Áfengislög

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 16:51:35 (4386)

1998-03-05 16:51:35# 122. lþ. 80.15 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[16:51]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 17. þm. Reykv. innti mig eftir því hver væru pólitísk viðhorf mín til þess frv. sem hér liggur fyrir. Í sjálfu sér hefði átt að vera óþarfi að bera slíka fyrirspurn fram því að pólitísk viðhorf mín koma að sjálfsögðu fram í frv. sem er flutt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er að sjálfsögðu rétt eins og fram hefur komið í umræðum um önnur mál sem þessu frv. tengjast að hér eins og oft áður er um málamiðlanir að ræða, en ég stend að þeim tillögum sem lagðar eru fram og tel að þær séu um margt til bóta frá núverandi skipun þessara mála.

Hv. 13. þm. Reykv. vék að opnunartíma vínveitingastaða og spurði hvort ástæða væri til að gefa hann frjálsan til reynslu um tiltekinn tíma. Frv. gerir ráð fyrir því og þeirri grundvallarbreytingu að sveitarfélögin geti sjálf tekið ákvörðun um opnunartíma vínveitingahúsa. Þar er um að ræða að minni hyggju skynsamlega breytingu. Það er eðlilegt að sveitarfélögin sjálf taki ákvarðanir þar um.

Þá hefur verið vikið að því af nokkrum hv. þm. að í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að sérstakt leyfi þurfi til þess að stunda smásölu með áfengi. Ég undrast svolítið þær athugasemdir sem gerðar eru í þessu samhengi. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt og í samræmi við almenn viðhorf í þessum efnum að sveitarstjórnir hafi nokkuð um það að segja hvort leyfðar eru áfengisútsölur í sveitarfélaginu eða ekki. Fram til þessa hefur það verið gert, eins og hér hefur verið vakin athygli á, með almennum atkvæðagreiðslum. Áfengisútsölur hafa verið háðar samþykki íbúa í viðkomandi sveitarfélögum í almennum atkvæðagreiðslum. Nú er verið að hverfa frá þeirri skipan en eftir sem áður að halda við það að sveitarstjórnirnar sem kjörnar eru af íbúunum taki til þess afstöðu þannig að það verði ekki einhliða ákvörðun Áfengisverslunarinnar hvort sett verði upp áfengisútsala í þessu sveitarfélaginu eða hinu og hvar henni verður niður komið. Ég tel fullkomlega eðlilegt að sveitarfélögin geti haft þarna stjórn á hlutum með tilliti til þeirra hagsmuna sem þau telja eðlilegt að verja í viðkomandi sveitarfélagi, og það geta auðvitað verið breytileg viðhorf frá einu sveitarfélagi til annars.

Hv. 12. þm. Reykv. spurði hvort með þessu móti væri hægt að koma áfengisútsölu fyrir í hvaða verslun sem er. Í 12. gr. er alveg afmarkað með hvaða hætti hægt er að koma þessum málum fyrir, en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Smásöluleyfishafi skal ábyrgjast fullnægjandi öryggis- og eftirlitsbúnað húsnæðis þess sem hýsa á útsölustaðinn, afmörkun og aðgreiningu húsnæðis og rekstrar frá öðrum verslunarrekstri, sem og hámarksafgreiðslutíma. Ráðherra kveður nánar á um hámarksafgreiðslutíma og sérstök skilyrði varðandi smásöluleyfi í reglugerð.``

Hér er alveg afmarkað með hvaða hætti verslun getur tengst öðrum verslunum þannig að lögin sjálf kveða á um það efni.

Þá hefur verið vikið að ákvæðum 18. gr. um 20 ára aldursmörkin og reyndar að báðum efnismálsgreinum 18. gr. frv. Hér er um að ræða óbreytta skipan frá gildandi lögum og vissulega má ræða þessi álitaefni um aldursmörkin, og ég tel ekkert óeðlilegt að þau eins og önnur ákvæði í þessu frv. komi til sérstakrar skoðunar hjá hv. allshn.

Sama má segja um 20. gr. frv. Þar er áfram byggt á þeim sömu takmörkunum á auglýsingum sem verið hafa. Það er vissulega rétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að talsverðum vandkvæðum hefur verið bundið að framfylgja þessum lagareglum. Lögreglan hefur talið að nauðsynlegt væri að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvar línur liggja til að auðvelda framkvæmd laganna, einkanlega með tilliti til þess að að ég hygg a.m.k. í einu tilviki hafi dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið hægt að framfylgja banni vegna þess að það stangaðist á við stjórnarskrá. Þess vegna hefur lögreglan talið að þetta væri nauðsynlegt og ég veit ekki betur, þó að ég sé ekki með alveg nýjar upplýsingar um það, en lögreglan hafi verið með í undirbúningi að koma ágreiningsatriðum um tiltekin atriði fyrir dómstóla og fá úr því skorið og fá þannig öruggari grundvöll annaðhvort til þess að framfylgja lögunum eða huga að nýjum úrræðum ef niðurstaða dómstóla yrði á þann veg að það væri óhjákvæmilegt.

Í þessu efni er líka rétt að minnast á að ég held að það skipti mjög miklu máli um framkvæmd þessara auglýsingamála að almenn alþjóðleg samstaða takist í þessu efni. Það er líka örðugleikum háð að lög geta ekki komið í veg fyrir það að til að mynda í erlendum blöðum sem hér eru seld séu slíkar auglýsingar. Við gerðum fyrirvara í EES-samningnum um áfengisauglýsingar í útvarps- og sjónvarpssendingum sem kæmu erlendis frá hingað til lands. Evrópusambandið telur að við getum ekki staðið á þeim fyrirvara. Við höfum hins vegar talið að það væri rétt af okkar hálfu að standa fast á honum. En vandamál af þessu tagi sýna hversu mikilvægt það er að reyna að ná einhverri alþjóðlegri samstöðu um þessi efni.

Ég held að ég hafi þá vikið að flestum þeim athugasemdum sem fram hafa komið og fyrirspurnum í umræðunni og þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í umfjöllun um þetta mál.