Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:06:22 (5074)

1998-03-24 15:06:22# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að með góðum vilja má skilja á orðum hv. tveggja þingmanna Sjálfstfl. sem hér hafa talað að þeir séu hlynntir því að lækka vínandamagn í blóði en bara ekki núna og bíða sem sagt eftir að fá grænt ljós frá framkvæmdarvaldinu. Það var einmitt það sem ég var að segja áðan. Þingið hefur ekki orðið neina sjálfstæða hugsun. Ef ekki kemur grænt ljós frá embættismönnunum í kerfinu, þá getur þingið ekki tekið afstöðu til mála. Það er mjög hvimleitt, herra forseti, að búa við það í hverju málinu á fætur öðru. Það má ekki gera neinar brtt. á frv. sem koma frá embættismönnunum öðruvísi en þeir blessi þær brtt. hvað þá að samþykkja þingmannafrumvörp sem þingmenn flytja nema búið sé að blessa það af viðkomandi ráðherra eða embættismanni. Það er auðvitað sama með þessar tillögur, herra forseti, hjá stjórnarliðum. Þeir þurfa að láta embættismennina halda í höndina á sér, fá leiðsögn þeirra (Gripið fram í: Æ, Jóhanna.) til að þeir geti samþykkt þessa brtt.

Menn telja að það vanti eitthvað meira á rannsóknir og kannanir og það sé ótækt að Ísland hafi forustu meðal annarra þjóða um að lækka leyfilegt vínandamagn í blóði og hafi forustu um að ganga lengra en aðrar þjóðir í því efni. Er það virkilega svo að við þurfum að fá reynslu frá öðrum þjóðum sem ætla að ganga svona langt, t.d. Svíum, áður en við förum út í að gera þessa sjálfsögðu breytingu? Reynslan hjá Svíunum hlýtur að vera góð en þeir hafa í nokkur ár búið við að leyfilegt vínandamagn í blóði sé 0,2 prómill þegar þeir núna eru að hugleiða að fara með það niður í 0 prómill með öryggismörk að 0,2. Það hlýtur að þýða að þeir hafi góða reynslu af þessu.

Varðandi það sem fram kom í máli hv. formanns allshn. þá heyrði ég að hún las mjög samviskusamlega upp skoðun formanns Umferðarráðs á þessu máli sem við hlustuðum á í gærkvöldi í sjónvarpinu þar sem mynd sást úr Aftenposten af einhverjum slíkum upplýsingum um að slysum hefði fækkað meira í Noregi en í Svíþjóð þar sem í Noregi sé leyfilegt áfengismagn í blóði hærra en í Svíþjóð. Þetta eru engin rök í málinu og ég bið um að fá fram hjá formanni allshn. hvaða könnun og rannsókn er á bak við slíkar fullyrðingar. Allar upplýsingar sem ég hef komið með og tölulegur samanburður er byggður á ítarlegum rannsóknum og könnunum.

Hvað segja þessar kannanir varðandi Noreg, sem hér er dregið upp sem eitthvert fyrirmyndarland að því er þetta varðar og standi sig miklu betur en Svíar sem hafa lægra leyfilegt áfengismagn í blóði? Þar kemur fram, ég las það hér áðan, að ef við skoðum t.d. árin 1996 og 1997, þá hefur banaslysum fjölgað í Noregi, þau voru 255 1996 og 1997 305 og hlutfall ölvunarslysa hefur ekkert breyst. Þriðjungur banaslysa í Noregi var rakinn til ölvunar eða tæp 90 árið 1996 og rúmlega 100 árið 1997. Varla er það fækkun.

Hvernig snýr svo málið að Svíþjóð sem hefur um nokkurra ára bil haft leyfilegt áfengismagn í blóði í 0,2 prómillum?

Árið 1989, árið áður en prómillmagni var breytt í 0,2%, voru banaslys 804. Hver er fjöldi banaslysa árið 1996? Hann er 487, næstum því helmings fækkun.

Ef hv. þm. Hjálmar Jónsson er eitthvað ruglaður út af misvísandi upplýsingum, þá skal ekki standa á mér, herra forseti, að skjóta á einum fundi í allshn. til að fara yfir þær rannsóknir og kannanir sem liggja fyrir og bera saman þær upplýsingar sem hér hafa verið dregnar fram.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir sagði. Við höfum verið með undanslátt í þessu efni að því er varðar leyfilegt áfengismagn þegar fólk sest undir stýri. Skilaboðin eru þau að það megi drekka svolítið en ekki mikið og síðan verður hver og einn að meta það sjálfur hvort hann sé undir þessum 0,5 prómillum án þess að geta mælt það nokkurs staðar nema hann sé tekinn af lögreglunni.

Það hljóta líka að vera rök í málinu sem ég hef sett fram varðandi norska rannsókn í þessu efni sem var gerð á norska knattspyrnufélaginu sem ég nefndi, um mismunandi áfengismagn í blóði og hvernig það kom niður á þeim sem voru í prófi þegar við 0,7--0,8 prómill jukust mistök um hvorki meira né minna en 47,5%. Það liggur fyrir að hæfnin skerðist um 25% við akstur strax við 0,2 prómilla vínandamagn í blóði. Er það ekki svo hér á landi að fimmta hvert slys í umferðinni megi rekja til ölvunaraksturs?

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Mér finnst ekkert af þeim rökum sem hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa teflt fram standast eða séu til þess fallin að sannfæra mig um að rétt sé að bíða eftir því hvað framkvæmdarvaldið vill í þessu efni. Ég held að við höfum fullnægjandi og boðlegar kannanir og rannsókir sem sýni að ekki er eftir neinu að bíða. Verst finnst mér rök hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur sem segir að af því að ekkert annað land hafi farið með þetta niður í 0 og 0,2 prómill sem öryggismörk, þá sé ekki rétt að Ísland taki þar forustu.

Ég vil enn og aftur segja: Ég hygg að reynslan muni sýna að til fyrirmyndar yrði fyrir Ísland ef það tæki afgerandi forustu í þessu máli þar sem við værum með skýr skilaboð út í þjóðfélagið að akstur og áfengi fer ekki saman. Þess vegna er þinginu að mínu viti, herra forseti, ekkert að vanbúnaði að taka afstöðu til þessarar tillögu.