Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:19:49 (3289)

1998-02-02 17:19:49# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:19]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir tvennt með ráðherranum: Mér finnst mikilvægt að þetta mál var rætt á Alþingi þó mér finnist umræðan ekki hafa varpað nægu ljósi á þetta undarlega mál. Ég ætla líka að taka undir það að ég vona að sú umfangsmikla breyting sem var gerð á skipan lögreglumála verði til þess að stjórnun og ábyrgð verði betri í framtíðinni en áður.

Hins vegar hef ég það á tilfinningunni að það sé í mjög mörgum tilfellum sem við höfum sótt fyrirmyndir til Norðurlandanna við lagasetningu og ýmislegt í uppbyggingu lýðræðisríkis okkar. Ég hef á tilfinningunni að það höfum við líka gert varðandi réttarfar. Því spyr ég ráðherra tveggja spurninga: Þekkir hann til þess hvort ríkissaksóknari í hverju Norðurlandanna sé jafnóháður framkvæmdarvaldinu og hann er hjá okkur? Þekkir hann til þess hvort þingnefndum á þjóðþingum Norðurlandanna séu birt gögn í trúnaði eða skýrslur þó að þær hafi ekki verið birtar opinberlega?

Síðan tek ég undir það að mér finnst skýrslan hafa fyrst og fremst upplýsingagildi þar sem rannsókn er lokið og því tel ég það rétt viðbrögð hjá hv. 13. þm. Reykv. að óska eftir því á fundi í allshn. að ríkissaksóknari kynni allshn. skýrsluna til að þinginu finnist það hafa fengið upplýsingar, geti lagt mat á að það sé sammála niðurstöðu dómsmrh. og geti tjáð okkur þingmönnum að þeir hafi nú skoðað málið og séu sammála dómsmrh. og við verðum öll sátt.