Tilraunaveiðar á ref og mink

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 16:13:38 (7497)

1998-06-04 16:13:38# 122. lþ. 144.29 fundur 95. mál: #A tilraunaveiðar á ref og mink# þál., Frsm. meiri hluta ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[16:13]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta umhvn., um tilraunaveiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum. Nefndin fékk til fundar við sig Pál Hersteinsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Jónas Helgason í Æðey. Nefndinni bárust einnig margvíslegar umsagnir sem hún nýtti sér við niðurstöður sínar. Nefndin leggur til að að tillgr. hljóði svo:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að heimila tímabundnar og takmarkaðar veiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum. Náttúrustofa Vestfjarða og Háskóli Íslands setji reglur um og hafi eftirlit með veiðunum og gefi ráðherra skýrslu þar sem fram komi niðurstöður um áhrif veiðanna. Tryggt verði að veiðarnar spilli ekki árangri þeirra rannsókna sem fram undan eru á refum á svæðinu.``

Undir þetta ritar meiri hluti nefndarinnar, sá þingmaður sem hér stendur auk hv. þm. Kristjáns Pálssonar, Sighvats Björgvinssonar, Árna M. Mathiesens, Tómasar Inga Olrich og Láru Margrétar Ragnarsdóttur.

[16:15]

Aðalatriðin sem koma fram í þeim breytingum sem ég hef nú lesið eru að nefndin mælir ekki með tilraunaveiðum á ref og mink heldur að fram fari veiðar á ref og mink og enn fremur að settar verði reglur og eftirlit um veiðarnar og að Náttúrustofa Vestfjarða og Háskóli Íslands setji þær reglur og hafi það eftirlit. Með þessu er ekki verið að stefna að tilraunaveiðum sem eigi að ganga eftir ákveðnu hefðbundnu tilraunaferli innan vísindalegra marka heldur er það atriði tekið í burtu og nefndin ályktar um veiðar sem slíkar en gerir ráð fyrir að þær verði tímabundnar og takmarkaðar. Enn fremur kemur háskólinn og Náttúrustofa Vestfjarða til sögunnar með reglum og eftirliti. Eins og fram kemur leggur nefndin mikla áherslu á það að ekki verði spillt þeim árangri sem menn vilja ná með rannsóknum. Með þessu teljum við að full tök séu á veiðum þessum og þær séu gerðar undir eftirliti ábyrgra aðila og rannsóknir séu tryggðar.

Það er óumdeilt að ref hefur fjölgað í friðlandinu á Hornströndum. Margir telja reyndar að ref og mink hafi fjölgað áður en til veiðibannsins kom fyrir nokkrum árum eins og víða hefur orðið á landinu en óumdeilt er að fjölgun hefur orðið, ekki síst eftir að veiðunum var aflétt. Um þetta má sjá í umsögnum frá veiðistjóra, frá Páli Hersteinssyni prófessor og Náttúruverndarráði svo vitnað sé í nokkrar umsagnir.

Þá vil ég einnig geta þess að heimaaðilar og þeir sem búsettir eru á svæðinu, bændur og aðrir sem hafa að staðaldri góða yfirsýn yfir náttúrufar á svæðinu fullyrða að ref hafi fjölgað, enda segir það sig sjálft að þegar veiðar hætta, ef þær hafa nokkru skilað, hlýtur dýrunum að fjölga.

Segja má að umsagnir um þetta mál skiptist í tvö horn. Annars vegar eru stofnanir og sérfræðingar sem telja að ekki eigi að aflétta banninu eða hefja veiðar, tilraunaveiðar að vísu eins og getið er um í upphaflegri tillögu frá hv. flutningsmönnum. Þeir leggjast gegn slíku. Fyrst og fremst eru röksemdir þær að upplýsingar og rannsóknir skorti. Eins og ég gat um áðan mæla þeir ekki á móti því að ref og mink hafi fjölgað, það er aðeins það að rannsóknir skorti. Margir úr þessum hópi benda á að hefja þurfi rannsóknir og gera þær ítarlegar og undir það getur sá sem hér stendur tekið.

