Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 10:36:40 (7423)

1998-06-04 10:36:40# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[10:36]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Mig minnir að það sé nokkuð langt síðan ritstjórinn hefur skrifað leiðara um símann, eins og hann sé loksins farinn að átta sig á því að þar var rétt staðið að málum, og lét þó Dagblaðið illa í því máli --- hinn pólitíski ritstjóri Dagblaðsins sem á m.a. þátt í því að þetta blað hefur misst traust sem óháð og ópólitískt blað.

En út af því sem hv. þm. sagði um þessi mál vil ég aðeins taka fram að þau sjónarmið sem ég gerði áðan grein fyrir voru ítarlega rædd á fundi samgrh. nú fyrir skemmstu þannig að þessi skoðun er uppi og m.a. vegna þess að það fyrirkomulag sem er nú með því að skattleggja umferðina með litun olíu kemur mjög misjafnt niður á löndum og er þess vegna óþolandi fyrirkomulag sem verður að leiðrétta. Eins og ég sagði er sú skoðun uppi meira en áður að hinar ýmsu flutningagreinar eigi að greiða opinber gjöld í samræmi við þann kostnað sem er á flutningunum.