Stimpilgjald

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:39:45 (4305)

1998-03-03 18:39:45# 122. lþ. 77.5 fundur 481. mál: #A stimpilgjald# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:39]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stimpilgjald sem er á þskj. 816 og er 481. mál þingsins. Í frv. þessu er gert ráð fyrir umtalsverðum breytingum á álagningu stimpilgjalds frá því sem nú er. Breytingarnar fela í sér verulega lækkun á gjaldhlutfalli stimpilgjalds gagnvart almennum verðbréfum. Jafnframt er gert ráð fyrir fækkun undanþágna og meiri samræmingu en verið hefur milli einstakra gjaldflokka. Í þessu felst að nokkrir flokkar verðbréfa og fjármagnsviðskipta sem áður voru undanþegnir gjaldinu verða nú gjaldskyldir en gjald á öðrum flokkum lækkar. Þá er tekið upp lægra gjald á skammtímabréfum.

Samkvæmt gildandi lögum er algengasta gjaldhlutfall stimpilgjalds 1,5% af fjárhæð viðkomandi bréfs eða samnings, óháð lánstíma. Samkvæmt tillögum frv. lækkar þetta hlutfall í 0,2% á bréfum sem eru til skemmri tíma en eins árs en verður 1,1% af lengri bréfum. Þetta tekur m.a. til almennra skuldabréfa. Á móti vegur að álagning stimpilgjalds á ýmis ríkisskuldabréf og ríkisvíxla sem eru undanþegin gjaldskyldu samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt hækkar gjald af fasteignaviðskiptum úr 0,4% í 0,5%. Gjald af hlutabréfum helst hins vegar óbreytt í 0,5% en það gjald var lækkað fyrir nokkrum árum úr 2%. Áfram verða þó nokkrir mikilvægir flokkar skuldabréfa undanþegnir stimpilgjaldi, svo sem húsbréf, námslán, hlutdeildarskírteini, líftryggingasamningar og lán til félagslegra íbúða.

Með þessum breytingum er stefnt að því að laga að nokkru samkeppnisstöðu íslenska fjármagnsmarkaðarins gagnvart erlendum aðilum. Jafnframt er búist við að heildarveltan á markaðnum muni aukast og vaxta- og verðmyndun færast enn frekar út á markaðinn.

Á undanförnum árum hafa tekjur af stimpilgjaldi numið 2,2--2,3 milljörðum kr. eða sem samsvarar rúmlega 2% af skatttekjum ríkissjóðs. Á síðasta ári voru tekjurnar um það bil 2,6 milljarðar kr. og á þessu ári er gert ráð fyrir að þær verði um 2,8 milljarðar kr. Eins og fram kemur í töflunni á bls. 16 í þskj. er talið að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi lækki nokkuð við þessar breytingar eða um rúmlega 130 millj. kr. Einnig verður nokkur tilfærsla milli einstakra flokka. Nokkur óvissa er um áhrif þess að leggja lægra gjald á skammtímabréf en bréf til lengri tíma. Hér er þó ekki gert ráð fyrir að hún leiði til umtalsverðrar fjölgunar skammtímabréfa á kostnað bréfa til lengri tíma. Einnig er óvíst um áhrif álagningar stimpilgjalds á ríkisbréf (sem eru undanþegin samkvæmt gildandi lögum) á ávöxtunarkröfu og þar með á gjaldahlið ríkissjóðs. Þó má ætla að vaxtakostnaður muni eitthvað aukast.

Sem dæmi um áhrif einstakra breytinga má nefna að stimpilgjald af 1 millj. kr. almennu skuldabréfaláni til lengri tíma en eins árs lækkar úr 15.000 kr. í 11.000 kr., eða um 27%. Á hinn bóginn hækkar stimpilgjald af fasteignaviðskiptum úr 0,4% í 0,5%, eða sem nemur 1.000 kr. fyrir hverja 1 millj. kr. í íbúðakaupum. Samanlögð áhrif lægra stimpilgjalds af skuldabréfaláni og hækkun í fasteignaviðskiptum eru því ótvírætt til lækkunar. Enn fremur lækkar stimpilgjald af víxlum til skemmri tíma en eins árs úr 0,25% í 0,2% af fjárhæð víxils.