Á hinn bóginn eru þeir aðilar sem vilja að veiðar séu hafnar og þessir aðilar eru heimamenn, bændur og annað það fólk sem hefur glögga yfirsýn með dvöl sinni og þekkingu á staðháttum og náttúrunni og telja að því lífríki sem þarna hefur verið í ákveðnu jafnvægi eins og náttúran heimilar og leyfir að talað sé um jafnvægi, sé hætta búin. Þessir aðilar mæla með veiðunum. Hverjir eru þessir aðilar? Þetta eru þeir sem mæla með veiðunum. Það eru: Kaldrananeshreppur, Bændasamtök Íslands, Samband ísl. sveitarfélaga, Búnaðarsamband Strandamanna, Æðarræktarfélag Íslands, Grunnvíkingafélagið á Ísafirði, Átthagafélag Sléttuhrepps í Reykjavík, Búnaðarsamband Vestfjarða. Síðan má nefna nokkra einstaklinga: Indriða Aðalsteinsson, bónda á Skjaldfönn. Ég vil líka benda á að Eysteinn Gíslason í ráðgjafarnefnd um villt dýr ásamt Jónasi Helgasyni skiluðu séráliti í klofinni nefnd, ráðgjafarnefnd um villt dýr, þar sem þeir mæla með að veiðar séu hafnar. Fjórðungssamband Vestfirðinga tekur ekki afstöðu.

Hinn hópurinn, sérfræðingar og stofnanir, eru: Náttúrufræðistofnun, meiri hluti ráðgjafarnefndar um villt dýr en sú nefnd er klofin eins og ég gat um áðan, umhvrn., Ísafjarðarbær, Náttúruverndarráð, veiðistjóraembættið og Páll Hersteinsson prófessor. Síðan eru nokkrir hlutlausir aðilar sem koma til sögunnar, leggja ekki mat á þetta og þar er Veiðimálastofnun í Vesturlandsdeild, sýslumaðurinn á Ísafirði skilar ekki sérstöku áliti, tekur ekki afstöðu en veitir ákveðnar upplýsingar og eins gerir líka Guðjón Ó. Magnússon landvörður.

Við stöndum þannig frammi fyrir því að taka afstöðu annars vegar að við styðjumst við og dæmum eftir því fólki sem með eigin augum og langri reynslu allt frá blautu barnsbeini horfir til náttúrunnar og hins vegar hinna sem fyrst og fremst vegna sérfræðiafstöðu sinnar, vil ég kalla, og ég ber fulla virðingu fyrir, telja að ekki séu nægar upplýsingar.

Þegar ég horfi á þetta tvennt á ég auðvelt með að taka afstöðu um þetta málefni. Ég treysti því fólki sem talar af þeirri reynslu og tilfinningu sem heimamenn og aðrir sem ég hef nefnt gera. Það er auðvelt að tína út úr þeim hópi einhverja eins og Æðarræktarfélagið eða aðra sem kunna að hafa þar hagsmuni en það ber líka að gæta að slíkum hagsmunum.

Þannig erum við að tala um tvö efnisatriði. Við erum annars vegar að tala um lífríkið og jafnvægi þess og hins vegar erum við að tala um hagsmuni. Það jafnvægi sem var í lífríkinu og refur og minkur hafði áhrif á hefur breyst með því að veiðunum hefur verið hætt. Ég tel að það megi að sjálfsögðu deila um það frá fagurfræðilegu eða tilfinningalegu sjónarmiði hvort slíkt eigi að gera eða ekki. Ég tel að refur og minkur séu slík dýr að þau nái að halda velli enda þótt veiðar séu stundaðar takmarkað þannig að ég er ekki að mæla með útrýmingu þessara dýra, a.m.k. ekki refsins þó að ég sé reyndar í þeim hópi að hafa litla samúð með minknum. Við getum þannig talað um viðhorf, sjónarmið og tekið okkur tilfinningaorð í munn þegar við ræðum þessi mál.

