Þingfrestun

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 17:02:54 (7647)

1998-06-05 17:02:54# 122. lþ. 147.93 fundur 465#B þingfrestun#, SvG
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við erum komin að lokum óvenjuerfiðs og langs þinghalds. Við höfum afgreitt og gert að lögum 119 frv. eins og fram kom hjá hæstv. forseta. 316 fyrirspurnum hefur verið svarað.

Um þessi mál mörg hver hafa orðið miklar deilur eins og kunnugt er. Meðal annars af þeim ástæðum hefur það farið svo að þingstörf hafa farið út fyrir þær áætlanir sem gerðar voru þegar við hófum störf sl. haust. Staðan er núna þannig að þegar við lítum yfir síðustu vikur er ljóst að þinglokin hafa verið óvenjuerfið. Við erum komin mánuð fram yfir þann tíma sem við ætluðum okkur til þinghalds er við byrjuðum í haust. Því miður hafa átökin á síðustu vikum og mánuðum leitt til þess að það hefur stöðvast a.m.k. um sinn vinna við endurbætur og endurskoðun þingskapa og ég segi fyrir mitt leyti að ég óttast að sá mikli hraði sem við höfðum á afgreiðslu mála síðustu sólarhringa gæti hafa haft það í för með sér að afgreiðsla einstakra mála hafi ekki verið eins góð og við öll vildum. Þetta er veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og ég tek undir það í þessum lokaorðum með hæstv. forseta að af þessu þurfum við að læra og bæta vinnubrögð Alþingis.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir stjórn hans á þinginu í vetur og samstarf við hann. Ég þakka einnig varaforsetum þingsins, skrifstofustjóra og starfsliði öllu fyrir framúrskarandi vinnu á undanförnum mánuðum, ekki síst undanförnum vikum við erfiðar aðstæður. Ég vil einnig flytja formönnum þingflokka öðrum þakkir fyrir það samstarf sem við höfum átt í vetur og ég vil að síðustu óska hæstv. forseta og fjölskyldu hans góðs og gleðilegs sumars og vona að við hittum hann heilan og hressan eftir sumarleyfi, í haust þegar þingið kemur saman. Ég bið hv. þm. um að rísa á fætur og taka þannig undir óskir mínar til hæstv. forseta. --- [Þingmenn risu úr sætum.]