Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 10:35:40 (7422)

1998-06-04 10:35:40# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[10:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa eitt einasta augnablik að hæstv. samgrh. er sérfræðingur í þessu máli eins og öllu því sem varðar verðskrár og gjaldlagningu símans. Mig langar bara, út af því sem hæstv. ráðherra sagði þar sem hann heldur því fram að verið sé að hverfa frá þessu í nágrannalöndunum, að lesa hérna upp úr litlu blaði sem Samtök iðnaðarins gefa út. Þar segir undir fyrirsögninni Glatað tækifæri?, með leyfi forseta:

,,Með upptöku olíugjalds sáu Samtök iðnaðarins kjörið tækifæri til að færa skattlagningu bifreiða nær því sem tíðkast í samkeppnislöndum okkar.``

Nú er ég alveg viss um það að hæstv. samgrh. og þeir sem hafa skrifað þetta fyrir hönd Samtaka iðnaðarins hafa verið að ferðast í sömu löndum og kynnt sér þetta í sömu löndum en það er bersýnilegt að þar eru skilningarvitin eitthvað verulega frábrugðin.