Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 17:35:22 (4295)

1998-03-03 17:35:22# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., SF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[17:35]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég tel að við séum að fjalla um mjög gott frv. í dag. Samkvæmt frv. á að vera mun auðveldara að beita gjaldtöku til neyslustýringar. Möguleiki verður á að hækka sterku vínin sem er að mörgu leyti óæskilegt að menn neyti í óhófi en léttu vínin eiga að lækka í verði og ég tel mjög æskilegt að stýra neyslunni þannig. Almenn skynsemi segir manni það.

Maður hefur líka séð hvaða áhrif verðstýring hefur haft á tóbaksneyslu. Þar hefur tekist mjög vel til að mínu mati. Allar kannanir sýna að þegar tóbak er hækkað í verði minnkar neysla þess.

Mig langar hins vegar að nota tækifærið til að spyrja hæstv. fjmrh. af hverju ekki var stigið lengra skref, þ.e. af hverju verð á bjór var ekki líka lækkað. Við höfum oft heyrt að bjór á Íslandi sé frekar dýr miðað við það sem er í nágrannalöndum okkar. Hjá ferðamannaþjónustunni hefur verið kvartað talsvert undan bjórverði og er talið að það skaði ímynd landsins út á við gagnvart ferðamönnum. Ég veit svo sem ekki hve mikið er til í því en eitthvað væntanlega og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki verið skoðað. Mér fannst eins og hæstv. ráðherra gæfi í skyn að þetta væri einungis fyrsta skrefið núna og það gæti þá hugsanlega komið til greina að lækka bjórinn í framhaldinu og ég hefði áhuga á að fá að vita aðeins meira hvað hæstv. ráðherra átti við með því. Ég held að það væri mjög æskilegt að bjórinn lækkaði.

Hæstv. ráðherra lagði mikla áherslu á eftirlit í framsögu sinni. Af því tilefni bendi ég á að um 15 millj. eiga að renna í áfengiseftirlit því að 0,3% af áfengisgjaldinu fer í áfengis- og tóbakseftirlit. Af því tilefni langar mig að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra að því hvort honum sé kunnugt um að áfengi sé selt frá heildsölum beint til neytenda, þ.e. yfir borðið hjá heildsölunum en ekki í gegnum ÁTVR-búðirnar eins og á að gera. Því hefur verið haldið fram af einstaka aðilum að þetta viðgangist. Það er ótrúlegt en mig langar að heyra hvort hæstv. ráðherra þekkir til slíkra dæma.

Í svari sem hæstv. fjmrh. lagði fram í þinginu við fyrirspurn hv. þm. Ögmundar Jónassonar um eftirlit með áfengissölu kemur fram að fjmrn. hafi falið embætti ríkisskattstjóra með bréfi 15. apríl 1997 á síðasta ári að annast úttekt á því hvort starfsemi aðila, sem höfðu fengið leyfi til innflutnings og dreifingar á áfengi, væri í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 585/1995, um framleiðslu, heildsölu og innflutning áfengis í atvinnuskyni. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort þessu bréfi til ríkisskattstjóra hafi verið fylgt eitthvað eftir, hvort eitthvað hafi komið út úr bréfaskriftunum, hvort gerð hafi verið einhvers konar rassía til að athuga hvort heildsalar séu að selja beint yfir borðið til neytenda eins og einhverjir hafa haldið fram.

Vegna þeirra orða sem féllu í lok ræðu hæstv. fjmrh. um að það væri skoðun hans að það ætti að einkavæða Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, þ.e. að taka tóbak og áfengi út úr ÁTVR og leggja áfengissöluna niður, vil ég freista þess að skýra aðeins frá sjónarmiðum Framsfl. í því sambandi. Varðandi tóbakið sem við skoðuðum mest fyrir stuttu var samþykkt á síðasta flokksþingi að stefna bæri að því að heildsala á tóbaki ætti áfram að vera í höndum ÁTVR. Sú samþykkt kom að einhverju leyti í kjölfarið á umræðum sem voru þá í þjóðfélaginu sem sköpuðust vegna reglna hæstv. fjmrh. sem voru settar um aðgengi nýrra tóbakstegunda á markaðinn en þær reglur voru að margra mati mun rýmri en æskilegt var vegna þess að nýjar tegundir kalla á nýja neytendur. Rannsóknir sýna að þegar nýjar tóbakstegundir koma á markaðinn byrjar ungt fólk að reykja þær og einungis 2% af tóbaksneytendum skipta um tegund. Nýjar tegundir útheimta nýja neytendur og þess vegna var mjög æskilegt að þær reglur, sem settar voru um aðgengi nýrra tegunda, væru mjög strangar. Reyndar skildist manni þegar reglurnar voru settar að stjórn ÁTVR vildi hafa þær þrengri en niðurstaðan varð á endanum. Þetta skapaði ákveðna óánægju, sérstaklega hjá þeim sem hafa forvarnir í fyrirrúmi, og var aðdragandi að því að Framsfl. ályktaði um að stefna bæri að því að heildsala tóbaks yrði áfram í höndunum ÁTVR.

Ef við skoðum fordæmi sjáum við að þegar heildsala áfengis fluttist frá ÁTVR virðist vera að einhvers konar hvati hafi orðið hjá heildsölum til að selja áfengi. Það varð meiri hvati. Ég varð vitni að því á veitingastað sem ég fór á að ung kona gekk um sali með áfengi í tanki á bakinu og hellti í glös hjá fólki sem þar var. Nafnið á ákveðinni áfengistegund stóð flennistórum stöfum á tunnunni sem unga konan dældi úr. Þarna var að sjálfsögðu um óbeina auglýsingu að ræða þannig að það er ákveðin hætta þegar heildsalan flyst frá ÁTVR að það verði hvati til þess að selja meira. Þetta óttast maður að vissu leyti að ef tóbakið fer frá ÁTVR verði það meiri hvati til þess að selja tóbakstegundirnar.

Mig langar til að nota tækifærið í þessu sambandi og spyrja hæstv. fjmrh. hvort komi til greina að hækka tóbakið enn frekar. Ákveðið átak hefur verið gert í því. Sem betur fer hefur tóbakið verið hækkað en margir hefðu viljað meiri hækkanir og að sjálfsögðu til þess að fá frekara fjármagn til forvarna og að reyna að stýra neyslunni og minnka reykingar. Það virðist vera eins og að margir séu að hætta reykingum í dag, maður finnur ákveðinn straum í samfélaginu. Mikið er selt af alls konar tyggjói með nikótíni og öðrum hjálpartækjum til að hætta að reykja. Maður sér líka að tóbaksvarnanefndin er að vinna mjög gott starf undir formennsku Þorsteins Njálssonar heimilislæknis og Þorgrímur Þráinsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdarstjóri þar og það er verið að vinna mjög gott starfi í þessu ráði. Það er eins og það sé að byrja smávakning þannig að maður spyr sig: Er möguleiki á að hækka tóbakið meira til að stuðla enn frekar að því að fólk hætti að reykja?

Í Noregi kostar sígarettupakkinn mun meira en á Íslandi þrátt fyrir hækkanirnar. Ég tel að við þyrftum að athuga hvort við ættum ekki að hækka tóbakið enn frekar og ég spyr hæstv. fjmrh. hvort það komi til greina síðar á árinu, á miðju ári eða eitthvað slíkt.

[17:45]

Hæstv. fjmrh. gerði að umtalsefni hugmyndir sínar um einkavæðingu ÁTVR og tók það sérstaklega fram að samstarfsflokkurinn væri ekki á sömu skoðun. Hann sagði að vagninn færi ekkert hraðar en sá sem hægast vildi fara. Það er svo sannarlega rétt. Ákvarðanir okkar um ÁTVR og þessi áfengismál eru auðvitað hápólitískar. Ég vil að vissu leyti taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, varðandi stjórn ÁTVR. Það hefur verið ankannalegt að fylgjast með því starfi sem sem átti að vera rekstrarstjórn en þar hefur verið lögð fram ákveðin stefna sem er hápólitísk. Það er hápólitískt að ákveða hvernig þessum málum verði fyrir komið.

Ég minni á að Framsfl. fer með heilbrrn. Hæstv. heilbrrh. er samkvæmt lögum yfirmaður forvarna á Íslandi. Það er því ekki skrýtið þótt Framsfl. sé sérstaklega umhugað að gæta að forvörnum hér í landinu.

Að lokum langar mig að minna stjórnarandstöðuna, sem notar nú hvert tækifæri til þess að fara með þær rangfærslur að Framsfl. hafi engin áhrif í þessari ríkisstjórn og Sjálfstfl. ráði öllu. Það er alrangt. Eins og menn sjá hér þá hefur fullt tillit verið tekið til skoðana Framsfl. varðandi fyrirkomulag áfengis- og tóbaksmála í landinu.