Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:43:42 (5089)

1998-03-24 15:43:42# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:43]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. 12. þm. Reykn. Mér finnst málið snúa þannig við að hv. þm. þurfi að skýra það út og svara því hvers vegna eigi ekki að skoða það og athuga með þeim sérfræðingum sem færastir eru á þessu sviði hvort eigi að gera þá breytingu sem hér er verið að tala um. Ég hef engan heyrt hafna því að það komi ekki til greina. En þetta er mikið álitamál. Við fylgjum meginreglu sem fylgt er í Evrópu og það hlýtur að vera eðlileg krafa, ekki bara ráðuneytisins heldur Alþingis að um það sé fjallað af þeim sérfræðingum sem gerst þekkja.

Við höfum nýlega fengið tilboð frá samtökum lækna sem vilja leggja málinu lið og koma inn í umræðuna og eiga fulltrúa í þeirri nefnd sem á að fjalla um þetta. Hvers vegna má ekki fara í þessa athugun og taka síðan ákvörðun? Þessi spurning lýtur að hv. þm. en ekki hinum sem hafa verið að mæla fyrir því að þessi skoðun sé gerð.

Herra forseti. Svo verð ég að fá að segja það að mér finnst ekki smekklegt að koma aftur og aftur spurninguna: Hvaða hagsmuni er verið að verja? Í henni felast dylgjur sem mér finnst ekki vera smekklegar.