Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 16:59:00 (3284)

1998-02-02 16:59:00# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:59]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram um að mikilvægt sé að þetta mál skuli rætt á Alþingi því það snertir marga mjög alvarlega þætti í starfsemi löggæslunnar í landinu.

Ég ætla í seinni ræðu minni að koma að örfáum atriðum sem fram hafa komið í umræðunni og fyrirspurnum. Fyrst vil ég víkja að þeim athugasemdum sem hér hafa verið gerðar varðandi reynslulausnina sem rætt hefur verið um. Ég ítreka að hvorki ráðherra né ráðuneyti tóku efnislega afstöðu til þessa máls. Á þeim tíma giltu nokkuð aðrar málsmeðferðarreglur en eru í dag. Þá var starfandi sérstök fullnustumatsnefnd og hún setti fram álit gagnvart Fangelsismálastofnun áður en slíkar ákvarðanir voru teknar. Um málskot voru engar sérstakar reglur í þágildandi reglum en auðvitað gilti hin almenna óskráða málskotsregla stjórnsýsluréttarins. Með breytingum sem við gerðum snemma árs 1993 voru þessar viðmiðunarreglur hertar. Sú efnislega breyting var gerð þar á að Fangelsismálastofnun tók eftir það ákvarðanir án þess að hafa áður fengið álit nefndar. Náðunarnefnd, sem svo hefur verið kölluð, starfaði í þeim tilgangi að gefa ráðuneytinu álit varðandi reynslulausn sem skotið var með stjórnvaldskæru eftir að það ákvæði var sett inn í reglugerðina um meðferð þessara mála og eins varðandi náðanir.

[17:00]

Ég hef í sjálfu sér ekki lagt neinn dóm á það hvort fordæmi séu fyrir því að menn með jafnlangan brotaferil og umræddur maður hafi fengið reynslulausn. Það eina sem ég var að vekja athygli á að á tveimur árum, 1990--1991 fengu 25 aðilar reynslulausn að afplánaðri hálfri refsingu, 17 höfðu framið brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni og fjórir þeirra höfðu fengið tveggja ára dóm eða lengri. Það voru aðeins þessar staðreyndir sem ég var að varpa fram en ekki neitt mat á því hvort þetta væri fordæmislaust varðandi lengd afbrotaferils. Ég vil að það komi skýrt fram. En ég vil ítreka að á þessum tíma var annar háttur hafður á varðandi þessi mál og með reglugerðinni frá 1993 er skýrt kveðið á um málskot til ráðuneytisins.

Þá ætla ég að víkja að athugasemdum um þá gagnrýni sem hefur komið fram af hálfu setts rannsóknarlögreglustjóra, Atla Gíslasonar, á skipulag lögreglunnar. Hv. 6. þm. Suðurl. óskaði eftir að skýr svör um álit mitt á þeim og viðbrögð. Þetta hvort tveggja kemur raunverulega fram í skýrslunni. Ég hef tekið undir gagnrýni setts rannsóknarlögreglustjóra á skipulag lögreglunnar á þessum tíma. Ég tel að sú gagnrýni sé réttmæt og það kemur fram í skýrslunni. Ég hafði áður en þetta mál kom upp vakið athygli yfirstjórnar lögreglunnar á því að yfirmenn lögreglunnar hefðu ekki þau afskipti af stjórnun þessarar deildar sem þeir ættu að gera og þetta var eitt af þeim atriðum sem réðu því að ég taldi nauðsynlegt að fara í mjög umfangsmiklar skipulagsbreytingar á löggæslunni í landinu. Þess vegna tel ég að með þeim breytingum hafi verið bætt úr þeim skipulagsannmörkum sem rannsóknarlögreglustjórinn bendir að mínu mati réttilega á. En ég verð auðvitað að taka það fram, sem er í skýrslunni, að lögreglustjórinn í Reykjavík og einn yfirlögregluþjónn við embættið í Reykjavík hafa ekki verið sammála settum rannsóknarlögreglustjóra eða mér um þessi efni og er rétt að halda því hér til haga að þeir hafa ekki fallist á þessa gagnrýni. En ég er henni sammála og taldi þess vegna nauðsynlegt að gera hér á breytingar. Í bréfi frá settum rannsóknarlögreglustjóra, Atla Gíslasyni, sem ráðuneytinu barst núna í janúar kemur fram að hann telur að þessi þáttur sé fortíðarvandi, að búið sé af hálfu ráðuneytisins að bregðast við honum.

Þá hafa menn vikið að þeim tveimur málum þar sem málsgögn hafa horfið varðandi rannsóknir á málum Franklíns Steiners. Ég verð að taka undir það sem hér hefur komið fram að það er gjörsamlega óafsakanlegt að slíkt skuli gerast og geta ekki verið nein rök eða neinar afsakanir fyrir því af hálfu lögreglunnar. Ég tel hins vegar mjög eðlilegt að lögreglustjórinn geri athugun á sínu embætti þegar slíkt mál kemur upp. Rannsókn setts rannsóknarlögreglustjóra leiddi ekki í ljós hvað varð um þessi mál. Það var auðvitað hluti af hans rannsókn. En hún leiddi ekki fram hver gat borið á því ábyrgð eða hvað varð um skjölin. Þess vegna var eðlilegt að lögreglustjórinn reyndi að kalla fram skýringar á þessu. Því miður hefur það ekki borið árangur enn. En ég tek undir það að þetta er algjörlega ólíðandi og ekki síst þegar í hlut á brotamaður sem hefur jafnlangan brotaferil að baki. Það liggur alveg í augum uppi.