Þannig þarf að hafa í huga að í fasteignaviðskiptum þurfa kaupendur að grípa til almennra lána sem munu bera lægra gjald en nú.

Samkvæmt gildandi lögum er stimpilgjald af skuldabréfum og tryggingarbréfum 1,5% þegar skuldin ber vexti eða er tryggð með veði eða ábyrgð en 0,5% ef annað eða hvorugt þessara skilyrða er uppfyllt. Þá er stimpilgjald af skuldabréfum og tryggingarbréfum vegna afurðarlána með veði í framleiðsluvörum sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar ávallt 0,3% og skiptir þá ekki máli hvort bréfin bera vexti eða ekki. Af víxlum er stimpilgjaldið hins vegar 0,25% og er ástæða þess væntanlega sú að víxlar eru í eðli sínu skammtímaskuldbindingar. Gagnrýnt hefur verið að gjaldtaka af skuldabréfum og tryggingarbréfum sé mismunandi eftir því hvort skuld ber vexti eða ekki. Enn fremur er oft vandkvæðum bundið að skera úr um það hvort tryggingarbréf beri vexti og þar af leiðandi í hvorn gjaldflokkinn það fellur. Loks hefur verið á það bent að stimpilgjöld vegi mjög þungt í skammtímaviðskiptum á meðan áhrif þeirra eru óveruleg þegar um skuldbindingar til langs tíma er að ræða.

[18:45]

Í III. kafla frumvarpsins er lagt til að stimpilgjald af almennum skuldabréfum og víxlum verði miðað við lánstímann þannig að gjaldið verði 0,2% ef lánstíminn er styttri en eitt ár, en ella 1,1% af fjárhæð skjalanna. Enn fremur er lagt til að stimpilgjald af kaupsamningum um lausafé sem kveða á um gjaldfresti að hluta eða öllu leyti og fjármögnunar- og kaupleigusamningum verði ákvarðað með sama hætti. Með slíkri reglu er dregið úr þýðingu lánsformsins eða skilmála um tryggingar og vexti fyrir gjaldtökuna. Þá er lagt til að tekið verði sérstakt lægra stimpilgjald af markaðsverðbréfum, þ.e. 0,15% þegar lánstíminn er styttri en eitt ár, en ella 0,5%. Lækkun gjaldsins ætti að bæta samkeppnisstöðu innlendrar markaðsútgáfu gagnvart erlendri og ýta undir að bréf séu sett á markað. Til að gæta samræmis er lagt til að markaðsbréf útgefin af ríkissjóði verði stimpilskyld, en þau eru nú stimpilfrjáls samkvæmt almennum reglum.

Á undanförnum árum hefur fjölgað þeim leiðum sem menn hafa til þess að fjármagna tiltekin viðskipti. Lagt er til að tekið verði stimpilgjald af kaupsamningum um lausafé þegar veittur er gjaldfrestur og af eignarleigusamningum eftir sömu reglum og gilda munu um skuldabréf. Þessar tegundir samninga, sem eru í eðli sínu lánsskjöl, þekktust lítt eða ekkert þegar núgildandi lög um stimpilgjald tóku gildi. Er lagt til að þessir samningar verði gerðir stimpilskyldir til þess að stuðla að jafnræði milli þeirra og skuldabréfa og víxla og til þess að tryggja að stimpilgjaldið hafi ekki óeðlileg áhrif á það hvaða greiðsluform er valið.

Lagt er til að hin almenna heimild fjármálaráðherra til að ákvarða hvort ríkissjóður greiði stimpilgjald, sem er í 35. gr. núgildandi laga, falli brott en í stað þess verði undanþágur tilgreindar í lögum þegar það þykir eiga við. Þannig er gert ráð fyrir að ríkið greiði framvegis stimpilgjald vegna t.d. kaupa á fasteignum á sama hátt og það greiðir virðisaukaskatt í viðskiptum eins og aðrir. Samhliða er lagt til að ýmis sérlagaákvæði sem undanþiggja tiltekna starfsemi stimpilgjaldi verði felld brott. Hér er fyrst og fremst um orku- og veitufyrirtæki að ræða en eðlilegt er að þessar stofnanir og fyrirtæki greiði stimpilgjald á sama hátt og ríkið mun gera verði tillögur frumvarpsins að lögum.

