Áfengislög

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 14:41:04 (7469)

1998-06-04 14:41:04# 122. lþ. 144.6 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv. 75/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[14:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það má út af fyrir sig segja að ekki sé ástæða til að setja sig gegn nefndarskipan sem á að fá það verkefni að kanna, eins og svo fallega segir í inngangsorðum textans, með hlutlausum hætti hvort ástæða sé til þess að breyta áfengiskaupaaldri hér á landi. En þegar betur er að gáð og lesnir eru síðari töluliðir brtt. þá er í raun eingöngu nefndur sá möguleiki að lækka áfengiskaupaaldurinn. Það er nefnt í 4. og 5. tölul. hvort ekki sé sérstök ástæða til að skoða að færa áfengiskaupaaldur niður í 18 ár eða hvort gera eigi tilraun með að færa áfengiskaupaaldurinn tímabundið niður í 18 ár.

Tónninn í þessari brtt., herra forseti, gerir það að verkum að ég treysti mér ekki til að styðja hana. Ég er eindregið andvígur því að lækka áfengiskaupaaldur. Það liggja í raun og veru fyrir allar kannanir sem þarf, held ég, til þess að sýna fram á að reynslan af því að lækka áfengiskaupaaldur þar sem það hefur verið gert er slæm og mörg ríki sem það hafa gert hafa horfið frá því ráði og hækkað hann á nýjan leik og jafnvel hækkað hann upp í hærri aldur en hann var áður. Ég treysti mér ekki til að styðja tillögu sem meira og minna gefur þann tón að tilefni skoðunarinnar eigi að vera hvort ekki eigi að lækka áfengiskaupaaldurinn.