Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:27:05 (5083)

1998-03-24 15:27:05# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:27]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu breyting á umferðarlögunum frá 30. mars 1987, með síðari breytingum (öndunarsýni). Eins og fram kom hjá frsm. allshn. var ég fjarstödd afgreiðslu þessa máls sem var í síðustu viku og þess vegna fannst mér rétt að afstaða mín til málsins kæmi hér fram. Ég var viðstödd umræður um málið í nefndinni og ég tel að hérna sé um mjög þarft mál að ræða og styð það heils hugar, þ.e. að samræma gjaldtöku á öndunarsýni eða rannsókn á blóði og einnig síðara efnisatriðið.

Ég vil einnig koma aðeins að þeirri brtt. sem hér er til umræðu og þeim undarlegu orðaskiptum sem hafa orðið um vinnubrögð í allshn. út af henni. Þessi brtt. er að mínu mati mjög athyglisverð, þ.e. að lögð sé áhersla á að þingið sendi út skýr skilaboð um að það fari ekki saman að drekka áfengi og aka ökutæki. En ég verð að segja að ég tel að þetta sé mikilvæg breyting sem þurfi að fá eðlilega umræðu í þjóðfélaginu eins og um frv. væri að ræða. Mér finnst því tillaga flm., hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, mjög góð um að þetta verði rætt í allshn. og aðilar fengnir til þess að fara í gegnum þessi (Gripið fram í: Það er búið að ræða þetta.) efnisatriði nánar eins og hún er búin að biðja um og síðan yrði athugað hvort þetta þyki ráðlegt. Að öðrum kosti mætti flytja um þetta sérstakt frv. En þetta er það stórt mál að ég tel rétt að það fái mjög góða umfjöllun. Þar af leiðandi styð ég þá tillögu að þetta fái betri umræðu í nefndinni og fari ekki í atkvæðagreiðslu strax.

[15:30]

Varðandi umræðuna um að stjórnarandstaðan og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þar með hafi neitað að hafa fundi í allshn. þá vil ég taka fram að það er einfaldlega vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag í þinginu um meðferð mála á næstu vikum og á meðan hefur verið ákveðið að samþykkja ekki marga aukafundi að svo komnu máli. Það hefur ekkert með allshn. að gera frekar en nefndir þingsins almennt. Ég tel að vinnubrögð í allshn. séu með ágætum og vona að svo verði áfram. Þar er mjög mikið af málum og við reynum auðvitað að vinna að þeim eins og kostur gefst. Nefndin mun að sjálfsögðu fara í þá umræðu sem þörf er á og ég vona að það verði einnig gert um þá brtt. sem fyrir liggur.