Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 15:58:16 (5101)

1998-03-24 15:58:16# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., JóhS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[15:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þau orð féllu áðan sem ekki verða látin óátalin varðandi störf minni hlutans í allshn. sem voru mjög ómakleg og ósmekkleg sem ég mótmæli. Hér var sagt af hv. 10. þm. Reykn. Kristjáni Pálssyni að minni hlutinn héldi málum ríkisstjórnarinnar í heljargreipum. Þau væru í heljargreipum stjórnarandstöðunnar í allshn. og að minni hlutinn stöðvaði eðlilega vinnslu mála. Þetta er mjög ómaklegt, herra forseti, vegna þess að minni hlutinn hefur í allan vetur starfað mjög samviskusamlega í allshn. að framgangi stjórnarfrv. og unnið þar vel, afgreitt á færibandi frv. ríkisstjórnarinnar og dómsmrh., oft með óeðlilega miklu hraði og látið það yfir sig ganga, herra forseti, og ég vil þá nota tækifærið og vekja athygli á því að hvað eftir annað hefur minni hlutinn óskað eftir að þingmannamál væru tekin til umræðu í nefndinni en það hefur ekki orðið enn, herra forseti, þótt við séum komin að þinglokum. Ég er viss um að engin nefnd í þinginu, og ætti kannski að athuga það, hefur afgreitt jafnmörg mál og allshn. Ég mótmæli því, herra forseti, að við í minni hlutanum séum sökuð um að stöðva eðlilega vinnslu mála, sem höfum á færibandi verið að afgreiða mál dómsmrh. í allan heila vetur og síðast í morgun þrjú frv. Og látið það yfir okkur ganga að frv. stjórnarandstöðunnar og þingmanna séu ekki einu sinni tekin á dagskrá hjá formanni nefndarinnar. Og svo af því að við mætum ekki á aukafundi sem meiri hlutanum þóknast að boða, sem stundum hefur fallið saman við aðrar nefndir þegar þær eru að störfum, þá er það gert að sérstöku athugunarefni hér í ræðustólnum með þeim orðum að við séum að stöðva eðlilega vinnslu mála.

[16:00]

Þetta snýr nefnilega akkúrat að ríkisstjórnarflokkunum. Það eru þeir sem eru að stöðva eðlilegan framgang mála vegna þess að það er ekkert samkomulag, herra forseti, um þinghaldið, um þingstörfin, um það hvenær eigi að ljúka þingi, um hvaða mál eigi að afgreiða í allshn. af þeim mörgu tugum sem þar liggja fyrir og hvaða mál eiga að hafa ákveðinn forgang hjá ríkisstjórninni. Ég hlýt því að nota tækifærið og mótmæla þeim vinnubrögðum og ekki síst þeim ummælum sem hér hafa fallið, sérstaklega frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni og reyndar fleirum, hv. þm. Hjálmari Jónssyni, sem einnig á sæti í allshn., þar sem gagnrýnd eru störf minni hlutans í allshn. sem hefur starfað af mikilli samviskusemi í nefndinni í allan heila vetur. Ég vil heyra það frá formanni nefndarinnar hvort hún taki undir þau orð að minni hlutinn hafi ekki starfað af fyllstu samviskusemi að framgangi mála í allshn. og sé hér að stöðva framgang á málum. Ég mótmæli þessu, herra forseti.