Þá komum við að hinu atriðinu sem eru hagsmunasjónarmiðin. Það er óumdeilt að minkur og refur hafa áhrif á búskap á Hornströndum. Æðarbændur verða fyrir verulegum búsifjum af völdum refa og minka og hafa komið fram margvíslegar ábendingar, m.a. talningar á æðarungum og eggjum, brotnum og hálfétnum eða étnum, og fleira mætti telja. Slíkar upplýsingar er fullar sannanir og enginn efast um að þær eru rétt fram bornar og óvefengjanlegt að bændur verða þar fyrir búsifjum. Þá er ekki fyrir að synja að refur hafi komist í fé og valdið þar skaða og meiðslum og dauða á búfénaði. Veiðiár eru fáar á þessu svæði og litlar rannsóknir á veiði þar en það vita allir sem til íslenskrar náttúru þekkja hvers konar spjöll refur og minkur og þó sérstaklega minkur getur valdið í veiðiám og er ég þá sérstaklega að tala um silungsveiðiárnar en silungur á einna helst lífvænt í stuttum ám Hornstranda.

Þá ber einnig að gæta að þeim hagsmunum sem þessir bændur hafa vegna vinnu sem þeir þurfa að leggja fram við gæslu í búskaparlöndum sínum. Mikið þarf að vaka yfir æðarvarpi og stugga frá þessum vargi og í það fer ómældur tími og erfiði hjá þessum aðilum. Við hljótum að virða réttindi þessara manna til reksturs í atvinnuvegi sínum og með þeim sérkennum og hefðum sem honum fylgja á Hornstrandasvæðinu.

Ég vil geta um enn eitt atriði sem snertir ekki endilega Hornstrandir heldur má segja að sé almennt atriði þegar við horfum til friðlanda og þjóðgarða. Vissulega er mjög eftirsóknarvert að við nýtum okkur þær leiðir sem friðlönd og þjóðgarðar gefa okkur til þess að vernda landið, hafa á því þá stjórn sem við teljum æskilega og vænti ég þess að þegar árin líða muni enn frekar verða nýttir þeir möguleikar sem þessi friðun leyfir.

Við hljótum þá að koma að hinni almennu spurningu: Ætlum við að láta friðun alltaf eða í langflestum tilfellum ganga á þann veg að allt land, dýraríki og lífríki skuli friðað í því horfi sem það er þegar friðunin er sett á eða ætlum við að hafa þann rétt að koma með einhverjum hætti til íhlutunar í náttúruna í friðlandi eða þjóðgörðum? Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að afsala okkur þeim rétti. Við eigum ekki endilega að friða landið í því ástandi sem það er. Land getur verið svo misjafnlega á sig komið. Það getur verið í hreinum tötrum hvað jarðveg og gróður snertir og eins líka hvað dýralíf snertir að eins og mörgu landi hefur verið spillt hljótum við að ætla okkur það að geta haft áhrif til bóta.

(Forseti (GÁS): Nú vill forseti spyrja hv. þm. hvort langt sé liðið á ræðu hans því ef svo er ekki hefur forseti í hyggju að biðja hann um að fresta henni þar til áðurgreindu þinghléi lýkur, þannig að bón mín er sú hvort hv. þm. sé tilbúinn að gera hlé á ræðu sinni.)

Ég er tilbúinn að ljúka henni á tveimur mínútum.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi atriði sem ég hef nefnt nægi til þess að benda þingheimi á að nauðsynlegt er að hefja takmarkaðar og tímabundnar veiðar undir því eftirliti fagaðila sem getið er um. Ég vænti þess að þingheimur fagni framkomu tillögunnar og samþykki hana á þessu þingi.