Ummæli þingmanns í fréttaviðtali

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:49:54 (4348)

1998-03-05 10:49:54# 122. lþ. 80.93 fundur 246#B ummæli þingmanns í fréttaviðtali# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:49]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vissi nú ekki af því að hv. þm. ætlaði að taka þetta mál upp hér. Hann vitnar til ummæla sem ég viðhafði í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins í gær. Þar hafði ég orð á því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem er formaður efh.- og viðskn. jafnframt því að vera framkvæmdastjóri Verslunarráðs, notfærði sér það í nefndinni að taka upp mál sem varðaði yfirmann hans í Verslunarráðinu, mál sem er til meðferðar hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála, mál sem hugsanlega fer til dómstóla og mál sem hugsanlega fer til Hæstaréttar. Á þessum nótum gagnrýndi ég þetta harðlega, virðulegi forseti. Ég tel að hv. efh.- og viðskn. hafi ekkert með málið að gera á þessu stigi. Ég álít sem svo að þarna hafi menn bara verið að þyrla upp einhverju pólitísku moldviðri í þessu máli í stað þess að fjalla um það málefnalega þegar því er endanlega lokið á öllum áfrýjunarstigum og hjá þeim dómstólum sem hugsanlega koma til með að fjalla um málið.

Það er gersamlega fráleitt á þessu stigi að efh.- og viðskn. fjalli um málið. Ef þeir ætla að vera samkvæmir sjálfum sér, virðulegi forseti, þá hljóta þeir næst að kalla til áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Fari málið til dómstóla kalla þeir væntanlega héraðsdómara fyrir til að spyrja þá hvaða viðhorf þeir hafi til málsins og á endanum Hæstarétt. Ég mótmæli því harðlega þeim ávirðingum sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson setti fram áðan og allra síst er ástæða til þess að biðjast afsökunar á þeim orðum sem féllu í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins.