Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 230 . mál.


319. Tillaga til þingsályktunar



um Stofnun jafnréttismála fatlaðra.

Flm.: Ásta B. Þorsteinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,


Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðuneyti að koma á fót Stofnun jafnréttismála fatlaðra sem verði starfrækt á vegum ráðuneytisins.
    Markmiðið með stofnuninni er að tryggja það að fatlaðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að stofnunin geti með aðgerðum sínum dregið úr eða komið í veg fyrir mismunun fatlaðra og ófatlaðra.
    Helstu verkefni Stofnunar jafnréttismála fatlaðra verði:
    að skoða og meta hvaða samfélagslegir þættir skipta máli til að flýta fyrir jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra,
    að safna þekkingu á þjóðfélagsstöðu fatlaðra á hverjum tíma og afleiðingum fötlunar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og þjóðfélagið þannig að á einum stað sé til nauðsynleg þekking og yfirsýn á þessum víðfeðma málaflokki,
    að vera stjórnvöldum og stofnunum ráðgefandi, sem og fyrirtækjum eða einstaklingum sem leita til hennar eftir þekkingu eða ráðgjöf, svo að úrbætur í þágu fatlaðra verði markvissar og byggðar á nauðsynlegri þekkingu,
    að fylgjast með setningu laga og reglugerða, kanna áhrif þeirra á hagi fatlaðra og benda viðkomandi stjórnvöldum á það ef áhrif eða afleiðingar lagasetninga leiða til mismununar eða skerðingar á lífskjörum fatlaðra,
    að fylgjast með þróun mála, lagasetningu eða öðru sem snertir málaflokkinn annars staðar á Norðurlöndum, innan Evrópusambandsins sem og á alþjóðavettvangi og beita sér fyrir umræðu um þróun eða nýjungar og koma ábendingum þar að lútandi til stjórnvalda og hagsmunasamtaka fatlaðra,
    að leita umsagnar heildarhagsmunasamtaka fatlaðra um mál sem fjallað er um,
    að gefa Alþingi árlega skýrslu um stöðu fatlaðra í þjóðfélaginu.

Greinargerð.