Enn fremur er lagt til að ýmis lagaákvæði sem nú eru í sérlögum og kveða á um undanþágur verði framvegis í lögum um stimpilgjald. Núverandi fyrirkomulag hefur valdið erfiðleikum í framkvæmd og torveldað yfirsýn yfir það hvaða skjöl eru stimpilskyld og hver ekki. Eru þetta ákvæði sem nokkuð oft reynir á í framkvæmd hjá sýslumönnum, bönkum og öðrum innheimtumönnum stimpilgjalds. Hins vegar er gert ráð fyrir að ýmis ákvæði sem gilda á tiltölulega afmörkuðum sviðum og eru oft tímabundin í eðli sínu, verði áfram í sérlögum.

Þá er lagt til að undanþága vegna veðskulda sem þinglýst er á flugvélar og hefur á undanförnum árum verið í fjárlögum verði tekin upp í lög um stimpilgjald. Jafnframt er gert ráð fyrir að afsöl og lánsskjöl vegna skipa sem skráð kunna að verða í íslenska, alþjóðlega skipaskrá verði stimpilfrjáls en rætt hefur verið um að stofna slíka skrá hér á landi og ég á satt að segja von á að af slíku verði síðar á þessu ári.

Eftir að frumvarpið var lagt fram hefur frumvarp hæstv. félmrh. um breytingar á húsnæðiskerfinu séð dagsins ljós og kallar það á þær breytingar á þessu frumvarpi að viðbótarlánin og afsöl vegna íbúða sem falla undir hið nýja kerfi verði undanþegin stimpilgjaldi og ég bið hv. efh.- og viðskn. þingsins að kanna það mál sérstaklega.

Samkvæmt gildandi reglum er stimpilgjaldið ýmist miðað við iðgjöld eða vátryggingarfjárhæð. Þar sem gjaldið miðast við iðgjöld er það í öllum tilvikum nema einu 8% af iðgjaldi. Þetta á t.d. við um húseigendatryggingar. Stimpilgjald af heimilistryggingum og húftryggingum bifreiða miðast hins vegar við vátryggingarfjárhæð. Þá eru tilteknar tegundir trygginga undanþegnar stimpilgjaldi, m.a. brunatryggingar fasteigna, ábyrgðatryggingar bifreiða og atvinnuslysatryggingar launþega. Þannig eru mismunandi aðferðir við ákvörðun stimpilgjalda af vátryggingarsamningum og það veldur erfiðleikum í framkvæmd þegar um samsettar tryggingar er að ræða auk þess sem ekkert samræmi er í gjaldtökunni. Eðlilegast er að miða stimpilgjaldið við iðgjaldið og er því lagt til að tekið verði 0,2% gjald af öllum iðgjöldum nema iðgjöldum vegna samninga um líftryggingar. Þess má geta að slíkar tryggingar eru seldar talsvert nú um þessar mundir hér á landi af stórum erlendum félögum og eðlilegt að íslensku tryggingafélögin geti keppt við þau á jafnréttisgrundvelli. Þess má geta í þessu sambandi að ekki er tekinn neinn virðisaukaskattur af tryggingum, en á sínum tíma voru þær hins vegar almennt söluskattsskyldar, þannig að ef maður skoðar þetta í sögulegu ljósi, er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að slíkar breytingar séu nú gerðar.

Samkvæmt gildandi lögum er tekið stimpilgjald þegar aflaheimildir eru seldar með fiskiskipum þar sem litið er svo á að aflaheimildir séu hluti af fylgifé skips, en gjaldið reiknast af skipi og fylgifé. Til þess að gæta samræmis við gjaldtöku er lagt til að þegar aflaheimildir eða veiðikvóti er seldur sér eða leigður, verði tekið stimpilgjald af þeim samningum.

