun. Gert er ráð fyrir að í reglum sem stjórn Vinnumálastofnunar setur skuli kveðið nánar á um meðferð upplýsinga sem svæðisvinnumiðlun berast.

Um 19. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 20. gr.


    Með ákvörðun er átt við stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Með umfjöllun svæðisráðs er átt við að afla skuli umsagnar þess um kærumál áður en stjórn Vinnumálastofnunar kveður upp úrskurð sinn en ekki að svæðisráð skuli vera sjálfstæður málskotsaðili.

Um 21. gr.


    Hliðstætt ákvæði er nú í 17. gr. laga um vinnumiðlun. Samkvæmt því getur félagsmálaráðherra að fengnum meðmælum hlutaðeigandi sveitarstjórnar heimilað stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og námsmanna að annast atvinnumiðlun fyrir félagsmenn sína. Einnig er fyrirtækjum og einstaklingum heimilt að annast milligöngu um ráðningar, en af orðalagi ákvæðisins er ekki ljóst hvort slíkir aðilar þurfi sérstaka heimild ráðherra til þess. Í framkvæmd hefur ekki verið gengið eftir því að milligönguaðilar um ráðningar afli sér sérstakrar heimildar til starfa. Þykja ekki rök til þess að gera kröfu til þess. Ef slíkt ákvæði á að hafa einhvern tilgang þyrfti Vinnumálastofnun að hafa með höndum viðamikið eftirlit sem ekki þykja nægileg rök fyrir. Viðhaldið er áskilnaði um að slík milliganga verði að vera atvinnuleitendum að kostnaðarlausu. Í 20. gr. gildandi laga um vinnumiðlun er almennt ákvæði um refsiviðurlög vegna brota á lögunum. Ekki þykja rök til þess að viðhalda slíku almennu ákvæði enda vandséð að til refsimála geti komið vegna þjónustustarfsemi Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana. Hins vegar þykja rök til þess að viðhalda slíku refsiákvæði vegna einkarekinna vinnumiðlana. Er í því sambandi m.a. litið til þess að á liðnum árum hafa vaknað grunsemdir um að gerðar hafi verið tilraunir til þess að taka gjald af atvinnuleitendum sem leitað hafa til slíkra milligönguaðila.

Um 22. gr.


    Lagt er til að allur kostnaður af rekstri Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana verði greiddur af ríkinu. Í því felst m.a. að ríkið greiði kostnað vegna stjórnar Vinnumálastofnunar og svæðisráða og vegna samninga sem gerðir kunna að verða við þriðja aðila vegna skráningar atvinnulausra, sbr. 8. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.


    Hér er um að ræða hefðbundið reglugerðarákvæði. Ljóst er að nauðsynlegt er að setja nánari ákvæði í reglugerð um samskipti Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlunar, t.d. nánari reglur um þær upplýsingar sem svæðisvinnumiðlun skal miðla til Vinnumálastofnunar. Enn fremur nánari reglur um samstarf svæðisvinnumiðlana, ráðgjöf þeirra og starfsleitaráætlanir, þar á meðal úrræði fyrir atvinnulausa og hvernig eftirliti svæðisvinnumiðlana með því að menn sem gert hafa starfsleitaráætlun fullnægi skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar til að fá greiddar atvinnuleysisbætur.
    Af 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins leiðir að ráðherra skal setja reglugerð að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar.

Um 24. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júlí 1997, þ.e. um leið og lög um atvinnuleysistryggingar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins skal skipa svæðisráð að afloknum reglubundnum sveitarstjórnarkosningum og því er nauðsynlegt að hafa ákvæði til bráðabirgða um skipun svæðisráðs þar til næstu reglulegu sveitarstjórnarkosningar fara fram.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um vinnumarkaðsaðgerðir.


