Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:14:23 (4412)

1998-03-06 11:14:23# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:14]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna, er á sunnudaginn. Að þessu sinni hafa kvennasamtök víðs vegar í veröldinni ákveðið að helga daginn baráttunni gegn kúgun og aðskilnaðarstefnu kynjanna í Afganstan. Alþjóðleg kvennasamtök hafa í samvinnu við Evrópuþingið, Emmu Bonino og konur frá Afganistan hrint af stað alþjóðlegri baráttuherferð undir heitinu ,,Blóm fyrir konur í Kabúl`` eins og framsögumaður gat um áðan.

[11:15]

Þegar stjórn talebana komst á í Afganistan 1996 voru konur þar vel menntaðar og tóku virkan þátt í samfélaginu. Síðan hafa þær verið fangar á heimilum sínum, eins og kom vel fram hér áðan. Það er nauðsynlegt að afhjúpa og skilja sambandið á milli trúarbragða og pólitísks valds og hvernig trúin er notuð til þess að kúga konur, jafnvel langt út yfir það sem bókstafur trúarritanna mælir fyrir um. Trúarofstæki er það pólitíska afl sem eitt sér hefur nægilegt vald til þess að barátta fyrir jafnrétti kynjanna getur orðið að engu. Trúarofstæki er ekki bara vandamál innan múhameðstrúar, hliðstæður finnast okkur nær. Trúarofstæki innan hins kristna samfélags er alþekkt og hefur verið notað m.a. til þess að ógna rétti kvenna til fóstureyðinga.

Virðulegi forseti. Það er engin tilviljun að þessi umræða er tekin hér upp á Alþingi í dag. Það er heldur engin tilviljun að Kvennalistinn mun standa fyrir málþingi um kvennapólitískt alþjóðasamstarf í næstu viku undir heitinu: Erum við stikkfrí? Þangað höfum við m.a. boðið afgönsku kvenfrelsiskonunni og rithöfundinum Mariam Azimi. Málþingið verður 14. mars á Sólon Íslandus og er opið meðan húsrúm leyfir.

Ég fagna því að utanrrh. hefur stutt tillögur sem mótmæla stefnu talebana á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og innan Norðurlandanna en spyr nánar um einhliða aðgerðir ríkisstjórnar Íslands. Að lokum vil ég skora á ríkisstjórnina og þingmenn alla að nýta sér þá einföldu leið til að sýna málefninu stuðning að skrifa undir undirskriftalista afganskra kvenna til Kofis Annans, sem ég hef hér og munu liggja frammi í anddyri þingsins í dag og á mánudag.