Lagt er til að það nægi til að gera skjal stimpilskylt hér á landi að annar aðili þess sé heimilisfastur hérlendis. Í mörgum tilvikum eru slík skjöl stimpilskyld hér á landi. Ákvæði þetta þykir hins vegar nauðsynlegt til að jafna samkeppnisstöðu innlendra lánastofnana gagnvart erlendum. Í V. kafla er jafnframt ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir tvísköttun eða með öðrum orðum að girða fyrir að menn greiði bæði fullt stimpilgjald hér á landi og erlendis.

Einnig er lagt til að stimpilgjald af eignayfirfærslum af fasteignum og skipum hækki úr 0,4% í 0,5% til að vega að hluta upp á móti lækkun stimpilgjalds af skuldabréfum. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem miða að því að kveða skýrar á um nokkur atriði sem nú byggjast á túlkun gildandi laga. Þannig er t.d. kveðið á um það berum orðum í 3. mgr. 28. gr. frumvarpsins að skuldbreytingarskjöl séu stimpilskyld og jafnframt er lagt til að skuldabréf sem fela í sér endurnýjun á skuld samkvæmt eldra bréfi verði gjaldfrjáls en nú er tekinn af slíkum bréfum helmingur af því gjaldi sem greitt er fyrir skuldabréf vegna nýrra lána. Í 39. gr. frumvarpsins kemur fram að húsaleigusamningar eru stimpilfrjálsir en það hefur hingað til verið byggt á orðum greinargerðar með eldri lögum. Þá eru lagðar til breytingar á reglum um stimplun kaupmála sem miða að því að gera núverandi reglur skýrari. Loks hafa verið gerðar ýmsar breytingar á uppsetningu og orðalagi núgildandi laga sem miða að því að eyða vafa og gera lögin nútímalegri.

Ég vil, virðulegi forseti, vísa til athugasemda að öðru leyti. Það er kannski hægast að skoða fjárhagsleg áhrif af frv. á bls. 16 þar sem stillt er upp annars vegar hvað gjaldið gefur, að því er áætlað er, samkvæmt gildandi reglum og hins vegar ef frv. yrði samþykkt óbreytt. Þar kemur að sjálfsögðu í ljós að þegar allt er samanlagt mun ríkið tapa nokkrum tekjum annars vegar og verða fyrir útgjaldaauka hins vegar, en fær að nokkru leyti borið uppi þennan mun sem verður, ef frv. verður samþykkt, með hækkun á nokkrar tegundir skuldabréfa vegna þess að í frv. felst að stofninn verður breikkaður. Samt sem áður má gera ráð fyrir að nettó verði tapið líklega 100--200 millj. kr. Hér er á ferðinni frv. þar sem reynt er að lækka hlutföll í öllum meginatriðum, með örfáum undantekningum, og breikka stofninn.

Virðulegi forseti. Þegar horft er til framtíðar eru stimpilgjöld sjálfsagt skattur sem mun hverfa eða leiða til minni tekna fyrir ríkissjóð á næstu árum. Það er eðli viðskipta að virða ekki landamæri og því erfitt fyrir þjóð að halda úti skattheimtu sem þekkist ekki eða í mun minna mæli annars staðar en hérlendis. Það má því gera ráð fyrir að smám saman verði dregið úr þessari skattheimtu. Það verður auðvitað að gerast í áföngum vegna þess hve mikilvæg þessi tekjulind er fyrir ríkissjóð, en eins og ég hef áður sagt í ræðu minni má gera ráð fyrir að á yfirstandandi ári verði tekjur ríkissjóðs u.þ.b. 2,8 milljarðar af þeirri skattheimtu.

Að síðustu vil ég ítreka það sem ég sagði að gert er ráð fyrir því að stimpilgjöld vegna samninga er varða farskip sem skráð verða á alþjóðlega skrá hér á landi verði ekki fyrir hendi, þannig að slík skjöl verða stimpilfrí. Ég vil að allra síðustu, virðulegi forseti, leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.