Ummæli þingmanns í fréttaviðtali

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:51:53 (4349)

1998-03-05 10:51:53# 122. lþ. 80.93 fundur 246#B ummæli þingmanns í fréttaviðtali# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:51]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er alls ekkert einsdæmi að þingnefndir kalli fyrir sig aðila af þessu taginu. Það eru mörg dæmi um að til að mynda fulltrúar Samkeppnisstofnunar hafi komið fyrir þingnefndir til að ræða einstök mál og það er mjög eðlilegt að það sé gert í þessu sambandi.

Ég vil vekja athygli á því að það kom sérstaklega fram í viðtali, ef ég man rétt, við hv. varaformann efh.- og viðskn., hv. þm. Ágúst Einarsson, að tilgangur þessa fundar hefði alls ekki verið sá að kveða upp neina dóma heldur að kynna sér málið og fara yfir það eins og þingnefndir gera og það er auðvitað mjög eðlilegt. Þetta er mál sem m.a. sprettur af löggjöf hér á Alþingi og mjög eðlilegt er að kalla fyrir til aðila málsins til að hægt sé að kynna sér efni þess, ekki síst vegna þess að hér er um nýmæli að ræða. Ég vil spyrja hv. þingmenn sem sitja í efh.- og viðskn.: Var nokkur pólitískur ágreiningur um að vinna á þennan hátt? Það hefur ekki komið fram. Ég held þess vegna að málsmeðferð efh.- og viðskn. hafi verið mjög eðlileg og alveg fráleitt að nota orð eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson notaði, þ.e. að hv. formaður efh.- og viðskn. væri að skara eld að einhverri köku á óeðlilegan hátt.