Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:30:30 (4301)

1998-03-03 18:30:30# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:30]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er rangt hjá hæstv. fjmrh. að mér finnist það vera eitthvað í ætt við Ragnar Reykás þótt hann vilji annars vegar auka framboð á áfengi með því að einkavæða ÁTVR og hins vegar reyna að koma í veg fyrir að útsölur séu opnaðar á landsbyggðinni. Ráðherrann er enginn Reykás í þessu efni, hann er sjálfum sér samkvæmur, gengur erinda Verslunarráðsins. Við þingmennirnir, hv. þm. Steingrímur Sigfússon og ég, viljum hins vegar að landsmenn sitji allir við sama borð í þessum efnum.

Í öðru lagi bendi ég á að það er rangt sem hæstv. fjmrh. gaf í skyn að það hefði verið EES eða einhverjar Evrópureglur sem hefðu kallað á lagabreytingar 1995 varðandi dreifingu á áfenginu. Það er rangt, þetta er ekki rétt staðhæfing. Í þriðja lagi sagði hæstv. fjmrh. að ekkert bannaði stjórn ÁTVR að hafa stefnu. Það er undir því komið hver sú stefna er og hvort sú stefna er í samræmi við landslög eða ekki. Ef stefnan stríðir gegn landslögum er sú stefna ólögleg jafnvel þótt hún sé framlenging á hæstv. fjmrh., eins og hann leyfir sér að setja málið fram, á nokkuð hrokafullan hátt að því er mér fannst.

Að lokum fannst mér ekki koma nægilega fram í ræðu hæstv. fjmrh. hvort það væri rétt sem kæmi fram í opinberum gögnum að megintilgangur endurskoðunarnefndarinnar, sem er að skoða reglugerðir ÁTVR, sé að losa um þau verkefni sem ÁTVR hefur nú með höndum í samræmi við 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.