Umferðarlög

Þriðjudaginn 24. mars 1998, kl. 16:17:03 (5110)

1998-03-24 16:17:03# 122. lþ. 93.13 fundur 443. mál: #A umferðarlög# (öndunarsýni) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 122. lþ.

[16:17]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er með allra duglegustu þingmönnum í hv. Alþingi og leggur fram gríðarlegan fjölda mála og fylgist vel með og tekur mikinn þátt í störfum allshn. þegar hún er að störfum og þegar máli skiptir. Ég geri alls ekki lítið úr störfum hv. þm. og geri ráð fyrir því að hún uppskeri eins og hún sáir í þeim tilfellum þegar hún kemur fram með góð mál. Ég veit að mörg af málum hennar hafa náð fram að ganga þó svo hún hafi verið í minni hluta og ég held að flestallir hér inni sem hafa verið lengi á þingi geti sagt að þeir hafi náð einhverju fram þó að þeir hafi verið í minni hluta. Auðvitað er það eðli minni hluta að ráða minna en meiri hluti, skiljanlega. Skiljanlega er það. Í því felst lýðræðið og ég geri ráð fyrir því að hv. þm. sætti sig við það og ég á ekki von á því að störf hennar í meiri hluta hafi verið öðruvísi en nú er.

Eftir því sem mér er sagt eru mál minni hlutans tekin nákvæmlega sömu tökum á þessu þingi eins og öðrum, fá umfjöllun eftir því sem beðið er um úti í þjóðfélaginu og eru tekin til umræðu inni í nefndinni. Það er svo aftur annað mál hvernig þau eru síðan afgreidd til ríkisstjórnar eða inn í þingið eða látin bíða en það mega meirihlutamenn einnig sætta sig við. En ég hef ekki orðið var við það að minni hlutinn væri beittur neinum bolabrögðum í þinginu eftir að ég kom hingað inn.