Áfengislög

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 15:35:25 (4380)

1998-03-05 15:35:25# 122. lþ. 80.15 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[15:35]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til áfengislaga. Frv. þetta er samið í dómsmrn. í framhaldi af starfi nefndar sem skipuð var aðstoðarmönnum fjögurra ráðherra. Nefnd þessi vann að heildstæðri endurskoðun á reglum varðandi áfengis- og tóbaksmál hér á landi.

Frv. til breytinga á áfengislögum var lagt fram á síðasta þingi án þess að fyrir því væri mælt. Þetta frv. sem nú er mælt fyrir er nokkuð breytt frá fyrra frv. og er hér um að ræða frv. til heildstæðra laga sem mundu leysa eldri lög af hólmi. Um þessi efni eru nú í gildi áfengislög frá árinu 1969. Frv. þetta felur í sér tímabæra endurskoðun á þeim lögum en það er einnig liður í umfangsmeiri breytingum á löggjöf er varðar áfengismál.

Samhliða þessu frv. er lagt fram frv. til breytinga á lögreglulögum frá 1996 en í því er lagt til að stofnuð verði sérstök deild innan embættis ríkislögreglustjóra sem mundi hafa yfirstjórn og umsjón með eftirliti með meðferð áfengis. Lögreglustjórum, hverjum í sínu umdæmi, er síðan ætlað að fara með daglegt eftirlit samkvæmt fyrirmælum ríkislögreglustjóra. Með þessu er forvarnastarf eflt með auknu eftirliti og aðgerðir lögreglu samræmdar um land allt.

Skýrlega er kveðið á um að leyfi þurfi til að stunda í atvinnuskyni innflutning, heildsölu, smásölu, veitingar eða framleiðslu áfengis. Eru ákvæði þessi skýrari og heildstæðari en samkvæmt gildandi löggjöf. Í frv. er kveðið á um almenn skilyrði sem allir þeir sem veitt er leyfi þurfa að fullnægja. Í frv. er ríkislögreglustjóra í stað fjmrh. ætlað að veita leyfi til innflutnings, heildsölu eða framleiðslu áfengis. Telja verður eðlilegra að ríkislögreglustjóri sjái um leyfisveitingar þessar í ljósi þeirrar stöðu sem honum er ætluð samkvæmt frv. og frv. til laga um breytingar á lögreglulögum sem flutt er samhliða þessu frv.

Það nýmæli er í frv. þessu að ÁTVR þarf samkvæmt því leyfi til að starfrækja hverja áfengisútsölu. Lagt er til að sveitarstjórn, hver í sínu umdæmi, veiti leyfi þessi. Útsölustaðirnir þurfa að fullnægja ákveðnum lágmarksskilyrðum samkvæmt frv. til að fá smásöluleyfi en viðkomandi sveitarstjórn er síðan heimilt að binda leyfið frekari skilyrðum, svo sem um staðsetningu verslunar og opnunartíma.

Mikil umræða hefur undanfarið verið um vínveitingahús og það ástand sem skapast hefur í nágrenni nokkurra slíkra veitingastaða. Um mitt ár 1996 skilaði nefnd, sem dómsmrh. skipaði, tillögum um áfengisveitingaleyfi og skilyrði sem binda ætti slík leyfi. Tillögum þessum er fylgt í meginatriðum í frv. og felast í því skýrari og ótvíræðari ákvæði og skilyrði sem leyfishafar þurfa að fullnægja. Skilyrði þessi auðvelda eftirlitsaðilum að bregðast við brotum leyfishafa á löggjöfinni og skapa þar með öruggari umgjörð um mál þessi en verið hefur. Meðal þeirra skilyrða sem leyfishafar þurfa að uppfylla eru að þeir leggi fram tryggingar fyrir kröfum sem kunni að stofnast á hendur þeim vegna rekstursins og að þeir séu ekki í verulegum gjaldföllnum skuldum við hið opinbera eða lífeyrissjóði. Þá er heimilt að synja um leyfi hafi hlutaðeigandi á síðustu fimm árum verið dæmdur til refsivistar vegna brota á tilgreindum lögum.

Frv. gerir ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu að sveitarstjórnir í stað lögreglustjóra gefi út leyfi til áfengisveitinga hver í sínu sveitarfélagi. Með þessu er gert ráð fyrir að sveitarstjórnum séu veittar víðtækari heimildir til að stjórna því hvort og hvar eigi að reka vínveitingahús. Telja verður eðlilegt að sveitarfélög sjái um leyfisveitingar þessar þar sem veitingahús þessi hafa veruleg áhrif á bæjarbrag auk þess sem tilvist og staðsetning veitingahúsa varða íbúa sveitarfélagsins miklu. Þá einfaldar þetta það ferli sem liggur að baki leyfunum frá því sem nú er og felur sveitarstjórnum skýrlega þá ábyrgð sem felst í að heimila opnun vínveitingastaða. Samkvæmt frv. geta sveitarstjórnir bundið ákveðin leyfi sérstökum skilyrðum sem ganga lengra en þau lögbundnu svo sem um opnunartíma og fleira.

Í frv. er gert ráð fyrir að sett verði á stofn úrskurðarnefnd um áfengismál. Hlutverk hennar verður að leysa úr ágreiningsmálum vegna ákvarðana sem frv. gerir ráð fyrir að sveitarstjórnir fari með. Þessi háttur er fallinn til að auka réttaröryggi og skilvirkni á þessu sviði þar sem málsaðila gefst kostur á að skjóta ákvörðunum þessum með einföldum og skjótum hætti til úrskurðar sjálfstæðrar óháðrar nefndar. Þá er þetta fyrirkomulag mjög til þess fallið að tryggja samræmi í framkvæmd laganna.

Gert er ráð fyrir að dómsmrh. skipi þrjá menn í nefndina, einn tilnefndan af Sambandi ísl. sveitarfélaga, einn tilnefndan af ríkislögreglustjóra og einn af félmrh. Í frv. er skýrlega kveðið á um viðurlög við brotum á ákvæðum þessum. Þannig er lögð sú skylda á leyfisveitanda að afturkalla leyfi fullnægi leyfishafi ekki lengur skilyrðum sem sett eru fyrir veitingu leyfis. Afdráttarlaust er einnig kveðið á um hvernig með skuli fara ef handhafi leyfis verður uppvís að vanrækslu á skyldum sínum eða fullnægir ekki skilyrðum sem um reksturinn gilda. Þetta gerir heimildir til að bregðast við brotum ljósari og ótvíræðari en nú er.

Herra forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.