Hollustuhættir

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 16:39:58 (4288)

1998-03-03 16:39:58# 122. lþ. 77.1 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[16:39]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í máli mínu kom fram að ekki hefðu orðið þær breytingar varðandi dagsetningar og efnisatriði um málsaðstæður. Við vissum það í haust og á síðasta ári þegar frv. var lagt fram að þessi frestur er veittur vegna væntanlegra sveitarstjórnarkosninga. Það liggur fyrir og er óbreytt í málinu. Nýjar sveitarstjórnir koma því til með að hafa sama frest og fyrirvara á því að annast kosninguna og það sem að þeim lýtur.

Varðandi það hverjir verði móttakendur bréfa um tilnefningu vinnuveitenda í nefndirnar, þá var það rætt við fulltrúa vinnuveitenda við undirbúning frv. Þar sem slík samtök eru ekki fyrir hendi mun það verða sent heildarsamtökum vinnuveitenda og þeir beðnir um að hlutast til um að vinnuveitendur tilnefni fulltrúa sína í nefndirnar.

Þegar náttúruverndarnefndir hafa verið kosnar að loknum sveitarstjórnarkosningum verður það jafnframt að vera sameiginleg tilnefning eins og frv. og lögin gera ráð fyrir þegar þau taka gildi.