    Hugmyndafræði og stefna í málefnum fatlaðra hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugunum, hver stefnan hefur leyst aðra af hólmi. Lykilhugtökin á árunum 1970 til 1990 voru blöndun eða samskipan og komu þau í stað stofnanahugmyndafræðinnar. Nær alls staðar í hinum vestræna heimi er unnið að því að loka sólarhringsstofnunum fyrir fatlaða og ný og frjálsari búsetuúrræði hafa komið í þeirra stað. Margar merkar ákvarðanir og lagasetningar hafa vissulega breytt lífsskilyrðum fatlaðra hér á landi og í æ ríkari mæli hefur verið stuðlað að skipan þeirra við hlið ófatlaðra í þjóðfélaginu. Með margvíslegum hætti hefur því verið slegið föstu að málefni fatlaðra eru málefni samfélagsins alls og um úrlausnarefni málaflokksins ber að fjalla á þeim grundvelli.
    Árið 1979 voru fyrstu lögin um aðstoð við þroskahefta sett af Alþingi og markaði sú lagasetning ákveðin þáttaskil. Áður hafði þjónusta verið mjög takmörkuð og grundvölluð á lögum um endurhæfingu og lögum um fávitastofnanir. Lögin um málefni þroskaheftra voru strax endurskoðuð og ný lög, sem náðu til allra hópa fatlaðra, lögin um málefni fatlaðra, tóku gildi 1984. Þau hafa nú tvívegis verið endurskoðuð og eru enn í dag undirstaða lagalegra réttinda fatlaðra til þjónustu. Við síðustu endurskoðunina sem fór fram árið 1992 var þó sú stefna mörkuð að ávallt skyldi leitast við að veita fötluðum þjónustu eftir almennum lögum og á almennum stofnunum samfélagsins áður en gripið væri til sértækrar þjónustu. Þar var enn fremur mörkuð sú stefna að færa ákveðna þætti þjónustunnar til sveitarfélaganna á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og jafnframt stefnt að því að halda áfram á sömu braut við næstu endurskoðun að fjórum árum liðnum.
    Sú endurskoðun hefur nú staðið yfir um nokkurt skeið og frumvarp hefur verið lagt fyrir Alþingi þar sem lagt er til að málaflokkurinn flytjist til sveitarfélaganna árið 1999.
    Réttur fatlaðra til grunnskólamenntunar var lögfestur 1974 og réttur þeirra til framhaldsskólanáms var tryggður með lögum um framhaldsskóla frá 1988. Byggingarreglugerð um opinberar framkvæmdir er einnig skýrt dæmi um vilja stjórnvalda til að greiða aðgang fatlaðra að stofnunum samfélagins.
    Á alþjóðavettvangi hefur Ísland staðfest þennan vilja sinn. Meðal annars með því að samþykkja yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi fatlaðra frá 1975 og taka á nýjan leik undir stefnu Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra með því að undirrita yfirlýsingu þeirra frá 1993, „Grundvallarreglur um jafnrétti og jöfnun tækifæra fatlaðra“.
    Skilningur hefur tvímælalaust aukist mjög meðal almennings og stjórnvalda á lífsskilyrðum fatlaðra og fjölmargar aðgerðir hafa leitt til bættrar stöðu einstaklinga á mörgum sviðum mannlífsins. Þrátt fyrir það er ljóst að enn er langt í að hinum fjölmörgu hindrunum hafi verið rutt úr vegi og að samfélagið geti talist vera fyrir alla.
    Sú skoðun hefur rutt sér til rúms hér á landi og í næstu nágrannalöndum okkar að rétt sé að þjónusta við fatlaða sé veitt á sama stjórnsýslustigi og félagsleg þjónusta fyrir aðra, þ.e. á sveitarstjórnarstigi. Með tilfærslu á rekstri grunnskólans til sveitarfélaganna hefur þjónusta skólanna og ábyrgð gagnvart fötluðum börnum færst til sveitarfélaganna og því er hægt að færa rök fyrir því að önnur þjónusta við þennan hóp getur að sama skapi verið jafn vel komin hjá sveitarfélögunum. Það verður því rökrétt framhald á þeirri þróun að fella ákvæði sérlaga inn í lög um félagsþjónustu sveitarfélaganna og fella úr gildi sérlög um málefni fatlaðra.
    Sjálfsagt er að horfa til næstu nágrannalanda. Meta hver reynsla þeirra hefur verið við svipaðar kringumstæður og draga lærdóm af þeirri reynslu. Það er mat Dana að þegar þjónusta við viðkvæma hópa, eins og fatlaða, var flutt frá ríki til sveitarfélaga hafi að nokkru leyti glatast yfirsýn á afleiðingar og samspil ýmissa aðgerða stjórnvalda og að mismununar í þjónustu milli einstakra sveitarfélaga eða á milli hópa fatlaðra hafi orðið vart. Þess vegna hafa Danir sett á fót stofnun jafnréttismála fatlaðra með það að markmiði að gæta að réttindum og réttaröryggi fatlaðra.
    Mismunandi leiðir hafa verið farnar til að tryggja réttindi fatlaðra. Lög sem banna alla mismunun gegn fötluðum voru sett í Bandaríkjunum árið 1990 og gera ráð fyrir að þeir sæti viðurlögum sem brjóta þau. Í Svíþjóð hefur verið stofnað sérstakt embætti umboðsmanns fatlaðra, svo fátt eitt sé nefnt.
    Samkvæmt þessari þingsályktunartillögu er gert ráð fyrir að sett verði á fót Stofnun jafnréttismála fatlaðra í því skyni að treysta enn betur réttindagæslu og réttaröryggi fatlaðra og til að tryggja það að á einum stað verði til nauðsynleg yfirsýn yfir málaflokkinn.
    Grundvallarhugmyndafræði að baki Stofnun jafnréttismála fatlaðra er að öðlast þekkingu og stuðla að breytingum sem mega verða til þess að auka jöfnuð og jafna lífsskilyrði fatlaðra og ófatlaðra. Með tillögu að slíkri stofnun er gengið út frá því að enn njóta fatlaðir ekki jafnréttis á öllum sviðum, en einnig því að mismununin á sér ekki alltaf stað af ásetningi eða með skipulögðum hætti, miklu fremur sem afleiðing pólitískrar og fjárhagslegrar forgangsröðunar og skorti á yfirsýn eða þekkingu.
    Mikilvægt er að stjórnvöld marki skýra stefnu um hvernig jafnrétti fatlaðra á að nást. En stefnumótun nær því aðeins tilætluðum markmiðum að hún sé sett fram á grundvelli skýrrar og vel skilgreindrar greiningar á stöðu málaflokksins. Ef ekki er þannig að verki staðið að stefnumörkun endurspegli veruleikann sem henni er ætlað að ná til er hún gagnslaus.
    Gert er ráð fyrir því að stofnun jafnréttismála fatlaðra leiti eftir samráði við heildarhagsmunasamtök fatlaðra og umsagnar þeirra um mál sem stofnunin fjallar um. Er hér átt við Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands eða einstök aðildarfélög þeirra.
    Innan Stofnunar jafnréttismála fatlaðra getur skapast þekking og yfirsýn sem þörf er á til að treysta enn frekar þróun í þá átt að fatlaðir megi á jafnréttisgrundvelli njóta sömu tækifæra í samfélaginu og aðrir. Stofnun jafnréttismála fatlaðra á einnig samkvæmt þessari tillögu að senda ár hvert skýrslu um lífskjör fatlaðra til Alþingis.