Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:53:19 (5097)

1998-03-24 15:53:19# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:53]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi umræða vera allsérstök. Ég vil undirstrika það, ef einhver hefur verið í vafa um það, að við á hinu háa Alþingi erum auðvitað öll sammála um að áfengi og akstur eigi ekki saman og við viljum að sjálfsögðu senda skýr skilaboð út í þjóðfélagið í þeim efnum, bara svo enginn vafi sé um það mál.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir var eitthvað að misskilja orð mín áðan þegar ég talaði um að það væru hagsmunir margra hvernig farið væri með þetta mál. Að sjálfsögðu á ég fyrst og fremst við öryggismál. Það er verið að tala um öryggi almennings í þessu sambandi. Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna til þess bréfs sem dóms- og kirkjumrn. sendi Læknafélagi Íslands og er dags. 16. mars sl. þar sem segir: ,,Ráðuneytið telur rétt að ábendingar yðar verði teknar til nánari skoðunar og hefur af þeirri ástæðu ákveðið að setja á laggirnar starfshóp sem hafa á það hlutverk að leita enn frekari leiða til að stemma stigu við ölvunarakstri. Mun starfshópurinn taka til skoðunar hvort rétt sé að lækka leyfilegt áfengismagn í blóði, eða samkvæmt öndunarsýni með hvaða hætti unnt sé að herða enn frekar eftirlit með ölvunarakstri, og í þriðja lagi hvort herða beri viðurlög við ölvunarakstri.`` Í þennan starfshóp á m.a. að skipa fulltrúa frá ríkislögreglustjóra, Umferðarráði, heilbrrn., Læknafélaginu og fleirum og auðvitað er þessum aðilum ætlað með sinni sérþekkingu að gæta hagsmuna almennings.