    Frumvarpinu er ælað að leysa af hólmi lög um vinnumiðlun, nr. 18/1985, með síðari breytingum, og IX. kafla laga um stjórn efnahagsmála o.fl., nr. 13/1979. Í frumvarpinu er lagt til að ný stofnun, Vinnumálastofnun, verði sett á laggirnar til þess að annast yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu ásamt því að taka við verkefnum vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Þá er gert ráð fyrir að svæðisráð og svæðisvinnumiðlanir starfi a.m.k. í hverju kjördæmi en til þess að auðvelda íbúum skráningu verði skráningarstaðir fleiri. Í frumvarpinu er lagt til að kostnaður af rekstri Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana greiðist af ríkinu en nú er rekstur vinnumiðlunar fjármagaður af sveitarfélögum.
    Gera má ráð fyrir að kostnaður af Vinnumálastofnun verði nokkuð meiri en kostnaður af vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Felst hækkunin í auknum verkefnum þar sem stofnuninni er ætlað að hafa eftirlit með svæðisvinnumiðlunum, samræma starfsemi þeirra og veita starfsfólki þeirra faglega aðstoð og fræðslu. Samtals má gera ráð fyrir þremur störfum til viðbótar við núverandi störf hjá vinnumálaskrifstofunni og er kostnaður af þeim áætlaður 7–8 m.kr. á ári og stofnkostnaður um 1,5–2 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að stofnuninni verði skipuð sjö manna stjórn. Áætlað er að kostnaður vegna hennar verði 0,5–1 m.kr. á ári.
    Í frumvarpinu er lagt til að ráðgjöf og úrræði svæðisvinnumiðlana fyrir atvinnulausa verði víðtækari en vinnumiðlana nú. Aukningin felst í því að svæðisvinnumiðlunum er ætlað að sjá til þess að atvinnulausir eigi kost á ráðgjöf og úrræðum, svo sem námi eða starfsþjálfun, sem miðast við þarfir og aðstæður hvers og eins og hafa það að markmiði að auka starfsgetu og starfsmöguleika hins atvinnulausa. Einnig er svæðisvinnumiðlunum ætlað að hafa eftirlit með því að umsækjendur um atvinnuleysisbætur fullnægi skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar og tilkynna úthlutunarnefndum ef rökstudd ástæða er til þess að ætla að svo sé ekki. Af þessu má ljóst vera að kostnaður af ráðgjafarstarfsemi svæðisvinnumiðlana verði meiri en af starfsemi vinnumiðlana sveitarfélaga nú en áætlað er að hann verði um 70–80 m.kr. árið 1996. Ef tekið er mið af meðalfjölda einstaklinga í lok mánaðar á árinu 1995 verður kostnaður ríkisins af rekstri svæðisvinnumiðlana um 125–135 m.kr. á ári að hámarki. Er þá reiknað með 60 störfum og að ríkissjóður greiði ekki kostnað vegna aukinna úrræða til handa atvinnulausum að öðru leyti en því að fjármagna umsjón, úttektir og eftirlit með úrræðunum og að greiða atvinnuleysisbætur til þeirra sem taka þátt í þeim. Til viðbótar má reikna með að stofnkostnaður svæðisvinnumiðlana verði um 30–35 m.kr.
    Gera má ráð fyrir að samhliða starfsemi svæðisvinnumiðlana fari tölvutæk atvinnuleysisskráning fram á nær öllum þéttbýlisstöðum landsins og verði send til svæðisvinnumiðlana. Þessu fylgir um 18–20 m.kr. kostnaðarauki fyrir ríkissjóð vegna átta starfa að viðbættum 4–5 m.kr. í stofnkostnað. Í frumvarpinu er kveðið á um að níu manna svæðisráð starfi á hverju svæði sem skal fylgjast með framvindu atvinnumála þar og gera tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir. Kostnaður af svæðisráðunum er áætlaður 6–8 m.kr. á ári.
    Gera má ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs af lögfestingu frumvarpsins verði 190–215 m.kr. fyrsta árið en 160–175 m.kr. á ári eftir það. Gera verður ráð fyrir að semja verði við sveitarfélögin um að taka að sér önnur verkefni í staðinn þannig að kostnaðarauki ríkissjóðs verði minni en ella.