Varðandi sjónarmið um reglur að því er varðar óhefðbundnar rannsóknaraðferðir þá, eins og hér hefur komið fram, hafði lögreglan aldrei hafið máls á því gagnvart ráðuneytinu að hér skorti á reglur. En það hefur verið vitnað í blaðaviðtöl við lögreglufulltrúa sem stýrði ávana- og fíkniefnadeildinni og þetta sýnir e.t.v. þann skipulagsvanda sem var á ferðum í lögreglunni á þessum tíma, að lögreglufulltrúi skuli vera að tala um slíkt í blöðum meðan lögreglan kemur engum slíkum ábendingum til ráðuneytisins. Fyrstu formlegu ábendingar um þetta komu fram í starfshópi um ávana- og fíkniefnamál sem ég skipaði á sínum tíma. Ég fór fram á það við ríkislögreglustjóra á sl. ári að hann setti slíkar reglur. Undir lok liðins árs setti hann fram þá skoðun að betra væri að fá breiðari aðild að tillögugerð í þeim efnum og sérstaklega óskaði hann eftir því að embætti ríkissaksóknara kæmi að þeirri reglusmíð og lagði til að sérstök nefnd yrði skipuð þar sem aðild ríkissaksóknaraembættisins kæmi að og ég taldi það vera eðlilegt og þess vegna hefur nefndin verið skipuð á þeim grunni.

Hv. 13. þm. Reykv. spurði hver afstaða mín væri til þess að sett yrðu í lög ákvæði sem heimiluðu birtingu rannsóknargagna eða hvort ég væri reiðubúinn til þess að beita mér fyrir því sjálfur. Í þessu sambandi verð ég að ítreka það sjónarmið mitt sem ég held að lúti að grundvallaratriðum um réttaröryggi, að embætti ríkissaksóknara sé sjálfstætt og óháð pólitískum afskiptum, hvort heldur það eru afskipti ráðherra eða Alþingis. Ég vil minna á að í þessu máli höfðu ekki færri en 40 lögreglumenn og yfirmenn lögreglunnar stöðu grunaðra manna. Og lögum samkvæmt er það ríkissaksóknari sem verður að taka ákvörðun um það hvað birt er af rannsóknargöngum. Hann hefur gert það í mjög ítarlegri skýrslu að birta það sem hann telur vera meginatriði málsins og upplýst bæði alþjóð og Alþingi þar um. En sjálf skýrsla rannsóknarlögreglustjórans hefur ekki verið birt og það hefur verið hans mat að svo eigi ekki að vera með tilliti til þeirra rannsóknarhagsmuna sem eru í málinu.

Hv. 5. þm. Reykn. spurði hvort allshn. gæti fengið slíka skýrslu í trúnaði. Ég get ekki tekið slíka ákvörðun frekar en að birta skýrsluna öllum almenningi. Ef ríkissaksóknarinn tæki ákvörðun um að birta skýrsluna þá er það hans ákvörðun sem ráðuneytið mundi engin afskipti hafa af, hvort heldur það væri að birta allshn. hana í trúnaði eða birta hana almenningi. Aðalatriðið er að forræði málsins er ríkissaksóknara og sjálfstæði hans gagnvart framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu að þessu leyti samkvæmt lögum sem um embættið gilda, er alveg ótvírætt. Þarna er um mat að ræða. Einhverjir kunna að hafa þá skoðun að ríkissaksóknari eigi að birta rannsóknarskýrsluna og aðrir kunna að hafa þá skoðun að hann eigi ekki að gera það. Ég tel það ekki vera í samræmi við stöðu ráðherra gagnvart þessum sjálfstæða embættismanni að ráðherrann sé að lýsa yfir því hvað ríkissaksóknari eigi að gera í þessu efni vegna þess að það hlyti líka að hafa fordæmisgildi um rannsókn annarra mála.

Ég held þá, herra forseti, að ég hafi vikið að flestum þeim athugasemdum sem komið hafa fram í þessari umræðu og vonandi svarað flestum spurningum sem fram hafa komið og vil aðeins að lokum ítreka þakklæti mitt til þeirra hv. þm. sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég ítreka það af minni hálfu að mjög mikilvægt er að ræða málefni sem þetta og ef minnstu grunsemdir eru um að ekki sé trúnaður milli almennings eða löggjafarvaldsins og lögreglunnar í landinu þá ber okkur skylda til að freista þess að taka á því. Við höfum reynt að gera það af fremsta megni og ég tel að komið hafi verið í veg fyrir skipulagslegar brotalamir sem þetta mál leiddi í ljós og vona að þessi saga endurtaki sig ekki. En í þessu máli eru vissulega atriði sem eru algjörlega óásættanleg og var þess vegna full ástæða til þess að rannsaka og kanna til hlítar.