Örnefnastofnun Íslands

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 17:49:00 (4549)

1998-03-10 17:49:00# 122. lþ. 83.3 fundur 166. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[17:49]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér kemur til 2. umr. frv. um Örnefnastofnun Íslands. Eins og fram kom hjá hv. formanni menntmn. þá skrifa ég undir nefndarálitið með fyrirvara og vil hér gera grein fyrir honum. Það gera einnig fulltrúar hinna stjórnarandstöðuflokkanna.

Hér er um að ræða frv. þar sem kveðið er á um að búa til sjálfstæða ríkisstofnun, Örnefnastofnun Íslands, á grunni Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns sem starfað hefur frá árinu 1969, alla tíð undir forstöðu Þórhalls Vilmundarsonar prófessors sem unnið hefur ómetanlegt starf á þessu sviði og undir það vil ég taka með hv. formanni nefndarinnar.

Frá árinu 1969--1981 vann prófessor Þórhallur sem forstöðumaður stofnunarinnar í aukastarfi en frá 1981--1994 fékk hann leyfi frá kennsluskyldu sem prófessor í sagnfræði vegna rannsókna sinna á Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Frá 1994 þegar prófessor Þórhallur Vilmundarson lét af prófessorsembætti fyrir aldurs sakir hefur hann sinnt þessu starfi í aukastarfi. Ég vil taka undir það að ég met fræðistörf hans mikils og tel að svo hafi mun fleiri gert eins og fram kom hér áðan.

En nú bregður svo við þegar prófessor Þórhallur er um það bil að hætta störfum að lagt er til að Örnefnastofnun verði gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun. Hvers vegna? Mig skortir einmitt svör við því, herra forseti. Ég hef alls ekki nægilega sterka sannfæringu fyrir því að því merka starfi sem örnefnafræðum tilheyrir verði best sinnt með þessum hætti.

Í bréfi Þórs Magnússonar til menntmn. Alþingis bendir hann á að að sínu mati séu þrjár leiðir til þess að tryggja starfsemi Örnefnastofnunar. Í fyrsta lagi að stofnunin verði hluti Þjóðminjasafns en þó fastbundnari safninu, þ.e. stjórnun og fjárhald yrði á vegum þess. Í öðru lagi ræðir Þór Magnússon um þann möguleika að hún yrði sjálfstæð stofnun í ríkiskerfinu og heyrði beint undir menntmrn og í þriðja lagi að hún yrði sett undir Háskóla Íslands sem háskólastofnun. Af þessu þrennu telur Þór Magnússon þjóðminjavörður rökréttast að Örnefnastofnun yrði hluti af Þjóðminjasafni Íslands áfram því þaðan sé hún sprottin og vegna þess að örnefni eru hluti af áþreifanlegri menningarsögu þjóðarinnar, þjóðháttum og þjóðlífi, og að rannsóknum á þessum fræðum sé þess vegna best borgið innan Þjóðminjasafns Íslands.

Í umsögn heimspekideildar háskólans er á það bent að eðlilegra hefði verið að stofnunin tengdist betur háskólanum, t.d. Orðabók Háskóla Íslands, Stofnun Árna Magnússonar og Íslenskri málstöð. Þá hefði verið eðlilegt frá sjónarhóli íslenskra fræða að öll nafnfræðin hefði verið sett saman í eina stofnun, Nafnfræðistofnun, en ekki einblínt á örnefnin eingöngu. Fyrir vikið sé mannanöfnunum og öðrum nöfnum ekki ætlaður neinn staður.

Sem sagt: Af þeim þremur kostum sem Þór Magnússon þjóðminjavörður sér fyrir sér, þá leggur hann til að þetta verði áfram í Þjóðminjasafni. Heimspekideild Háskóla Íslands leggur til að þetta verði innan háskólans. En hér er valinn þriðji kosturinn, þ.e. að þetta verði sjálfstæð stofnun sem heyri undir menntmrn. án nógu sterkra röksemda að mínu mati.

Samhliða þessu frv. hefur menntmn. haft til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um bæjanöfn þar sem m.a. er kveðið á um stofnun örnefnanefndar sem skipuð yrði af menntmrh. og Örnefnastofnun tilnefni einn nefndarmann af þremur í þessa örnefndanefnd. Örnefnanefnd á m.a. að fjalla um nöfn á landabréfum, skera úr ágreiningi varðandi þau, einnig um götunöfn og nöfn sveitarfélaga að einhverju leyti. Að auki skarast málefni Örnefnastofnunar og örnefnanefndar við Íslenska málnefnd. Í umsögn Íslenskrar málnefndar til menntmn. er óskað eftir því að Íslensk málnefnd eigi fulltrúa í örnefnanefnd vegna þessara tengsla og að rétt sé að endurskoða lagasetningu um fyrirtækjaheiti sem heyrir undir enn önnur lög.

Ég bendi á þetta, herra forseti, vegna þess að nafnamálin eru á könnu mjög margra mismunandi stofnana sem eru tengdar þvers og kruss án þess þó að um formleg eða rökrétt tengsl sé að ræða. Ég teldi mun vænlegra að þessi nafnamál, íslensk örnefni, mannanöfnin, bæjanöfnin og fyrirtækjaheitin væru á könnu einnar nafnastofnunar. Þá væri e.t.v. þörf fyrir sjálfstæða stofnun. Hins vegar er ekki þörf á stofnun sem sinnir aðeins örnefnum en er þó ekki einu sinni með örnefnin alfarið á sinni könnu þar sem örnefnanefnd heyrir ekki einu sinni undir þá stofnun.

Virðulegi forseti. Ég mun ekki setja mig upp á móti þessu frv. en mig skortir sannfæringu fyrir því að hér sé verið að stíga rétt skref, ekki síst í ljósi þess að Sjálfstfl. virðist hér vilja stækka ríkisbáknið án þess að fyrir því liggi augljós rök. Það er mín tilfinning að hér hangi eitthvað á spýtunni sem ekki hefur komið upp á yfirborðið í hv. nefnd, þ.e. einhver ástæða sem ég kem alls ekki auga á fyrir því að stofna sjálfstæða örnefnastofnun.

Að lokum vil ég, herra forseti, ítreka það að ég ber mikla virðingu fyrir fræðistörfum Þórhalls Vilmundarsonar og að afstaða mín í þessu máli komi því ekkert við. Ég hef bara ekki sannfæringu fyrir því að hér sé verið að stíga rétt skref.